Hvar er rætt um foreldrajafnrétti ???

Staðreyndin er að mesti kynbundni munur á kynjunum er í foreldraábyrgð

Um það fjallar ekki frumvarpið!

Ný Jafnréttisstýra sagði í Fréttablaðinu þann 2 sept sl.

"Stundum heyrir maður raddir um að jafnréttisbaráttan hafi orðið til þess að tekið hafi að halla á karlmenn. Þar finnst mér umræðan komin í algert öngstræti. Það á sér stað mjög alvarleg umræða um forræðismál og réttindi einstæðra feðra. Það þarf að fara mjög gætilega í slíkum málum því fyrst og fremst eru það hagsmunir barnanna sem eiga að ráða".

Nú er allar rannsóknir sem sýna að báðir foreldar eru bestu hagsmunir barna og gott yfirlit um þær rannóknir hér. og einnig hér

Við jafna foreldraábyrgð sækja kynin á sömu forsendum fram á vinnumarkaði. En FORELDRAJAFNRÉTTI  er ekki á dagskrá í frumvarpinu.   Á meðan svo er þá verður alltaf halli á jafnréttismálum á Íslandi, konum og  körlum í óhag. 

 

 


mbl.is Frumvarpi að nýjum jafnréttislögum dreift á Alþingi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra fyrir Runólfi !

Runólfur Ágústsson,  framkvæmdastjóri Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, skrifar mjög góða grein í Morgunblaðið í dag.  Þar fjallar hann um hina hliðina á jafnréttismálum, þ.e. mun í foreldraábyrgð kynjanna.  Hann segir m.a.

"Yfir 95% leikskólakennara hérlendis eru konur. Um 80% kennara við grunnskóla landsins eru konur. Margir ungir drengir búa hjá mæðrum sínum án daglegrar umgengni við feður sína eða aðra karlmenn. Konur sjá því um uppeldi, mótun og menntun sona okkar bæði á heimili og í skólunum. Hvar eiga drengir að fá eðlilegar fyrirmyndir í sínu uppeldi og sinni kynjamótun. Árangur þeirra í skólakerfinu er hörmulegur og spyrja má hvort hér séu tengsl á milli. "

Hann fjallar svo um að umræðan um jafnrétti snúist um að fjölga konum í stjórnunarstöðum en spyr hvort ekki vanti að fjölga körlum í umönnunarstörfum og auka vægi þeirra í uppeldi barna.  Hann segir í niðurlagi.

"Er ekki kominn tími til að stokka upp þetta kynskipta samfélag þar sem karlar hugsa um peninga og konur um börn? Flest virðist benda til þess að slíkt muni skila okkur auknum árangri á báðum sviðum."

Á fyrsta feðradaginn á Íslandi  í fyrra  hélt Félag ábyrgra feðra ráðstefnu.  Þar fjallaði ég um svipuð mál og Runólfur talaði um, en ræðan er hér og glærurnar hér.

Grein Runólfs er aldeilis orð í tíma töluð og þar bendir hann á hina hliðina á jafnréttismálum, sem vantar alfarið.    Samfélagið þarf á þessari umræðu að halda og það er full ástæða að hrósa Runólfi fyrir þessa grein.

 


Fjölskyldan stækkar !

Fyrir  síðustu jól bað amma mig að prenta allt út sem stæði um sig, afa og þeirra börn.  Ég gerði það og færði henni og spurði jafnframt hvort henni fyndist eitthvað vanta.  Hún svaraði, að þegar hún hafi kynnst afa í byrjun seinna stríðs, þá hafi  verið fætt stúlkubarn, sem afa var kennt. Hann hafi ekki verið viss hvort hann ætti stúlkuna, en barnsmóðir hans var einnig í “ástandinu”.   Amma sá aldrei barnið en sagðist vita að stúlkan hefði heitið Guðrún og hefði flust til Bandaríkjanna með móður sinni sem giftist hinum ameríska hermanni.   Hinn ameríski hermaður ættleiddi svo dóttir afa.  Þessi leynifrænka kom ekki fram í Íslendingabok en það var það sem amma var að velta fyrir sér.

 

Mér fannst nú  dálítið merkilegt að hugsanlega ætti mamma hálfsystir í Bandaríkjunum, sem enginn vissi um. Hvað vissi sú kona um okkur, átti hún börn og ýmsar svona spurningar fóru í gegnum hugann.  Hún var skýrð Guðrún, eins og  mamma í höfuðið á  langömmu, Guðrúnu Jensen. 

 

Ég sendi Íslendingabok tölvupóst og sagði þeim þær upplýsingar sem ég vissi  og spurði hvort hægt væri að rekja þetta mál.  Svarið kom og sagt að þau gætu ekki rakið þetta, en ef ég vissi nokkurn veginn hvaða ár þetta var, hvað faðirinn hét og barnið hét, þá gæti Þjóðskjalasafnið örugglega fundið þetta í skírnarbókum kirkjunnar í Reykajvík.  Borgin var bara lítill bær í byrjun seinni heimstyrjaldar og það væri  ekki mikið mál að fletta þessu upp.  Ég fór  á Þjóðskjalasafnið með sömu upplýsingar og ég hafði sent Íslendingabók.   Þetta var milli jóla og nýárs 2006.  Í byrjun janúar 2007, fékk ég svo póst frá Þjóðskjalasafninu.   Þar fékk ég þær upplýsingar að konan, þessi leyni frænka væri fundin. Hún hét Þorbjörg Guðrún fædd 3.ja jan 1939 ! Bréfið frá Þjóðskjalasafninu var dagsett 3.janúar 2007 á afmælisdaginn hennar. Í skírnarvottorðinu stóð,

  • Fullt nafn barns Þorbjörg Guðrún,
  • Skírt þann 23.júlí 1939. 
  • Foreldrar:  Margrét Jónsdóttir ógift vinnustúlka, Ránargötu 5a, 17 ára og Jóhann P. Guðmundsson húsgagnasmiður.
  • Skírnarvottar: Halldóra Jónsdóttir, Þórhallur Jónasson, og Jón Sigurðsson.
 

Svo kom líka afrit af heimilisfólkiinu að Ránargötu 5a, Reykjavík en þar voru þá til heimilis haustið 1939.

  • Jón Sigurðsson, vélamaður fæddur 12.1.1887
  • Halldóra Vilborg Jónsdóttir, kona, fædd 15.10 1885
  • Fríða Jóhanna Jónsdóttir, dóttir, fædd 03.06.1914
  • Ebba Unnur Jónsdóttir,  dóttir, fædd 09.10.1918
  • Margrét Jónsdóttir, dóttir fædd 12.09.1921
  • Málfríður Guðbjörg Jónsdóttir, fædd 16.8.1923
  • Þorbjörg Guðrún Pétursdóttir, dóttir fædd 03.01.1939
 

Jón Sigurðsson og Halldóra Vilborg voru semsagt amma og afi þessarar frænku minnar, foreldrar Margrétar barnsmóður afa.  Ég fór því með þessar upplýsingar til ORG ættfræðiþjónustu hjá Oddi Helgasyni. Hann prentaði svo út fyrir mig alla afkomendur Jóns  og Halldóru Vilborgar.  Þá var ég kominn með ættartöluna hennar.  Ég fór svo að reyna að hafa uppá afkomendum.  Fyrsta sem ég hringdi í var kona sem heitir Bára og er ljósmyndari að atvinnu.  Ég sagði henni söguna og hún kannaðist vel við að eiga frænku í Bandaríkjunum, sem hefði flust þangað sem barn.  Hún kallaði hana Bobbu frænku.   Hún vissi aftur á móti ekkert meir,  en sagði að ég yrði að hafa samband  við Loft eða Ebbu. Þau væru einu sem gætu verið í samskiptum við hana.    Hjá Ebbu fékk ég bara símasvarann og Loftur kannaðist alveg við þetta en var mjög lokuð bók.  Ætlaði að hringja seinna en gerði  það ekki.  Hér var ég farinn að velta fyrir mér hvort ég ætti að stoppa hér.  Svo ákvað ég  að hringja einu sinni í Ebbu og þá svaraði.  Ebba. Hún og maður hennar Jónas bjuggu á Bifröst og voru búin að vera erlendis.  Hún kannaðist nú aldeilis við Bobbu. Þorbjörg Guðrún, sem fékk nafni Barbara þegar hún fór til Bandaríkjanna og heitir í dag Barbara Jeffreys og býr  í Michigan.  Hún sagði að eftir að Þorbjörg Guðrún fór út sem barn, þá hafi hún bara tvisvar komið upp og talaði litla sem enga íslensku lengur.  Móðir hennar og hinn ameríski faðir eru bæði látin.   Bobba eignaðist ekki fleiri systkini og hún á tvo syni, Mike og Steven og hvorugur  þeirra á börn.  Ebba  var ekk viss hvað Bobba vissi um föðurfólk sitt, en sagði að hún hefði ekki komið til Íslands síðan 1975. Hún gaf mér heimilisfang hennar og tölvupóst. 

 

Ég sendi svo tölvupóst á rakti alla söguna sem ég hef hér sagt. Svo fór ég í búð.  Við kassann var hringt í gsm símann og það var frá Bandaríkjunum.  Hello, This is Bobba calling, do you thing your grandfather was my father” ? Svo áttum við stutt spjall og marga tölvupósta.  Þegar búið var að skoða myndir og þess háttar, þá var alveg ljóst að þetta stemmdi allt saman og hún hafði ættleiðingarpappíra sína, sem afi hafði undirritað.  Þannig var komin ný frænka í leitirnar !!! Mjög óvænt.

 

Annað sem gerðist við einhverja uppfærslu á Íslendingabók var að aukafrændi kom í ljós í Íslendingabók, bróðursonur mömmu, og fáir vissu um,  en það er önnur saga.

 

Það er alltaf skemmtilegra þegar fjöskyldur stækka og margfalt gleðilegra en þegar fækkar í fjölskyldu.  Gaman að eiga "nýja"  móður systur í Bandaríkjunum og nýtt systkynabarn í Reykjavík.

 

Gísli Veigar 9 ára.

Gísli Veigar er 9 ára í dag.   Til hamingju elsku drengurinn minn.

Knús frá Pabba og Bergrós 

sumar kanada og jol  2006 002


Smá mont !

Eyleif dóttir mín hefur æft fótbolta með Leikni undir styrkri stjórn Sævars, sem heldur vel utan um skemmtilegan hóp af stúlkum.  Nú á uppskeruhátíð  Leiknis eftir sumarið fékk stúlkan mín viðurkenningu fyrir mestu framfarir síðasta sumar.   Til hamingju snúllan mín.   Á vef 5 flokks Leiknis stendur.

"Mestar Framfarir:
Eyleif Ósk Gísladóttir
- Var svolítið lokuð á fyrstu æfingunum og vildi stundum ekki prófa nýja hluti. Vildi stundum hætta ef eitthvað gekk ekki alveg upp. En svo fór hún að þora að prufa og reyna nýja hluti og þá fóru hlutirnir að gerast. Flott mætingasókn, eftirtekt á æfingum og vilji til að læra stórbætti hana. Glæsilegt alveg."

Læt svo fylgja með tvær myndir, önnur af Gísla Veigari  og  Eyleif Ósk og hin af Leiknsstelpunum og er Eyleif til hægri í neðri röð

 IMG 2230Leiknisstelpur

 


Þörf og mikilvæg stund.

Það er mikilvægt að samfélagið  fjalli meir um sjálfsvíg.  Ég hef lengi ætlað að blogga um þetta og fór fyrir nokkru að skoða þessi mál af vef Hagstofunnar.  

Á árunum 1986-2005 falla 648 Íslendingar fyrir eigin hendi.   Af þessum 648 einstaklingum eru 502 karlar eða 77%.  Oft eru það ungir karlmenn. Borið saman við ýmsar aðrar dánarorsakir þá er þetta mjög há tala. Sjá töflu hér að neðan.

Hjá konum er virkt forvarnarstarf fyrir leit að  bæði brjósta og leghálskrabbameini.   Úr þessum tveimur sjúkdómum létust 1248 konur á árunum 1986-2005.

Á árunum 1986-2005 látast 1356 karlar vegna krabba í blöðruhálskirtli og sjálfsvíga (854+502).  Það er ekki eins skipulögð leit að blöðruhálskirtlakrabbameini fyrir karla eins  og er hjá konum við brjósta og leghálskrabbameini.   Það er lítið fjallað um sjálfsvíg, en 77 % af sjálfvígum eru karlmenn og oft ungir karlmenn jafnvel unglingar. 

Það er full þörf á að karlar gangi jafn skipulega til krabbameins leitar í blöðruhálskirtli, eins og konur gera við brjósta og leghálskrabbameini. 

En það er ekki síður þörf  á að samfélagið geri átak og rjúfi þögnin sem allt um lykur sjálfsvíg.  Fræðsla um sjálfsvíg þarf að komast í grunnskóla og það þarf stórátak í þeim efnum. Ekki síður þurfa allir landsmenn að vita hvert eigi að leita þegar þungi tilverunnar er að buga menn.  Tugir manna falla á  hverju ári fyrir  eigin hendi. Það er alltof há tala.  Vonandi verður minningarstunding í Hallgrímskirkju upphafið að einhverju meiru í þeim efnum og upphafið að virkari  forvarnarstarfi.

 

Tafla:  Íslendingar látnir eftir ýmsum orsökum á árabilinu 1986 til 2005

Sjálfsvíg648
Eyðni26
Illkynja æxli í leghálsi, legi og  eggjastokki493
Brjóstakrabbamein755
Blöðruhálskirtill854
Lagnvarandi alkóhólismi50
Flutningaóhöpp.662
Heimild. www.hagstofa.is


mbl.is Fórnarlamba sjálfsvíga minnst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útgáfutónleikar !!!

Dúkkulísur og Guðmundur R.

Hvenær: Fimmtudaginn 11. október kl. 20:30

Hvar: Skemmtistaðurinn Organ í Hafnarstræti Reykjavík

Miðaverð: 1000 kr.

Nýir geisladiskar Dúkkulísa og Guðmundar til sölu á staðnum gegn vægu gjaldi.

 

Vigo og Lincoln

Á morgun legg ég í ann heim frá Lincoln eftir að hafa verið á Sjávarútvegssýningunni í Vigó á Spáni og svo búinn að vera í höfuðstöðvum Eagle Seafoods, sem eru hér í Englandi. Mjög áhguaverð ferð.

Það er gaman að koma til Vigo.  Hér rekst maður meir á ómengað Spánskt umhverfi, öfugt við hefðbundna túrista sólarströnd Spánar við Miðjarðarhaf, þar sem maður hefur á tilfinningunni að  ferðamennskan hefi yfirtekið samfélagið.   Vigo er í Galiseu sem er fylki eða hérað fyrir  norðan Portúgölsku landamærin.  Íbúar eru gallar, eins og þeir í Ástríks bókunum. Ef maður skoðar kortið hér að neðan hægra meginn, þá er það nánast eins og í Ástríks bók, þ.e. , nes út við sjó og þar býr einstakt fólk.  Íbúar Galíseu eru skyldir Skotum og eru af keltneskum uppruna.  Þannig eiga Galiseu menn sekkjarpípu eins og skotar, þó öðruvísi sé.  Einnig heitir fótboltaliðið Celta Vigo og Celta er Celtic eða Kelti.  Galiseu menn og Skotar eru stoltir af uppruna sínum og halda í sínar hefðir, þannig eru báðir líkir Gaulverjunum í Ástríksbókunum!!!!   Mér fannst fólkið í Vigo bæði fallegt og vinalegt og ekki spillir að þarna er fínt veðurfar.  Landslagið í Vigo er vogskorin strönd og fjöll og landið allt tilkomumikið.

vigo brúinGalisia

Vigo er stór sjávarútvegshöfn og þar er landað mikið af ferskum afla. Þannig veiða Spánverjar mikinn afla sjálfir en flytja einnig mikið inn af afla. Spánn og Portúgal hafa verið áratuguvigo inngangurm saman mikilvægir markaðir fyrir íslenskann fisk.    Saltfiskmarkaðir við miðjarðarhaf urðu til snemma á síðustu öld. Sameiginlegt með þeim löndum sem kaupa mest saltfisk (Spánn, Portúgal og Ítalía) er að þetta eru kaþólsk lönd.  Saltfiskurinn var mikið borðaður á föstutímabilinum, þegar kaþólikkar neyta ekki kjöts. Eitt sinn varð til orðatiltækið  á Íslandi "lífið er saltfiskur" en það varð til á millistríðsárunum þegar nánast allur afli á Íslandi var saltaður, enda var það fyrst eftir seinni heimstyrjöld sem hraðfrysting ruddi sér til rúms.   Matur á Spáni er aldeilis frábær en nútíminn setur sitt mark þar eins og annarsstaðar í hinni vestrænu menningu.  Skyndibitinn og snakk er vaxandi neysluvara unga fólksins.

Eftir Vigo var farið til  Lincoln.  Það er gott að koma til Lincoln, þar sem ég bjó í 3 ár og ekki sakar að vera á frábæru heimili hjá Höska og Úllu.  Lincooln vex og það eru nýjar byggingar sem rísa enda er borgin miðstöð þjónustu fyrir svæðið, með bæði háskóla og sjúkrahús.   Dómkirkjan í Lincoln setur alltaf svip sinn á borgina en lincoln cathedralhún er nánast 1000 ára gömul.  Þorlákur helgi Þórhallsson, sá er Þorlákshöfn og Þorláksmessa er kennd við nam hér í Lincoln á árunum 1157  til 1159, en þá var kirkjan langt kominn í byggingu.    Eftir að hann varð biskup í Skálholti þá fór hann til Þrándheims til biskupsvígslu enda heyrði íslenskan kirkjan undir  biskupinn í Niðarósi (Þrándheimi).  Dómkirkjan í Þrándheimi er  nauðalík kirkjunni  í Lincoln, enda var víst samgangur á milli staðanna á þeim árum og eitthvað af súlum og annað eins í þessum byggingum eins !  Um miðja síðustu öld var hér mikill stáliðnaður, sem er að mestu horfinn.  Þannig var fyrsti skriðdrekinn í fyrri heimmstrjöldinni smíðaður í Lincoln og hér voru framleiddar bátavélar er hétu Ruston og voru í ýmsum síðustogurum og bátum sem smíðaðir voru um miðja síðustu öld.  Tímans tönn breytir flestu.  Nóg um það.

Það verður gott að koma heim til Bergrósar og hitta svo börnin fljótlega.  Norðmenn eiga orðatiltæki "borte bra, hjemme  best" og eru það orð að sönnu.


Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Okt. 2007
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 187346

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband