Góðar fréttir !

Það er ánægjulegt að undir forystu Björns Bjarnasonar, Dómsmálaráðherra skuli meðlagskerfið á Íslandi vera tekið til endurskoðunnar.

Björn hafði forgöngu um það á síðasta þingi að forsjá barns skuli að meginreglu vera sameiginleg við skilnað foreldra.  Slíkt fyrirkomulag er búið að vera til staðar í nokkurn tíma í þeim löndum sem við berum okkur saman við. 

Björn opnaði einnig á umræðu um að gefa dómurum heimild til að viðhalda eða dæma í sameiginlega forsjá, telji dómari það barni fyrir bestu.  Því miður komst það ekki í gegnum þingið.  Ísland er í dag eitt eftir í hinum vestræna heimi sem bindur hendur  dómara þannig að þeir þurfa alltaf að svipta  annað foreldrið forsjá ef forsjárdeila fer fyrir dómstóla.  Dögg Pálsdóttir er með þarft frumvarp sem tekur á þessu og vonandi hlýtur það brautargengi í þinginu.  Fordómar og fáfræði um þennan málaflokk er mikill og það hefur  hallað of mikið á börn og feður í þeirri umræðu.

Á vef Dómsmálaráðuneytisins má finna skýrslu þá er ég vann og var mikilvægur gagnagrunnur sem varð þess valdandi að ráðherra ákvað að endurskoða kerfið. Skýrslan er hér og heitir "Meðlagskerfi: Ísland og önnur lönd"


mbl.is Meðlagskerfið endurskoðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1964.is er vefur dagsins á www.leit.is !!

Hróður vefsins hans Kidda www.1964.is fer víða.  Á www.leit.is er vefurinn tilnefndur sem vefur dagsins.  Þar segir m.a.  

"1964.is er vefur fyrir alla 1964 árganga landsins. Neskaupstaður ríður á vaðið en að baki 1964.is eru nú 54 fullkomlega sjálfstæðir vefir þar sem hver einstaklingur í árganginum hefur sitt persónulega vefsvæði."  


Fermingarbarnamót 1964 árgangsins í Neskaupstað.

Það er ákveðið að haldið verður fermingarbarnamót 1964 árgangsins í Neskaupstað um Sjómannadagshelgina.  Í æskunni var Sjómannadagurinn einn stærsti viðburður sem haldinn var í Neskaupstað, enda öll skip í landi og þannig "fullmannað" í bænum.   Það á því vel við að halda fermingarbarnamótið Sjómannadagshelgina.  Einnig eru árgangar 1954 og 1974 með fermingarbarnamót á staðnum þessa helgi.

Árgangur 1964 er  stærsti árgangur  sem hefur fæðst í Neskaupstað og hefur þannig nokkra sérstöðu.  Nú þegar boðað er til fermingarbarnamóts, þá eru 54 einstaklingar boðaðir .  Á árunum í kringum 1964 var uppgangur og bjartsýni ríkjandi í Neskaupstað.  Sumarveiðar á síld sem áður voru stundaðar fyrir norðurlandi voru nú stundaðar fyrir austan land.  Þetta ár keypti Síldarvinnslan sinn fyrsta bát Barða NK 120, en báturinn kom fyrst til heimahafnar árið 1965.  Með því hófst útgerðarferill þessa fyrirtækis sem hefur verið burðarbjálki í atvinnulífi staðarins æ síðann.   Nú er aftur ríkjandi bjartsýni eystra enda hefur álver Fjarðarál hleypt nýju lífi í svæðið allt. Þannig er aftur ríkjandi bjartsýni í þessum fallega fjórðung sem vonandi heldur áfram um ókomna tíð.

Við sem eru í 1964 árganginum erum stolt og ánægð með frumkvæði Kidda á Sjónarhól, sem hefur útbúið stórglæsilega heimasíðu fyrir mótið.  Hægt er að skoða hana á www.1964.is.    Fullt hús stiga til Kidda og það verður fjör fyrir  austan um Sjómannadagshelgina.


Gleðilegt sumar!

Sumarið er komið og trampólínið komið víða í garða.   Trampolín í  garða og grilllykt í loft eru merki um að sumarið er í nánd.  Set inn mynd frá í fyrra eina af Tinnu og Eyleifu á trampólíninu og hina úr garðveislu hjá Heimi bróði.

 sumar kanada og jol  2006 030sumar kanada og jol  2006 007


Vinátta !

Ég heyrði erindi um daginn sem fjallaði um vináttuna.  Í því var farið með ljóð eftir erlendan mann en ljóðið var þýtt af Sigurði Jónssyni tannlækni.  Ljóðið er góð áminning  í amstri hverdagsins.  Fallegt ljóð sem er svona:

Í grenndinni veit ég um vin, sem ég á,

í víðáttu stórborgarinnar.

En dagarnir æða mér óðfluga frá

og árin, án vitundar minnar.

 

Og yfir til vinarins aldrei ég fer

enda í kappi við tímann.

Sjálfsagt þó veit hann ég vinur hans er,

því viðtöl við áttum í símann.

 

Ég hringi á morgun, ég hugsaði þá

svo hug minn fái hann skilið.

En morgundagurinn endaði á

að ennþá jókst milli okkar bilið.

 

Dapurleg skilaboð dag einn ég fékk,

að dáinn sé vinurinn kæri.

Ég óskaði þess, er að gröf hans ég gekk,

að í grenndinni ennþá hann væri.

 

Sjálfur, ef vin þú átt góðan í grennd.

Gleym ekki, hvað sem á dynur,

að albesta sending af himnum send

er sannur og einlægur vinur.

 


Draupnir Rúnar slær í gegn!

Það var frábært myndbandið í gær af Eurovision laginu.  Draupnir Rúnar Draupnisson var þar í aðalhlutverki og stóð sig mjög vel.  Draupnir er borinn og barnfæddur norðfirðingur og mikill norðfirðingur í sér.  Það er full ástæða að óska honum til hamingju með skemmtilegt framtak.

  202048_1_preview

Hér að neðan fjallaði ég um ónýtt nöfn en nafnið Draupnir er sjaldgjæft en flott nafn.  Pabbi hans Freysteinn Draupnir Marteinsson (1940-1987) var sá fyrsti sem bar þetta nafn.  Í dag eru 11 sem bera þetta nafn og Draupnir Rúnar er náttúrulega þeirra frægastur !


Austfirðingaball á Players 12. apríl 2008.

Hið margrómaða Austfirðingaball verður haldið á Players í Kópavogi laugardaginn 12. apríl 2008. Þessi böll eru einfaldlega bara snilld og eitthvað sem engin má missa af og er dagskráin skotheld að venju.

Borgfirska stórstirnið Magni Ásgeirsson fer þar fremstur meðal jafningja ásamt hljómsveit sinni Á móti sól og væri að æra óstöðugan að hafa fleiri orð um það.

Hljómsveitin Dísel með Eskfirðinginn og Idol-söngvarann Eirík Hafdal í broddi fylkingar.
Þeir félagar hafa verið að koma sterkir inn að undanförnu og voru m.a. í hljóðveri á dögunum og mun afrakstur þess líta dagsins ljós á næstu misserum.

Stórsöngvarinn og norðfirðingurinn Guðmundur R. Gíslason gaf út sína fyrstu sóló plötu á síðasta ári og munum við væntanlega fá að heyra lög af henni í bland við annað efni sem kappinn hefur verið viðriðin í gegnum tíðina.

Og síðast en ekki síst Birna Sif sem stóð sig eins og hetja í Bandinu hans Bubba þar sem hún var austfirðingum til sóma með frammistöðu sinni og er þetta hennar fyrsta opinberlega framakoma eftir keppnina en jafnframt örugglega ekki sú síðasta.


austurglugginn.is er sérstakur samstarfsaðili í ár og má benda á umræðu um Austfirðingaball á spjallinu.

Nú er bara að drífa sig og hafa samband við austfiska vini og vandamenn og skella sér á geggjað Austfirðingaball á Players.


Ps. Það má einnig geta þess að Austfirðingaballið sem bætt var við síðasta haust fór langt fram úr vonum og sennilega eitt fjölmennasta ballið frá upphafi. Þetta verður að sjálfsögðu endurtekið og nú er um að gera að taka frá þriðju helgina í sept. Nánara tiltekið föstudaginn 19. september 2008, dagskráin er óðum að skýrast og hægt að fylgjast með því hér á síðunni en sem sagt Austfirðingaball á Players 19. Sept. 2008.

Ónotuð íslensk mannanöfn ! Frá landnámi og miðöldum.

Í æsku umhverfi mínu var nafnið Eyleif  vanalegt. Svo kemst maður að því að nafnið er mjög fágætt.  Þá veltir maður fyrir sér hvort ekki séu mörg gömul nöfn í íslenskunni fágæt og jafnvel ekki  notuð í dag.  Við smá grúsk þá sýnist manni eins og  við landnám hafi málið verið mjög fjölskrúðugt af nöfnum en svo verið notuð færri nöfn á miðöldum en á síðustu öld orðið nokkur vakning að nota ný nöfn eða ný gömul nöfn. Hjálagt er listi af nöfnum sem voru notuð á miðöldum og á fyrstu öldum landnáms en enginn ber í dag. 

 

Alfarinn,  Andríður, Auðúlfur,Ásbera, Ásleif, Ásleifur, Ávaldi, Bálki,Bárekur, Bjálfi, Bjolllok,Brattur, Bresi, Brigíð, Brúnmann, Böðólfur, Böggvir, Bölverkur, Dufnall, Fastný, Geirröður, Geitir, Goti, Grenjaður, Grjótgarður, Gufa, Hallaður, Herröður, Hjálp, Hjör, Hjörr, Hneitir, Hrifla, Höggvandill, Járnskeggi, Hrani, Kenik, Kjalvör, Knjúkur, Koltorfa, Kriströður, Kúgaldi, Liður, Maddaður, Mýrún, Mæfa, Nefsteinn, Niðbjörg, Ormhildur, Ópía, Rafarta, Ráðormur, Reginleif, Reistar, Skarfur, Skólastika, Skúfur, Snartur, Stórólfur, Svartkell, Vaði, Vakur, Véfröður, Vilbaldur, Vilgeir, Þjóðar, Þorbeinir, Þórvé, Ögur, Öndóttur, Alrekur, Ármóður, Dufgús, Finnvarður, Gríss, Heinrekur, Hrolleifur, Hrosskell, Hyrningur, Hæringur, Jólgeir, Kaðall, Klaufi, Kleppur, Kolbrandur, Kýlan, Leggur, Ljótólfur, Oddkatla, Óblauður, Saxi,  Sigvör, Skefill, Snærir, Valbrandur, Ægileif, Böðmóður, Fálki, Geirleifur, Grís, Heimlaug, Hlenni, Hróðgeir, Hrútur, Ísröður, Leiðólfur, Óleifur, Ósvífur, Rauður, Rjúpa, Snörtur, Stari, Söxólfur, Þjóðrekur, Þjóstólfur, Þorgestur, Áli, Brúni, Húnröður, Kleppjárn, Klyppur, Naddur, Skúmur, Sölvör, Valþjófur, Vébrandur, Þorljótur, Þraslaug,Ölmóður, Lambi, Otkatla, Þórhaddur, Ásbrandur, Konáll, Tófa, Kjallakur, Kollsveinn, Loðmundur, Refur, Kollur, Órækja, Sámur Sokki, Surtur, Eindriði, Hróaldur, Svertingur, Bótólfur, Þorleikur, Beinir, Hafur, Sveinungi, Gamli, Þorgautur, Ásvör, Kolli, Ásgautur, Svarthöfði, Krákur, Hemingur, Kálfur, Yngvildur, Hallótta, Svartur, Kolþerna, Alleif, Álaug, Broteva/efa, Etilríður, Eyfríður, Elíná, Fabían, Hegri, Ísleikur, Jóríður, Lífgjarn, Munnveig, Oddkell, Rustikus, Túnis.

Væntanlega þarf ekki leyfi mannanafnanefndar til að skýra eitthvað af ofangreindum nöfnum.   Sum nöfnin eru alls ekki slæm eins og t.d. Ásleifur, Bresi, Ávaldi, Goti,Ásbrandur Þjóðar.   Sum nöfn finnst mér hinsvegar nafnleysa og með neikvæða merkingu.  En eitt sinn var ekki hægt að nota nafnið Mörður, vegna "Lyga Marðar". Nú er það nafn vel þekkt og samþykkt, þannig geta nöfn öðlast samþykki.  Kannski eiga einstaklingar eftir að bera  nafnið Fálki rétt eins og Hrafn og Örn.  Íslenska málið býður uppá mörg ónotuð nöfn og kannski ekki nauðsynlegt að leita langt að nýjum nöfnum.


Endurspeglar mun í foreldraábyrgð kynjanna !

Ótrúlegt hvað er fjallað mikið um launamun kynjanna en minna um annan kynbundinn mun.  Langar að benda á hjálagða grein, sem heitir "Launamunur kynjanna og foreldraábyrgð"Launamunur kynjanna er á margan hátt endurspeglun á þeim mun sem kynin bera ennþá á uppeldi barna.  Þetta verður sérstaklega  skýrt þegar foreldrar búa ekki saman.

Foreldrajafnrétti og launjafnrétti mun haldast í hendur.


mbl.is Launamunur kynjanna 15%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Apríl 2008
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband