Hin klisjan um kynin

Önnur klisja um kynin er að karlar séu margfalt ofbeldisfyllri en konur.  Ég vil benda á vísindagreinasafn sem fjallar um að konur eru minnst jafn ofbeldisfullar  og  karlar, þeirra ofbeldi er þó öðruvísi.  Framsetning á ofbeldi hér á landi  og í Skandinavíu er  að karlar séu gerendur í 80-90% af öllu ofbeldi.  Þetta er trúlega fjarri öllu sanni.  Skv rannsóknum eru oftast báðir aðilar ofbeldisfullir, þegar ofbeldi er í parasamböndum. Um það má lesa hér.   Um þetta er ekki fjallað.
mbl.is Rannsókn: Karlar eru málgefnari en konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul bekkjarmynd.

Vinur minn og gamall bekkjarbróðir Gunnar Þorsteinsson er í heimsókn.  Hann gaf mér gamlar myndir, m.a. þessa sem var af annarri bekkjardreild 1964 árgangsins.  Þetta er trúlega tekið í 4. bekk sem í núverandi kerfi væri 5 bekkur.  Kennari var Guðríður Kristjánsdóttir.  Ég er lengst til hægri í næst fremstu röð.  Myndir sem Gunnar lét mig fá má sjá hér


Lyfjameðferð hefst

Foreldrar mínir komu suður í gær og í dag fór ég með þau á LSH.  Hittum ágætan lyfjalækni Friðbjörn Sigurðsson.  Hann var heiðarlegur og sagði eins og var að sjúkdómurinn hjá pabba væri illvígur og langt gegninn.  Það breytir ekki því að það er oft ótrúlegt hvað meðferðir hjálpa og bæta lífsgæði sjúklinga, þó þeir þurfi að lifa með sjúkdómnum.  Það var ákveðið að pabbi fer í 8 vikna lyfjameðferð. Hann getur verið fyrir austan mest allan tímann en kemur aðra hverja viku suður til að fá lyfjagjöf í æð. 

Eftir skoðun fór hann að fá lyfjagjöf í æð, en ég fór að útrétta og fór m.a. niður á Tryggingarstofnun ríkisins.  Það er sérstakt að koma þar inn og taka númer og láta starfsmannin fá pappíra pabba.  Þar er manni tilkynnt að það taki tvær vikur að komast inní kerfið, svo TR greiði eða taki þátt í  kostnaði vegna lyfja og stomapoka.  Maður hugsaði tvær vikur að skrá einstakling inní eitthvað kerfi.  Það er greinilegt að þetta er steinrunnin ríkisstofnun, þar sem hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir.  Enda skilst mér að stutt sé síðan starfsmaður varð uppvís að því að stela tugum milljóna og fráfarandi forstjóri sagði að það vantaði allar heildarstefnumótun fyrir stonfunina.  Það er mikil gæfa að hafa ekkert þurft að sækja til þessarara stofnunar.

Ég sótti svo pabba og mömmu á sjúkrahúsið, en pabbi fór beint í rúmið,  orkulítill eftir lyfjagjöfina. Þau fara svo austur á morgun, sem er gott.  Það er nú þannig að heima er best og í slíkum tilvikum er það langt best að vera heima ef mögulegt er.


Feðradagurinn

Á vordögum 2006 gaf Félag ábyrgra feðra út blaðið Ábyrgir feður.  Þar var m.a. fjallað um að enginn feðradagur var á  Íslandi. Áður hafði félagið bent á það m.a. í útvarpsviðtölum og í blaðagreinum.  En það var fyrir tilstuðlan tveggja kvenna sem Félagsmálaráðherra gerði annan dag í nóvember að sérstökum feðradegi. 

Fyrsti feðradagurinn var haldinn 12.nóvember 2006.  Af því tilefni hélt Félag ábyrgra feðra ráðstefnuna "Feður í samfélagi nútímans"Myndir af ráðstefnunni eru hér

12.11.06, Stórn FÁF, Tom Beardshaw  og Vigdís  Finnbogadóttirað lokinni  ráðstefnunni, Feður í samfélagi nútímans

Ég held að þessi ráðstefna í fyrra og útgáfa á blaðinu Ábyrgir  Feður hafi á margan hátt verið vendipunktur í starfsemi félagsins.  Á sama tíma og málflutningurinn varð agaðri, þá varð hann einnig hófsamari en jafnframt einbeittari.  Fleiri lögðu við hlustir þegar félagið hóf raust sína. Þannig var vel mætt á þessa ráðstefnu, fólk á öllum aldri, báðum kynum og bæði þingmenn og ráðherra. 

Félag um foreldrajafnrétti (nýtt nafn á Félagi ábyrgra feðra), hélt aðra stórglæsilega ráðstefnu nú á öðrum feðradeginum hér á landi, þann 11.nóv sl.   Almennt fannst manni eins og það væri einhugur á ráðstefnunni um það þarf að breyta mörgu.  Málstaður foreldrajafnréttis er vaxandi, þ.e. að meginreglu skuli öll börn skuli alast upp hjá báðum foreldrum, óháð hjúskaparstöðu foreldranna.

Athyglisvert fannst mér að félagið dreifði aftur blaðinu Ábyrgir feður, sem þó var gefið út um vorið 2006, en efnið á ennþá fullt erindi inná borð svona ráðstefnu og til ráðamanna þjóðarinnar. 

Foreldrajafnrétti er hinn hluti af jafnréttisumræðunni og hinn vanrækti hluti af þeirri umræðu.  Þannig hefur Félag um foreldrajafnrétti mikilvægt hlutverk að stuðla að áframhaldandi breytingum í okkar samfélgi, börnum, foreldrum og samfélaginu til heilla.

 


Ástralía: Ömmur og afar í fæðingarorlof?

Ástralir ræða nú af fullri alvöru að veita ömmum og öfum  rétt til að taka launalaust fæðingarorlof ! Núverandi ríkisstjórn í Ástralíu lofar þessu ef stjórnin nær endurkjöri þann 24.nóvember n.k. Eru andfætlingar vorir að snú öllu á haus eða er þetta bara hið besta mál að lögtryggja rétt ömmu og afa við að styðja við uppeldi á barnabörnunum ??.  Ungur nemur gamall temur á sjálfsagt vel við hér og sannarlega forvitnileg tillaga hjá Áströlum.

Annars lýsi ég eftir íslensku orði fyrir grandparents ?

Fréttin er hér


Ónýtt íslensk nöfn

Fyrir  ríflega ári síðan, eyddi ég drjúgum tíma í að taka saman sjaldgæf íslensk nöfn.

Á síðustu áratugum hafa orðið til mörg ný mannanöfn í íslensku máli.  Oft eiga þau nöfn uppruna í erlendum málum.  Íslenskan er samt rík af nöfnum.

 

Hjálagt er listi af nöfnum sem enginn eða fáir heita en eru rammíslensk.  Sum orðin kunna að virðast með neikvæðum blæ eins og Bjálfi, Böðmóður og Bölverkur. Önnur eru framandi, eins og Rafarta, en hún var dóttir Kjarvals Írakonungs og móðir Helga Magra er nam land í Eyjafirði.  Knjúkur er meðal fornustu nafna sem Landnámabók geymir. Er nefndur Knykur í fornbréfasafninu en á líklega að vera Knjúkur. Ósvífur var faðir Guðrúnar Ósvífursdóttir er var “kvenna vænst, er upp óxu á Íslandi, bæði at ásjónu ok vitsmunum” segir í Laxdælu.  Þannig eiga mörg nöfn  sér sögu.  Dýranöfn eru oft notuð við nafngiftir eins og Hrafn, Örn, Ormur, og Ugla en nöfnin Fálki, Rjúpa, Kálfur,  Refur og Skúmur eru ekki nýtt í dag.  Keltnesku nöfnin Kjarval og Kiljan þekkjum við af frægum listamönnum.  Ónýtt keltnesk nöfn eru m.a. Kjallakur og Kjalvör.  Ýmsir staðir bera nöfn, sem hafa verið mannanöfn en eru lítið eða ónýtt í dag. Staðurinn Hrifla er til, en einungis einn einstaklingur hefur borið það nafn.  Einnig var þekktur stjórnmálamaður kenndur við staðinn Hriflu.   Böggvistaðir, Kjallaksstaðir, Kýlanhólar, Álaugarey, Ímastaðir og Lýtingsstaðir eru til en engin ber þessi nöfn í dag, þó einstaklingar hafi heitið þeim fyrr á öldum.  Mörg gömul nöfn sem ekki voru notuð í aldir hafa verið nýtt á síðustu áratugum, s.s. Dufþakur, Dalla og Eyjar.   Ýmis ný nöfn af íslenskum stofni, eins og Vöggur, Draupnir og Fífa  hafa litið dagsins ljót. Nafnið Rökkvi var fyrst til árið 1978 og í dag bera 30 manns þetta nafn.  Þessi nýju mannanöfn hafa auðgað nafnaflóruna í íslensku máli.

 

Það er full ástæða fyrir foreldra að gaumgæfa vel hvort eitthvað af ónýttum eða lítt nýttum íslenskum nöfnum geti komið til greina við skírn á barni, t.d. Ásleifur Bresi nú eða jafnvel nota eitt sjalgæft nafn sem millinafn, t.d. Áli, Brúni, eða Kolli.  Nafn er ævivarandi heimamundur  einstaklings. Sum fágæt nöfn geta verið hluti af einkenni  viðkomandi ættar.    Auðgum íslenskt samfélag með fágætum en fallegum  ramm íslenskum nöfnum.

 

Skrifað af Gísla Gíslasyni Gíslasonar, sem á soninn Gísla !


Sá gamli blístrar aftur !

Þegar við Bergrós komum til pabba í dag þá var hann í rúminu. Hann lék við hvern sinn fingur og fór svo fram úr.   Ég spurði hann hvort þetta væri ekkert erfitt eftir stómaaðgerðina.  Svarið var stutt  og laggot og hann hallaði höfði eins og hann gerir stundum en hann sagði  "isssss þetta ekkert mál, það var miklu verra að fara fram úr eftir kviðslitið um árið".     Svo þurfti hann að  fara á salernið að pissa.  Þegar maður horði á eftir honum labba létt um ganginn, þá blístraði hann lag.  Maður hugsaði, nú hann bæði hallar höfðinu og segir "iss" og er léttur á fæti og blístrar.  Þetta er sami glaði Gísli Beggi, pabbi, sem maður á að þekkja. 

Við hittum svo Ívar og  Jónu, systir pabba, sem og Imbu, systir mömmu og Jón Rafn manninn hennar.  Alltaf gaman  að hitta skyldfólkið.   Áðan sótti ég svo Guðmund bróðir út á völl og við fórum aðeins á LSH.  Sá gamli var bara  út á gangi á labbi og leit vel út, sagði aftur iss og blístraði þegar við kvöddumst.  Sannarlega góð bata merki.  Og þegar svona er þá veit maður að hvernig sem fer, þá verður það alltaf sigur andans yfir efninu.


Velheppnuð stómaaðgerð

Í gærmorgun fór pabbi í aðgerð.  Þá var settur stóma poki vinstra meginn.  Það var gert með svokallaðri hnappagatsaðferð.  Þetta tókst vel og breytingin á föður mínum var mikil. Hann var búinn að vera sárkvalinn í nokkra daga og látið stórlega ásjá, enda tóku veikindin bæði á líkama og sál.  Eftir stómaaðgerðina, þá var allt annað að sjá hann, enda áreynslan og vanlíðan við að koma frá sér hægðum ekki lengur til staðar.  Líðan hans var því allt önnur og lék hann við hvern sinn fingur.  Sannarlega ánægjuleg breyting.

Pabbi er heppinn að herbergisfélagi hans er sjómaður af suðurnesjunum. Þannig að umræðu efnið hjá þeim þrýtur ekki,  hvort sem spjallað er um glímuna við Ægi konung, sóknina í þann gula nú eða silfur hafsins,  kvótakerfið eða bara um landsfeðurna.    Sameiginlegur reynsluheimur gefur þeim fullt af tækifærum til umræðu. 

Nú þarf hann að ná sér af stóma aðgerðinni en í framhaldinu verður svo farið í geisla og lyfjameðferð.


Veikindi í fjölskyldunni.

Hið slæma bankar uppá í lífi okkar allra.  Pabbi hafði átti við ósköp venjulega hægðartregðu að stríða.  Ekki óeðlilegt hjá 68 ára gömlum manni.   Þetta varð þrátlátt og við rannsókn á Fjórðungssjúkrahúsinu  í Neskaupstað kom í ljós að það var stórt æxli í endaþarminum. 

Í þessari viku komu svo foreldrar mínir til Reykjavíkur svo að faðir minn gæti farið í frekari rannsóknir á Landspítalanum við Hringbraut.   Því miður kom ekkert gott út úr þeim.  Æxlið var ekki staðbundið í endaþarmi, heldur komið í eitla þar við.  Það sem öllu alvarlegra var að meinið var komið í lifrina og þannig er sjúkdómurinn krónískur.  Þetta voru ákaflega slæm tíðindi.  Ég var með foreldrum mínum þegar þeim voru borin þessu slæmu tíðindi.  Læknirinn Kjartan Helgi Sigurðsson gaf af sér fádæma góðan þokka við svo erfiðar aðstæðar. Það er ekki sama hvernig fólki eru tilkynnt slæm tíðindi en hann gerði það einstaklega vel.   Enn og aftur dáðist ég að foreldrum mínum.  Þau hafa tekið þessu af æðruleysi og miklum styrk en síðast en ekki síst þá veita þau hvort öðru allan þá styrk og hlýju sem hægt er. 

Guðmundur bróðir kom strax suður þegar ljóst var hversu alvarlegt ástandið var og er alltaf ánægjulegt að hafa hann hér á heimilinu.    Á morgun fer svo pabbi í í stóma aðgerð  en það er forsenda fyrir því að hann geti svo farið í krabbameinsmeðferð til að hægja á þróun sjúkdómsins.  Í hönd fer því sérstakur tími að berjast vð þennan illvíga sjúkdóm. 

 


Dögg Pálsdóttir með þarft lagafrumvarp.

Dögg Pálsdóttir er lögfræðingur og varaþingmaður hefur lagt fram mjög þarft lagafrumvarp um breytingar á sifjalögum. 

Dögg er sérfræðingur um sifjamál, enda starfað sem lögfræðingur á þessu sviði um árabil. Hún veitti forstöðu nefnd sem hét Forsjárnefnd og lagði fram framsæknar tillögur um breytingar á barnalögum.  Þetta gerði nefndin bæði árið 1999 með áfangaskýrslu og með lokaskýrslu árið 2006.   Því miður hafa mörg mál sem lögð voru til ekki hlotið lagagildi.

Dögg leggur nú fram frumvarp sit sem þingmaður og er það von að það hljóti brautargengi á þing. Frumvarpið er hér

 


Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Nóv. 2007
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 187343

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband