17.6.2008 | 12:00
Áskorun til Bjarkar Guðmundsdóttir !
Í dag 17.júní 2008 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Margréti Jónsdóttir frá Akranesi, undir yfirskriftinni "Áskorun til Bjarkar Guðmundsdóttir". Þetta er snilldargrein og þar eru margir góðir punktar um mótsagnarkenndan málflutning Bjarkar, eins og þó Björk telji það fyrir neðan sína virðingu að vinna í álveri, þá notar hún afurðir með áli dags daglega á sínum þeytingi um heiminn. Hún segir m.a.
"Að vernda íslenska náttúru er ekki fólgið í því að koma í veg fyrir að við virkjum okkar aðalauðlind, vatnið, til hagsældar fyrir íbúana. Og verndunin er heldur ekki fólgin í því að koma í veg fyrir álverksmiðjur"
Niðurlag greinarinnar er:
"Hættum að telja okkur trú um að hér sé allt tært, hreint, ósnortið og óspillt, en snúum okkur að vandamálinu og leysum það. Endurheimtum gróðurinn og burtfokinn jarðveg og berjumst gegn rusli og ólíðandi fnyk frá verksmiðjum. Það gerir náttúrunni miklu meira gagn heldur en að reyna að telja fólki trú um að það megi ekki nota okkar dýrmætu auðlind, vatnið."
Orð í tíma töluð og tek ég undir áskorun Margrétar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.10.2008 kl. 20:24 | Facebook
Um bloggið
Gísli Gíslason
Bloggvinir
- raggig
- eyleifosk
- gummigisla
- andres08
- alla
- gattin
- eurovision
- doggpals
- saxi
- eysteinn-thor
- garibaldi
- killjoker
- gudrunkatrin
- gisliivars
- veravakandi
- heimirhilmars
- heg
- jakobbjornsson
- joik7
- kristinnagnar
- lauola
- magneak
- mal214
- nafar
- sigrunsveito
- sigurjonth
- sighauk
- slartibartfast
- sveinni
- valgerdurhalldorsdottir
- sparki
- btryggva
- keh
- seinars
- siggisig
- sigurjons
- valli57
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 41
- Frá upphafi: 185617
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það væri gaman að hafa lenk við greinina hér svo hægt sé að kynna sér málið betur. Hitt er annað mál að það er ekkert sjálfgefið að það sé best fyrir náttúruna að berjast á móti álverum á íslandi. Það væri örugglega betra fyrir náttúruna að hafa sem flest álver á Íslandi og leggja þau frekar niður þar sem áll er framleiddur með kolum. Það fer náttúrulega eftir hvort við erum að tala um náttúruna á Íslandi eða hnattrænt. Áll er oft betri lausn en annað sem er hægt að nota í staðinn eins og til dæmis járn sem er of þungt og kostar meira í umhverfisspillingu þegar þarf að flytja það og plast sem er ekki skárri kostur. Þegar verður farið að meta umhverfisspjöll eftir neyslu í stað framleiðslu, þá væri ekki skrítið ef alþjóðasamfélagið krefðist þess að Ísland taki sína ábyrgð og notaði meira af sinni endurnýjanlegu og umhverfisvænu orku til að framleiða hluti sem kostar meira umhverfisvendarlega séð í útlöndunum.
Ásta Kristín Norrman, 17.6.2008 kl. 12:43
Björk mín! Veist þú ekki að við landnám var landið þakið gróðri sem nemur allt að þremur fjórðu hlutum þess? Veist þú líka að nú þekur gróðurinn aðeins um einn fjórða hluta þess? Kallar þú þetta ósnerta náttúru? Finnst þér rétt að varðveita hana eins og hún er núna, stærsta manngerða eyðimörk í Evrópu? Bara svo útlendingar geti hvílt sig á trjánum heima? Eyðimörkin Ísland.
Lítum svo á þennan „tæra hreinleika“ landsins. Alveg frá því að maður stígur upp í rútuna á Keflavíkurflugvelli og ekur sem leið liggur gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog, Reykjavík, Mosfellsbæ og áfram upp í Borgarfjörð, getur maður dundað sér við að telja og flokka rusl í vegköntum og bæjarbeðum. Þvílík ruslakista sem við erum að bjóða upp á til sýnis, finnst hvergi á byggðu bóli í heiminum nema ef vera skildi á ruslahaugum. Landið er þakið rusli megnið af árinu. Það er rétt yfir blásumarið sem það hverfur að mestu. Eftir er þó einstaka grotnandi hús og einstaka húsagarðar fullir af rusli, girðingar fullar af heyplasti og svo heyplastshaugar hér og þar. Ruslakistan Ísland.
Skoðum svo þetta „tæra“ loft. Flestir þéttbýliskjarnar á Íslandi sitja uppi með eiturspýjandi fiskimjölsverksmiðjur og einstaka staðir með hausaverksmiðjur. Frá þessum fyrirtækjum berst þvílíkur ódaunn að fólk flýr hús sín og hverfi þegar Guð er að grínast og sendir „hagstæðar“ áttir inn yfir plássið. Eitrað andrúmsloftið frá þessum verksmiðjum orsakar bæði ógleði og höfuðverk og gegnsýrir hús, klæði og bíla. Það eru mjög skert lífsgæði og mannréttindi að geta ekki verið úti við á góðviðrisdögum vegna fúls og eitraðs andrúmslofts. Já, þetta er ekkert nema andleg nauðgun að þurfa að lifa við þetta. Ekki má ég svo gleyma að á góðviðrisdögum er ólíft í höfuðborginni vegna svifryks frá umferðinni. Kallar þú þetta hreint/tært loft? Þetta er Íslandsfýla.
Nei, Björk mín. Landið er hvorki „tært né ósnert“. Það er þvert á móti rúið gróðri og jarðvegi og þakið rusli og fýlu.
Að vernda íslenska náttúru er ekki fólgið í því að koma í veg fyrir að við virkjum okkar aðalauðlind, vatnið, til hagsældar fyrir íbúana. Og verndunin er heldur ekki fólgin í því að koma í veg fyrir álverksmiðjur sem eru þúsund sinnum umhverfisvænni en hausa- og fiskimjölsverksmiðjur. Og þó þér þyki fyrir neðan virðingu þína að vinna í svona álverksmiðjum kemst þú ekki hjá því að nota árans álið, manna mest, á öllum þínum þeytingi um heiminn. Svo þarftu bíla undir alla starfsmenn þína og ykkur og öllum öðrum túristum fylgir mikið traðk og áníðsla á náttúrunni. Og þarna erum við að tala um mengun sem um munar. Og tónleikar menga kannski mest af öllu. Allur bílafloti gestanna, allt sorpið sem það skilur eftir sig á gólfum og götum, reykingar hundruð manna á sama stað og fleira.
Hér með skora ég á þig að nota tækifærið og biðja gesti þína að bera það mikla virðingu fyrir náttúrunni að þeir byrji á sjálfum sér og hendi ekki rusli út um allt á tónleikunum. Taka svo þátt í landgræðslunni við að endurheimta gróður og jarðveg og hætta að nota náttúruna sem öskubakka. Já, notaðu tækifærið til að gera virkilega góða hluti við að hjálpa náttúrunni. Burt með ruslið.
Hættum að telja okkur trú um að hér sé allt „tært, hreint, ósnortið og óspillt“, en snúum okkur að vandamálinu og leysum það. Endurheimtum gróðurinn og burtfokinn jarðveg og berjumst gegn rusli og ólíðandi fnyk frá verksmiðjum. Það gerir náttúrunni miklu meira gagn heldur en að reyna að telja fólki trú um að það megi ekki nota okkar dýrmætu auðlind, vatnið.
Höfundur býr á Akranesi.
Gísli Gíslason, 17.6.2008 kl. 21:04
Þakka þér fyrir greinina Gísli og fyrirgefðu að ég svaraði útí hött. bý ekki á landinu og misskildi því umræðuna. Eg er allgjörlega sammála greinarhöfundi, þvi Ísland á örugglega heimsmet í bæði rusli á götum úti og mengun miðað við höfðatölu. Hef oft hugsað um það hvernig Ísland mundi líta út ef það væri jafn þéttbylt og Þýskaland eða Holland. Við erum dugleg að nota hluti sem aðrar þjóðir þurfa að sleppa út mengun til að framleiða. Mér finnst að við eigum að líta á jörðina sem heild og stjórna framleiðslu á orku eftir hvar það skaðar lífið á jörðinni minnst. Það verður þó að hafa skynsemina með og sleppa Gullfossi og öðrum náttúruperlum, en mér finnst hæpið að spara náttúruperlur sem einginn fær notið nema fuglinn fljúgandi og Ómar Ragnarsso. Ég held að Íslendingar komi til með að hagnast mikið ef hægt verður að sporna við þróuninni og kannske búa á Íslandi áfram.
Ásta Kristín Norrman, 18.6.2008 kl. 08:06
Sammála Margréti. Ég er nýtingarsinni fram í fingurgóma, en tek undir það með umhverfisfasistum að það mætti skoða betur hvað við nýtum landið í.
Vatn og orka eru framtíðin, og í því sambandi er mikilvægt að við höfum frumkvæði og tryggjum hagsmuni okkar. Að hafa ráðstöfunarrétt á auðlindum okkar og nýtingarrétt er lykilatriði sem umhverfissinnar geta eyðilagt fyrir okkur ef við gætum okkar ekki. Það ætti ekki að dyljast neinium að við höfum ekki efni á að vera háð t.d olíuverði í heiminum, við höfum ekki efni á því að vera bundin við stríðsástand í öðrum heimshluta.
Við getum hinsvegar tryggt komandi kynslóðir gegn nýtingarsóðum og ofstækisfullum umhverfissinnum. Björk er að grafa undan framtíð landsins og henni þarf að svara með krafti og látum.
Haraldur Davíðsson, 18.6.2008 kl. 15:06
Góðan dag. Ég hef fylgst með umræðunum á blogginu og fyllist nokkurri sorg þegar ég fylgist með skrifum fólks. Á Íslandi stefnir álframleiðsla í rúmlega milljón tonn. Meira en í Sviss, Austurríki, Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi til samans. Hvað gerir fólk í þessum löndum? Það er full ástæða til að velta fyrir sér hversu langt skuli ganga. Að segja að það sé fyrir neðan virðingu Bjarkar að vinna í álveri lýsir furðulegum vanmætti: Af hverju ætti Björk að vinna hjá Alcoa frekar en að syngja fyrir heiminn? Hún er íslensk - Alcoa er risavaxin alþjóðleg peningamaskína - hefur þjóðerniskenndin ekki farið eitthvað áttavillt? Þegar manneskja hefur hæfileika og haslar sér völl á eigin verðleikum, oft gegn ríkjandi straumi - á að tala svona um hana? Að það sé fyrir neðan virðingu hennar að vinna í álveri? Eigum við að tala svona um allt afburðafólk? Eið Smára? Og ef hún flýgur um heiminn í flugvél, sem er að hluta til úr áli - hefur hún afsalað sér rétt til að ræða um framtíð háhitasvæða eins og Gjástykkis og Krísuvíkur já eða Þjórsárvera? Menn kalla sig nýtingarsinna - en af hverju er að koma kreppa þegar við notum aðeins 10% orkunnar en álverin 90%? Gera menn sér grein fyrir því að Alcoa á Reyðarfirði sparar sér 20 milljarða árlega í orkuverði? Það jafngildir 4000 árslaunum verkamanna í álveri miðað við 5 milljóna árslaun. (heimild Financial Times Deutchland). Erum við góðir bisnessmenn? Græðir Landsvirkjun nóg? Eru nýtingarsinnar ekki viðskiptalega sinnaðir? Það er ekki fasismi að vilja staldra við þegar okkar eigin notkun er aðeins 10% og 90% eggjanna eru í sömu álkörfu. Alcoa hefur þegar farið illa með eina eyju: www.jbeo.com. Er sniðugt að fullnýta háhita Þingeyjarsýslu fyrir Alcoa og spara þeim hvað? Aðra 20 milljarða?
Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 00:23
Andri ég er sammála þér með Alcoa, en vil ekki girða fyrir það að við getum nýtt auðlindir okkar. Að einblína á álver er glapræði af hálfu beggja aðila, nýtingarsinna sem umhverfissinna, þetta tvennt þarf ekki að vera andstætt.
Einhliða umræða er alltaf röng, og felur ekki í sér neinar lausnir. Framtíð landsins er ekki björt ef látið verður undan gráðugum kaupsýslumönnum eða umhverfisfasistum. Ef við ekki gætum okkar þá verða það annarhvor öfgahópurinn sem " sigrar ".
Haraldur Davíðsson, 19.6.2008 kl. 13:41
Ég hef aldrei sagt að við eigum að selja orkuna ódýrt. Heldur ekki að það eigi bara að vera áll. Það sem ég meina er að ef við hugsum um náttúruna, þá höfum við orkufrekan iðnað þar sem hann gerir minstan skaða fyrir náttúruna. Til dæmis á Íslandi. Þó að við framleiðum mikið af áli, þá framleiðum við lítið af annari vöru sem er mengandi. Einfaldlega vegna þess að það á betur við á Íslandi að framleiða t.d ál, frekar en t.d. pappír,þar sem við eigum ekki tré í þau. Aftur á móti erum við mjög dugleg að nota vörur sem aðrar þjóðir þurfa að menga sín lönd svo við getum haldið áfram að sóða út heiminn. Hvað Björk vinnur við er mér nokkurn vegin sama um.
Ásta Kristín Norrman, 19.6.2008 kl. 20:55
Já margt gott í greininni, þó ég taki undir með Andra og fleirum að óþarfi er að gera lítið úr henni Björk okkar og hennar hæfileikum og velgengni.
En þeir sem fjalla opinberlega um þessi mál og þá sérstaklega þeir sem eru í áhrifastöðu, sem Björk sannarlega er, verða að fjalla um þau af ábyrgð.
Aðalheiður Ámundadóttir, 23.6.2008 kl. 17:57
Ég tek hiklaust undir með Andra Snæ. Hver segir líka að önnur lönd mengi minna með því að vera ekki með álver? Eru þessi lönd ekki líka með sinn megunarkvóta sem þau nýta þá bara á annan hátt? Af hverju fullnýta okkar kvóta bara til að auka gróða stórra fyrirtækja fyrir atvinnuveg sem minnihluti íslendinga getur hugsað sér að vinna við? Það hefur sýnt sig með geðveikinni á Kárahnjúkum að starfsemi sem þessi gerir okkur ekkert gott. Meirihluti vinnuaflsins er erlendir farandverkamenn (hér er ég NB ekki að tala um innflytjendur) og vinnuslysin sem sem fólk hefur þarna lent í eru ótrúleg svo ekki sé talað um langvarandi heilsukvilla.
Ég er alls ekki sammála neinu sem Margrét hefur að segja og finnst hún með þessu sýna ábyrgðarleysi og þröngsýni. Við erum föst í stöðu okkar í heiminum sem þriðjaheimsland (framleiðsluland hráefnis sem svo er nýtt annarsstaðar, gróðinn fluttur úr landi) og fall krónunnar er áminning um það. Við erum með hátt menntunarstig og ættum að geta gert betur.
En kveðja til þín Gísli!
Laufey Ólafsdóttir, 26.6.2008 kl. 11:41
Takk fyrir athugasemdir. Það er ekkert nema gott að fólk hafi ólíkar skoðanir á hlutum. En mikilvægt er að bera virðingu fyrir skoðunum annarra, en það er nokkuð sem mér hefur fundist alfarið vanta uppá málflutning þeirra sem eru á móti virkjunum og álverum.
Virkjanir:
Í mínum huga eigum við að nýta auðlindir landsins skynsamlega. Það að virkja bæði vatns- og jarðorkuna er skynsamlegt, ekki síst nú þegar verð á olíu er hátt og aðrar þjóðir horfa mjög til annarra orkugjafa. Það þarf að nást sátt um hvað megi virkja og hvað ekki. Eins og umræðan er að verða í þjóðfélaginu þá er það nánast að verða bannorð að virkja. Það er dapurt en í þá átt er umræðan því miður að fara. Það er í raun jafnvitlaus umræða og er úti í heimi að ekki megi nýta neina hvalstofna.
Nýting orkunnar.
Ef það hefur verið samið um of lágt orkuverð til Alcoa þá eru það ekki rök fyrir því að ekki eigi að virkja meira. Aðstæður á Íslandi og í heiminum hafa breyst mikið síðan þeir samningar voru gerðir. Þar sem orka er að verða dýrmætari og dýrmætari auðlind þá eigum við að nýta þá möguleika sem við höfum í okkar umhverfisvænu orku. Auðvitað eigum við að selja þá orku á markaðsverði.
Það er gott og gilt sjónarmið að ekki eigi bara að virkja til að selja til álframleiðlsu. Þá er að finna aðrar gerðir að orkukaupendum, sem skapar annarsskonar störf. Það er enginn sem setur stopp á fólk að koma með aðrar hugmyndir að orkukaupum.
Störf í álverum.
Mér blöskrar að það er talað mjög niðrandi um þau störf sem eru í álverum. Fólk gleymir því að það eru þúsundir íslendinga sem vinna við þessi störf og það eru þúsindir barna sem eiga foreldra sem vinna við þessi störf. Þegar talað er niðrandi um þessi, þá er talað niðrandi um þá dýrmætu vinnu sem fólk sinnir í þessari atvinnugrein. Ekki er það uppörvandi fyrir börn ef þau upplifa það að foreldrar þeirra eru í störfum sem eru ekki þóknanleg fyrir þá sem eiga auðveldan aðgang að fjölmiðlum og halda jafnvel tónleika til að sporna við frekari vexti í þessari atvinnugrein.
Áhrif álvers Alcoa á Austurlandi.
Ég er borinn og barnfæddur Norðfirðingur en flutti þaðan árið 1982 er ég fór í menntaskóla. Í árlegum heimsóknum austur þá hefur maður séð samfélagið hnigna. Störfum í bæði landbúnaði og sjávarútvegi fækkaði og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Unga fólkið flutti í burtu, eignir urðu verðlausar, þar sem takmarkaður fasteignamarkaður var til staðar. Hús urðu jafnvel tóm. Þessi þróun er allsstaðar á landsbyggðinni og fáir hafa áhyggjur af þeirri þróun. Austfirðingafjórðungur bar öll einkenni hnignunar. Þetta breyttist með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Álver Alcoa á Reyðarfirði er orðinn stærsti vinnuveitandi á Austurlandi. Margir burtfluttir austfirðingar hafa notað tækifærið og flutt austur. Ungir austfirðingar með háskólapróf hafa sest að í fjórðungnum. Með tilkomu þessara framkvæmda hafa orðið vatnaskil í samfélaginu eystra. Þegar sú staðreynd er ljós þá er eðlilegt að Húsvíkingar og aðrir horfi með velþóknun á að fá slíka uppbyggingu í sinn fjórðung.
En auðvitað heldur Björk og hennar lið sína tónleika og það er margir á hennar bandi, því miður. Mér fannst grein Margrétar Jónsdóttir góð ádrepa um mótsagnir í málflutningi Bjarkar og það var upphafið að þessu innleggi.
Gísli Gíslason, 28.6.2008 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.