Gísli Sigurbergur Gíslason.

Ég er staddur austur í Neskaupstað, en faðir minn lést í gær á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað eftir erfið veikindi.  Set hér  tvær myndir af honum, eina þegar hann er 27 ára að leika á harmonikku í kjallaranum á Grund.  Hin er nokkurra ára gömul tekin áður en hann veiktist.  Guð blessi minningu góðs manns.

 pabbii

pabbi

 

 

 

 

 

Úr Morgunblaðinu 2. júlí 2009.

Gísli Sigurbergur Gíslason

Gísli Sigurbergur Gíslason fæddist í Neskaupstað 30. júlí árið 1939. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 25. júní 2009. Foreldrar hans voru Gísli Bergsveinsson útgerðarmaður, f. í Mjóafirði 11. júní 1894, d. 20. mars 1971, og Eyleif Jónsdóttir, f. á Vestra-Horni 2. mars 1908, d. 2. apríl 1989. Systkini Gísla Sigurbergs eru Ólöf Sigríður, Jóna Guðbjörg, Bergsveina Halldóra og Sólveig Sigurjóna.

Gísli Sigurbergur kvæntist 13. október 1963 Guðrúnu Maríu Jóhannsdóttur, f. í Neskaupstað 5. ágúst 1944. Foreldrar Jóhann Pétur Guðmundsson, f. 11. nóvember 1918, d. 19. mars 1989, og María Ingiríður Jóhannsdóttir, f. 11. september 1923. Gísli og Guðrún bjuggu í Neskaupstað allan sinn búskap. Þau eignuðust fjóra syni: 1) Jóhann Pétur vélstjóri, Neskaupstað, f. 19. maí 1962, kvæntur Sigríði Þorgeirsdóttur. Sonur þeirra er Sigurbergur Ingi. Fyrir átti Jóhann Pétur syni, Rúnar Þór, barnsmóðir Ólöf Másdóttir, og Kristin Þór, barnsmóðir Lára Kristinsdóttir. Fyrir átti Sigríður, Jónínu Hörpu Njálsdóttur. 2) Gísli lífefnafræðingur, Álftanesi, f. 22. apríl 1964, kvæntur Bergrós Guðmundsdóttur. Börn hans frá fyrra hjónabandi eru Eyleif Ósk og Gísli Veigar, barnsmóðir Aðalheiður Ósk Þorleifsdóttir. 3) Guðmundur Rafnkell framkvæmdastjóri, Neskaupstað, f. 19. febrúar 1970, kvæntur Guðrúnu Smáradóttur. Dætur þeirra eru Eyrún Björg og María Bóel. 3) Eyleifur Þór, f. 5. janúar 1973, d. 12. febrúar 1989. Fyrir átti Gísli Sigurbergur soninn Heimi Berg, f. 12. júlí 1960, kvæntur Sólrúnu Hansdóttur og eiga þau 4 dætur, þær eru: Hildur Valgerður, Sólborg Berglind, Dagbjört Ósk og Eyleif Þóra.

Gísli Sigurbergur fór strax eftir skyldunám til sjós á Björgu NK 103 sem faðir hans gerði út. Hann varð vélstjóri og síðar skipstjóri við útgerðina. Hann lauk vélstjórnarprófi árið 1957 og skipstjórnarprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1960. Eftir það var hann skipstjóri á Björgu NK 103. Árið 1975 var útgerðin seld og þá um vorið hóf Gísli störf hjá Norðfjarðarhöfn og starfaði þar allan sinn starfsaldur, lengst af sem hafnarstjóri. Mörg haust fór Gísli Sigurbergur á síldveiðar og var með ýmis skip en einnig sigldi hann mörg sumur í afleysingum á skipum Síldarvinnslunnar með ísvarinn fisk til Bretlands. Hann starfaði einnig tímabundið hjá Landhelgisgæslunni þegar Íslendingar háðu baráttuna um 12 mílna landhelgina. Það atvikaðist að Bretar tóku til fanga varðskipsmenn sem tóku breskan togara í landhelgi. Þá vantaði tímabundið mannskap á varðskipið Þór og var Gísli í hópi vaskra manna frá Norðfirði sem fylltu það skarð. Gísli lærði snemma á harmonikku, trompet og spilaði einnig á fleiri hljóðfæri. Hann var í fyrstu lúðrasveit Norðfjarðar en hafði áður leikið með Lúðrasveit verkalýðsins í Reykjavík. Gísli Sigurbergur var mjög virkur í harmonikkufélagi Norðfjarðar (FHUN) og spilaði þar síðast með félögum sínum þann 1. maí sl. Hann var einnig félagi í Lions-klúbbi Norðfjarðar á meðan hann starfaði og hann var einnig um tíma ritari í Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Sindra í Neskaupstað.

Útför Gísla Sigurbergs fór fram frá Norðfjarðarkirkju í dag, 2. júlí, og hefst athöfnin kl. 14.

  • Hvers vegna er leiknum lokið?
  • Ég leita en finn ekki svar.
  • Ég finn hjá mér þörf að þakka
  • þetta sem eitt sinn var.  (Starri í Garði.)

Faðir okkar fæddist á Norðfirði þar sem hann ólst upp og bjó alla tíð. Hann var vanafastur í sínu lífi. Þannig ólst hann upp á Strandgötunni í Neskaupstað, hann byggði sér hús við Urðarteig 18 og þangað flutti fjölskyldan árið 1969 og þar bjó hann eftir það. Öll starfsævi hans tengdist á einn eða annan hátt sjávarútvegi.

Pabbi varð skipstjóri við útgerð föður síns og seinna hluthafi. Trúlega var hann einn yngsti ef ekki yngsti maður á Norðfirði sem varð skipstjóri á síldarbát en hann varð skipstjóri rétt um tvítugt. Það tíðkast til sjós að nefna skipstjórann „karlinn“ og faðir okkar var enginn undantekning. Hann var karlinn í brúnni á Björgu NK þó hann væri jafnvel yngstur um borð.

Árið 1975 var útgerðin seld og fljótlega hóf hann störf við höfnina í Neskaupstað og varð fljótt hafnarstjóri. Hann naut starfsins við höfnina til hins ýtrasta og oft var glatt á hjalla á vigtinni þegar vinir og félagar kíktu í kaffi og ræddu fiskirí og heimsmálin. Pabbi var í fyrstu lúðrasveit Norðfjarðar og starfaði í Lionsklúbbi Norðfjarðar og í Lionskórnum. Á síðustu árum hefur hann starfað í Félagi harmonikuunnenda í Neskaupstað (FHUN). Hann var ávallt hluthafi í Síldarvinnslunni og fylgdist grannt með gangi þess fyrirtækis, sem hefur verið svo mikilvægt fyrir þann stað sem honum þótti svo vænt um. Pabbi var maður hlédrægur og oft voru samskiptaformin einföld. Ef hann var ekki sammála, þá svaraði hann einfaldlega „iss“ og hallaði höfði hugsi. Ef hann var sammála þá kom „já,já, það er ekkert flóknara en það“. Nú ef hann var mikið glaður þá blístraði hann út í eitt. Þegar maður sá hann keyra bíl þá var hann gjarnan blístrandi nú eða sló taktinn í stýrið, enda átti tónlistin ríkan þátt í hans lífi. Það fór svo að hann var í mörg ár í Tónskóla Neskaupstaðar nú síðasta áratuginn. Pabbi kunni ákaflega vel við sig í góðra vina hópi. Hann var tryggur vinur vina sinna og nú á þessari stundu má vel finna þá miklu væntumþykju sem samfélagið hér í Neskaupstað umvefur fjölskylduna.

Í veikindum pabba sýndi hann mikinn styrk og æðruleysi. Hann barðist áfram með viljann að vopni og var eins og alltaf vel studdur af mömmu. Ást og vinátta þeirra var einlæg og mikil enda búin að rölta saman lífsveginn í blíðu og stríðu í nálægt hálfa öld. Það er ekki bara sorg, heldur líka ríkt þakklæti sem fer í gegnum hugann nú þegar faðir okkar er látinn eftir erfið veikindi. Þakklæti fyrir allar góðu stundirnar, fyrir það að hafa átt alla ævi traustan og góðan föður sem skapaði ásamt móður og stórfjölskyldu þá kjölfestu sem er hverju barni nauðsynleg. Börnin okkar elskuðu afa sinn mikið og hann fylgdist vel með því sem þau voru að gera allt til síðasta dags. Minningin um góðan föður, tengdaföður og afa lifir með okkur um ókomna tíð.

  • Allar stundir okkar hér
  • er mér ljúft að muna.
  • Fyllstu þakkir flyt ég þér
  • fyrir samveruna.  (Har. S. Mag.)

Jóhann Pétur, Gísli, Guðmundur Rafnkell og Heimir Berg Gíslasynir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Sæll Gísli ! Ég sendi þér og fjölskyldu þinni  innilegar samúðarkveðjur.

Kær kveðja 

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 28.6.2009 kl. 21:17

2 Smámynd: Gísli Gíslason

Takk´kærlega fyrir það Sigmar.  Beddi Odds var hér í gær.  Alltaf gaman að hitta þau

Gísli Gíslason, 1.7.2009 kl. 15:09

3 identicon

Ég votta þér og fjölskyldu þinni samúð mína

kv. Ásmundur

Ásmundur H. Jónsson (IP-tala skráð) 8.7.2009 kl. 13:21

4 identicon

Ég votta þér og fjölskyldu þinni samúð mína kv kristinn agnar.

Kristinn A. Sörensen Eiríksson (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 185615

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband