Austfirðingaball á Players 21. september. 2007

Austfirðingaböllin hafa verið haldin með glæsibrag undanfarin ár og eru löngu orðin fastur liður í skemmtanalífi austfirðinga, brottfluttra sem búandi í sinni heimabyggð. Undanfarin ár hefur þurft að bæta við flugferðum svo um munar og er áætlað að ekki mæti færri að austan heldur þeir sem búa hér að höfuðborgarsvæðinu. Hafa þessi böll verið haldin á tímabilinu mars/apríl ár hvert og hafa ávallt heyrst raddir eftir hvert ball hvort ekki sé hægt að halda þetta  líka á haustin. Það hefur löngum staðið til að láta verða af því og í ár verður blásið í herlúðra og haldið eitt stk. Austfirðingaball föstudaginn 21. september á Players í Kópavogi. Austfirðingaböll eru náttúrulega bara snilld, hvar og hvenær sem þau eru haldin og eitthvað sem engin má missa af. Dagskráin er skotheld að venju. Vax – Dúkkulísur – AusturlandiðGuðmundur R. Gíslason o.fl. Snillingarnir í Vax ætla heiðra okkur með nærveru sinni í fyrsta sinn á Austfirðingaballi og bíða margir spenntir eftir að heyra og sjá þá félaga en þeir hafa verið að gera frábæra hluti bæði hérlendis og erlendis. Ein þekktasta og langlífasta kvennahljómsveit landsins Dúkkulísurnar fagna í ár 25 ára afmæli þessarar merku sveitar. Í tilefni þess er komin út plata með nýju efni í bland við eldri smelli, alls 18 laga afmælisútgáfa. Til hamingju Dúkkulísur og hlökkum til að sjá ykkur. Gömlu brýnin úr Austurland að Glettingi og Tríó Valgeirs, þeir Valgeir Skúlason, Björn Hallgrímsson, Björgvin Harri Bjarnason og Tómas Tómasson hafa sameinað krafta sína í eina almögnuðustu rokksveit sem fram hefur komið í langan tíma og hefur fyrirbærið einfaldlega verið nefnt Austurlandið Súellen-söngvarinn Guðmundur R. Gíslason heiðrar okkur með nærveru sinni að venju nema hvað nú er kappinn með ylvolga plötu í farteskinu. Guðmundur til hamingju með nýju sóló-plötuna.  Það er greinilega mikil gróska í austfirsku tónlistarlífi í ár sem endranær og verður spennandi að fylgjast með framvindu mála á næstu misserum og því tilvalið a slá tvær flugur í einu og sjá það markverðasta sem er að gerast og hitta vini og kunningja og umfram allt skemmtilegt fólk. Fleiri atriði eiga svo eftir að bætast við og sem tilboð á flugi að austan o.fl. og um að gera að fylgjast með  á www.promo.is Sjáumst hress með góða skapið í farteskinu á Austfirðingaballi á Players.

Barn skal vera rétt feðrað.

Grein úr sem birtist í Morgunblaðinu 2. sept2007
Gísli Gíslason skrifar um rétt barna til að vera rétt feðruð: "Íslensk lög þurfa að tryggja að börn á Íslandi séu réttfeðruð og karlmenn njóti sama réttar og konur til að höfða faðernismál."

NÚ HEFUR það gerst að fullorðinn maður hefur fengið það staðfest að hann hefur verið rangfeðraður alla ævi. Málið er um margt sérstakt en staðfestir að flestir vilja vita um líffræðilegan uppruna sinn. Þannig er það algengt að börn sem hafa verið ættleidd til Vesturlanda leiti uppi sína líffræðilegu foreldra eða heimsæki þau landsvæði sem þau komu frá. Sömuleiðis leita börn sem getin hafa verið með tæknifrjógvun uppi sinn líffræðilega föður þegar þau eru fullorðin. Þannig hafa nokkur lönd sett það í lög að barn getið við tæknifrjóvgun á rétt á að vita hver faðirinn (sæðisgjafinn) er þegar það er orðið lögráða án þess að eiga neinar kröfur á viðkomandi einstakling um erfðir eða annað. Við slíkt fyrirkomulag gengur líka sæðisgjafinn að því vísu barnið getið með sæðisgjöfinni á rétt seinna meir á að vita hver viðkomandi er.

Við gerð síðustu barnalaga var í fyrsta sinn opnað á þann rétt karla að höfða faðernismál, telji þeir sig faðir barns. Þetta kom ekki til af góðu. Karlmaður krafðist þess fyrir rétti að fá að vera faðir barns sem kona hafði fætt en hún feðraði ekki barnið við fæðingu. Fyrir Hæstarétti var honum veitt þessi heimild og í dag á þetta barn sinn föður eins og önnur börn. Í framhaldi af þessum dómi var sett í 10. gr barnalaga frá 2003 svohljóðandi:

"Stefnandi faðernismáls getur verið barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig föður barns, enda hafi barnið ekki verið feðrað."

Hér er heimild karlmanns til að höfða faðernismál þrengt við það að móðir hafi alls ekki feðrað barnið. Þetta þýðir að ef gift kona verður ófrísk eftir annan mann, en kennir eiginmanni barnið og hann gengst við því, þá er engin leið fyrir hinn raunverulega föður að fara í faðernismál. Barnið getur aftur á móti farið fram á faðernismál þegar það er orðið lögráða.

 

Pater-est

Hér gildir svokölluð faðernisregla eða "pater-est"-reglan sem byggist á því að svo sterkar líkur séu fyrir því að barnið sé getið við samfarir konunnar við eiginmann sinn að gengið er út frá því sem reglu. Þessi regla var góðra gjalda verð áður en nútíma vísindi gátu staðfest með óyggjandi hætti rétt faðerni. Í dag er hægt að framkvæma svonefnt DNA-próf sem staðfestir með öruggum hætti rétt faðerni. Pater-est reglan á því heima í sögubókum.

 

Er karlmönnum ekki treystandi?

Ástæðan fyrir því að takmarka heimild feðra við að höfða faðernismál er sögð sú að koma í veg fyrir að feður séu að nauðsynjalausu að höfða faðernismál og gera þannig konum óskunda! M.ö.o. hefur löggjafinn áhyggjur af því að karlmenn séu svo illa innrættir að þeim sé ekki treystandi og þurfi þ.a.l. að skerða mannréttindi þeirra með þessum hætti. Þessi rök eru ekki svaraverð en afleiðingin er að árlega eru börn á Íslandi rangfeðruð.

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna stendur:

"7. gr. 1. Barn skal skráð þegar eftir fæðingu, og á það frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang, og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra."

Í dag er unnt að réttfeðra barn og það eru mannréttindi hvers einstaklings að vera réttfeðrað og vita uppruna sinn og allir eiga rétt á því samanber 7. gr. Barnasáttmálans. Það þarf að bæta íslensk lög þannig að það sé tryggt að börn á Íslandi séu réttfeðruð. Ekki er ólíklegt að í framtíðinni fari öll börn og foreldrar í DNA-próf. Karlmenn eiga einnig að njóta sama réttar og konur og börn til að höfða faðernismál. Því miður mismuna íslensk lög körlum og konum að þessu leyti, körlum og þar með börnum í óhag. Hví fjallar Jafnréttisstofa ekki um svona mismunum – nú eða Umboðsmaður barna?


Bloggfærslur 7. september 2007

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband