Haraldur Grétar Guðmundsson.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins 
Haraldur Grétar Guðmundsson mágur  minn fæddist í Neskaupstað 27. febrúar 1965. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 1. júlí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Norðfjarðarkirkju 10. júlí.

Í æskuminningunni voru Halli og frændi hans Grétar Birkir alltaf saman. Þeir voru í fjörmiklum og uppátækjasömum '65-árgangi. Þegar Gísli Sighvatsson skólastjóri kvaddi Nesskóla eftir nokkurra áratuga starf fjallaði hann í kveðjuræðu sinni sérstaklega um hinn eftirminnilega '65-árgang.

Halli var hæfileikaríkur íþróttamaður. Hann var hávaxinn, grannur en stæltur og stundaði handbolta, blak og frjálsar íþróttir. Halli lærði bakaraiðn og prófaði sig í ýmsum rekstri með misjöfnum árangri. Svo lenti hann í erfiðu bílslysi með þeim afleiðingum að hann var bundinn við hjólastól það sem eftir var. Árin eftir það voru honum á margan hátt erfið.

Fyrir rúmum þremur árum varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að hefja sambúð með Bergrós, systur Halla. Við fyrstu kynni fannst manni þetta vera sami gamli góði Halli, hraðmæltur drengur sem sagði skemmtilega frá. Halli dvaldi hjá okkur á flestum stórhátíðum og öllum jólum og voru það alltaf gefandi stundir. Við nánari kynni sá maður að barátta Halla við tilveruna var oft á tíðum erfið. Aldrei bar hann sig illa og koma í huga ljóðlínurnar:

Hugsanir manns ekki mennirnir sjá
og margt býr í hjarta sem skín ekki á brá.
Þó leiki um varirnar geislandi hlátur,
oft leynist í hjartanu beiskasti grátur.
(Hannes Blöndal)

Alltaf lifnaði yfir Halla þegar börnin hans bárust í tal. Hann var ákaflega stoltur af Hafdísi Lilju og Guðmundi og sagði að fallegri og dásamlegri börn væri ekki hægt að eiga. Samband hans við börnin var einlægt og gott og hann mat þau mikils. Einnig mat hann mikils barnsmóður sína og sambýlismann hennar fyrir gæfuríkt uppeldi og að búa börnunum gott heimili og ekki síst fyrir að hafa gott samband við sig. Fyrir allt þetta var hann þakklátur.

Halli átti trygga vini sem hittust reglulega. Alltaf var Halla boðið og stundum mætti hann. Oft talaði hann um Súðavíkurferðina, þegar þeir félagar hittust þar og greinilegt var að sú ferð gaf honum mikið. Ég veit að gleði félaganna var ekki síðri.

Samband Haraldar við foreldra sína, sem búa í Neskaupstað, var mjög náið. Trúlega voru ekki margir dagar sem hann átti ekki símtal við annað þeirra. Bergrós sambýliskona mín var eina systkinið sem var í nálægð við hann hér á höfuðborgarsvæðinu. Þau töluðu opinskátt um lífið og tilveruna, enda voru samskipti þeirra hreinskiptin og vináttan einlæg. Haraldur átti einnig mörg símtöl við ömmu sína Sissu seint á kvöldin en bæði voru þau miklar kvöldmanneskjur. Missirinn er mikill við andlát Halla. Ég votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð og kveð hann með ljóðlínum Þórunnar Sig.

Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
(Þórunn Sigurðardóttir)

Gísli Gíslason.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 185998

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband