29.6.2007 | 18:40
Í minningu Harðar Stefánssonar.
Í gær fór ég með foreldrum mínum í jarðarför vinar þeirra Harðar Stefánssonar. Jarðaförin var í Hveragerðiskirkju, en í Hveragerði hafði hann búið í hálfan annan áratug. Þetta var falleg og látlaus athöfn og það var vel mætt. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá Norðfirsk andlit við athöfnina.
Hörður Stefánsson og fjölskylda tengjast einum af mínu fyrstu æskuminningum, er þau fluttu í húsið Freyju, næsta hús við ömmu og afa að Strandgötu 22 (Grund) í Neskaupstað. Foreldrar mínir áttu heima í kjallaranum hjá ömmu og afa. Áður bjó Magnús Ölversson og fjölskylda í Freyju, en ég og Jóhann bróðir lékum okkur við Sólveigu dóttir Magnúsar sem við kölluðum ávallt Lollu. Magnús og fjölskylda flutti suður en í staðinn komu Kiddi og Stefán sem urðu leikfélagar okkar. Hörður litli bróðirinn í fjölskyldunni var svo í kerru á þessum árum en seinna átti hann eftir að verða vinur Guðmundar bróðirs.
Þegar við fluttum við uppá Urðarteig þá flutti Hörður og fjölskylda að Ásgarð ekki langt frá. Kiddi Harðar var af okkur strákunum oft kenndur við húsið Freyju og kölluðum við hann gjarnan Kidda í Freyju. Tilviljanir lífsins eru margar og seinna átti það fyrir þeim Stefáni og Lollu að verða hjón, en bæði höfðu um tíma átt sitt æskuheimili í Freyju á Norðfirði.
Pabbi og Hörður störfuðu saman í Lyonsklúbbnum á Norðfirði og sungu saman í Lyons kórnum. Þegar Hörður var formaður, þá bauð klúbburinn Gunnari Þorsteinssyni og mér til viku dvalar að Íþróttaskóla Sigurðar Guðmundssonar að Leirá í Borgarfirði. Hörður og Pabbi voru einnig saman í félagsskap sem fór m.a. í mörg ár í laxveiði í Selá í Vopnafirði. Einnig fóru þeir saman á svartfugls skitterí. Inná flugvelli fengum við strákarnir stundum að skjóta úr riffli á mark. Það var undir styrkri leiðsögn Harðar. Þegar Hörður var í bæjarstjórn, þá tók mamma sæti í félagsmálanefnd að hans beiðni og sat þar lengi. Stína Munda kona Harðar, klippti oft okkur bræðurna þegar við vorum litlir. Hún var sjálfmenntuð í þeim fræðum og fórst það vel úr hendi. Þannig var mikill samgangur á milli heimilanna.
Á æskuárunum var innbærinn á Norðfirði iðandi af lífi. Við krakkarnir lékum okkur ýmist í fjörunni, smíðuðum fleka til að sigla á, nú eða kassabíla til að keyra. Fremstur á meðal jafningja í fleka og kassabíla smíðinni var Kjartan Einars, sem snemma flutti með foreldrum sínum til Grindarvíkur. Á bryggjunum var ufsi veiddur, gjarnan gefinn til katta-Möggu, sem gaf kisunum sínum ferska soðningu. Það þótti óheppni að fá marhnút, eða massadóna eins og sá fiskur var einnig nefndur. Að sama skapi þótti happadráttur að fá þorsk. Bryggjurnar voru BP-bryggjan, Gvendarbryggja og Mánabryggja. Aðallega vorum við þó á BP bryggjunni, enda var BP-sjoppan fyrir ofan. Konurnar í sjoppunni, Bogga á Sjónarhól og Sigga Þórðar höfðu vökul augu með okkur krökkunum, enda stundum ekki vanþörf á.
Eitt sinn datt einn af strákunum, Höskuldur í sjóinn við BP bryggjuna. Hann náði að halda sér í spotta sem hékk utan á bryggjunni. Steini Kolbeins og Stjáni Villa Brans komu hlaupandi en þeir voru innar í fjörunni að huga að sinni tryllu. Annar hljóp beint út í sjó og hinn út á bryggjuna og skutlaði sér þar í sjóinn. Höski hélt dauðahaldi í spottann og þeir björgðuðu honum. Steini og Stjáni fóru svo heim og skiptu um föt og héldu áfram að huga að tryllu sinni, enda sumarið hábjargræðistími í trillubátaútgerð á Norðfirði. Valli Jóhannesar, skutlaði Höska heim á sínum Scania Vabis vörubíl. Mamma Höska setti hann í heitt bað, skipti um föt og svo fór hann aftur, daginn á eftir, niður á bryggju að leika. Svo var ekki meira með það.
Það var enginn fótbolta eða sparkvöllur í innbænum. Þar var og er lítið undirlendi og spiluðum við gjarnan fótbolta á hallandi túnum, uns við fundum lítinn flöt rétt fyrir innan Bergþórshvol. Þar bjó gamall maður, Sveinbjörn með konu sinni og sonum. Þessi litli grasbali varð sparkvöllur okkar drengjanna. Fljótlega fékk grasbalinn nafnið Swembley. Í minningunni er það Stína Munda mamma Kidda í Freyju sem var höfundur að nafninu Swembley. Essið, sem forskeyti við nafnið á hinum fræga velli, stóð fyrir Sveinbjörn. Á meðal okkar drengjanna var því altalað um að fara á Swembley í fóbolta, enda varð túnbalinn lengi leikvöllur okkar.
Það var spilað á eitt mark og markmaður varð að passa að sparka ekki of langt út, þá fór boltinn í garðinn til Sveinbjörns. Oftast var það ekkert mál en ég hygg að þetta hafi verið þreytandi fyrir fjölskylduna á Bergþórshvoli að hafa hóp af krökkum flest sumarkvöld við húsið hjá sér. Krakkar á þessu túni voru, m.a. Kiddi og Höski, Stebbi og Kiddi, Kjartan, Kobbi og Sigrún, Siggeir, Jón Einar, Raggi, Addi og Kristín, Gunnar og Gústi litli. Gugga og Munda, með litlu systir Karen fluttu svo í hverfið og bjuggu við þau forréttindi að faðir þeirra átti hestinn Skjóna. Þannig var þetta dágóður hópur af krökkum innst í innbænum.
Sveinbjörn á Bergþórshvoli, eigandi Swembley, hafði sem ungur maður búið í Sandvík og Hellisfirði, staðir sem löngu eru komnir í eyði. Sveinbjörn var bróðir katta-Möggu. Bæði héldu nábýli við dýr og þannig var Magga alltaf með ketti og Sveinbjörn með kindur og um tíma var hundurinn Snati einnig til heimilis á Bergþórshvoli. Þau tilheyrðu kynslóð, sem á síðustu öld flutti úr sveit til bæja við sjávarsíðuna. Þannig áttu margir Norðfirðingar rætur í Mjóafirði, Hellisfirði, Viðfirði, Sandvík, Vöðlavík, nú eða Helgustaðahreppi eins og Hörður Stefánsson.
Hörður las mikið og var fjölfróður um margt. Hann var oftast á heimaleikjum Þróttar Nes og fylgdist með fótboltanum. Ég man að Kiddi hélt alltaf með Í.A. enda spiluðu skyldmenni Stínu Mundu í Skagaliðinu.
Þegar Bubbi Morthens kom með eina af sínu fyrstu ef ekki bara þá fyrstu tónleika til Neskaupstaðar, þá var Hörður mættur, trúlega aldursforseti í salnum. Sat að vísu ekki á fremsta bekk en til hliðar aftarlega. Bubbi hafði unnið sem farandverkamaður í Neskaupstað áður en hann varð frægur. Það voru því margir á Austurlandi sem þekktu til Bubba áður en frægðarsól hans fór að skína. Í upphafi feril síns var Bubbi hrjúfur og óheflaður listamaður, sem naut ekki endilega virðingar elítunnar í landinu. Kannski kunni Hörður að meta hrjúfleikann í Bubba og þá eiginleika að tala beint út, líka það sem stuðaði menn. Þó Hörður hafi verið á köflum hrjúfur maður, þá var hann næmur á margt og kannski hefur honum boðið í grun að Bubbi Morthens ætti eftir að verða eitthvað meira.
Stefán var einu ári eldri en Jóhann bróðir og Kiddi í Freyju var einu ári yngri en Jóhann, og þ.a.l einu ári eldri enn ég. Þannig vorum við Jóhann bróðir ekki í sömu bekkjum og þeir bræður. Nýir félagar okkar allra komu úr röðum bekkjabræðra. Allir fórum við hver sína leið á unglingsárum, og áfram út í lífið. Raunar búa flest, okkur sem lékum á Swembley í denn ekki lengur í Neskaupstað.
Það var ánægjulegt að sjá í jarðarförinni, hve myndarleg börn þeir bræður eiga og kom glögglega fram í minningarræðunni um Hörð hve stoltur hann var af sínum börnum og barnabörnum.
Hörður var, eins og allir menn, ekki gallalaus. Bakkus var lengi fyrirferðamikill ferðafélagi í hans lífi en varð svo farastjóri sem tók völdin. Bakkus er harður húsbóndi og eftir að Hörður hafði leitað sér hjálpar þá fékk hann áfall árið 1994 og var eftir það bundinn í hjólastól.
Þegar Hörður og Stína Munda fluttu til Hveragerðis minnkuðu eðlilega samskipti þeirra við foreldra mína. Vináttan var og er traust og ofast þegar foreldrar mínir komu til Reykjavíkur var tekinn bíltúr til Hveragerðis til að heimsækja þau. Ég veit að strengur á milli Stínu og foreldra minna verður áfram einlægur og sterkur.
Hörður Stefánsson og fjölskylda er hluti af björtum myndbrotum æskunnar. Án hans hefði tilveran verið öðruvísi og fátæklegri. Ég kveð hann með þessum línum:
Áin hefur streng, sem streymir,
stóran foss og hyl, sem dreymir.
Henni varstu í háttum skyldur,
kvikur í bragði, en þó svo mildur.
(Guðm. Friðj.)
Blessuð sé minnig Harðar Stefánssonar. Eiginkonu, sonum og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 26.10.2008 kl. 21:04 | Facebook
Um bloggið
Gísli Gíslason
Bloggvinir
- raggig
- eyleifosk
- gummigisla
- andres08
- alla
- gattin
- eurovision
- doggpals
- saxi
- eysteinn-thor
- garibaldi
- killjoker
- gudrunkatrin
- gisliivars
- veravakandi
- heimirhilmars
- heg
- jakobbjornsson
- joik7
- kristinnagnar
- lauola
- magneak
- mal214
- nafar
- sigrunsveito
- sigurjonth
- sighauk
- slartibartfast
- sveinni
- valgerdurhalldorsdottir
- sparki
- btryggva
- keh
- seinars
- siggisig
- sigurjons
- valli57
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 3
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 185624
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 24
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir þetta. Gaman að lesa þetta, það rifjast ýmislegt upp.
Kiddi í Freyju (IP-tala skráð) 1.7.2007 kl. 15:09
Sæll Gísli. Takk fyrir lesninguna. Mér þykir þú minnugur og lipur með pennann,var búinn að gleyma mörgu en sá þetta allt fyrir mér þegar ég las þetta. Takk aftur.
Stebbi (í Freyju) (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 21:28
Sælir bræður. Takk fyrir kveðjuna. Já það var í raun gaman að láta hugann reika tilbaka og festa þessar minnningar á blað, eftir þessa fallegu athöfn í kirkjunni í Hveragerði. Já og góðann kaffisopa á eftir.
Gísli Gíslason, 12.7.2007 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.