Jón fótalausi, baráttusaga manns!

Þegar ég var barn austur á Norðfirði þá heyrði maður sögur um Jón fótalausa, manninn sem hafði lent í sjóhrakningum á Seyðisfirði og kalið svo illa að það þurfti að taka neðan af báðum fótum um miðjan legg.  Jón fótalausi gafst ekki upp og lét sérsmíða á sig skó, en hann gekk á hnjánum.  Þannig réri hann til fiskjar á árabátum.  Þetta hefur verið seigla og dugnaður.  Amma átti mynd af Jóni, sem tekin var hjá ljósmyndara á Seyðisfirði.

Jón fótalausi ii

Jón hafði byggt lítið hús rétt ofan við Grund, við Strandgötu þar sem amma og afi áttu heima. Í því húsi bjuggu heiðurshjónin Sigga og Eiki, þegar ég man eftir mér, en Jón nefndi húsið Hlíðarhús.  Í kringum húsið var stór garður og í S.V. horni garðsins var annað enn minna hús, sem var kartöflu geymsla. Í því húsi var víst búið í gamla daga og þar ólst upp m.a. Svavar Benediktsson tónskáld.    Seinna kom gata ofan við Strangötu sem fékk nafnið Urðarteigur og þá varð húsið sem Jón fótalausi byggði og Sigga og Eiki áttu heima í,  Urðarteigur nr  17 og er enn.   Hús foreldra minna reis fullklárað árið 1969 og er nr 18 við Urðarteig, raunar byggt í landi sem tilheyrði Hlíðarhúsi.

Þegar ég kynntist Bergrós þá var hún áskrifandi að Gletting, sem er Austfirskt blað um Austfirsk málefni.  Margt fróðlegt er í því blaði, gefið út af duganaðarmönnum eystra.   Í nýjasta blaði Glettings er fjallað um hrakningasögu Jóns fótalausa. Sagan er skráð árið 1923 af Vald. V. Snævarr sem þá var skólastjóri á Norðfirði.   Ég las söguna af áhuga og myndin hér að ofan er úr Gletting en er eins mynd og amma átti. Í greininni í Gletting kom fram að Jón fótalausi var héðan af Álftanesi og ekki bara það, heldur frá Gesthúsum sem er næsta nágrenni við Hákotsvör, þar sem ég bý.   

Jón fæddist árið 1856 í Gesthúsum á Álftanesi.  Hann  fór ungur í vist til Gríms Thomsen að Bessastöðum og fyrir tvítugt var hann farinn austur á land.   Árið 1880 fór hann við fjórða mann í hinn örlagaríka róður frá Seyðisfirði og útmeð Skálanesbjargi.  Hann kól svo mikið að taka þurfti neðan af báðum fótum.  Aðrir tveir í áhöfn misstu neðan af öðrum fæti en sá fjórði slapp.  Árið 1901 flytur Jón til Norðfjarðar þar sem hann lést árið 1931. Hann giftist Guðrúnu Kristjánsdóttur og eignuðust þau 3 dætur en ein lést ung.   Jón gekk á hnjánum í sérsmíðuðum stígvélum og hann réri til fiskjar og var þannig bjargálna.  Saga Jóns er átaka og raunasaga, en saga manns sem ekki gafst upp.  Ég býst við að honum hefði þótt fjármála kreppa 21. aldarinnar léttvæg.  Hvað sem því líður þá er lærdómurinn af hans sögu sú að oftast eru til lausnir, líka í erfiðri stöðu.

Þorstein Víglundsson fyrrverandi skólastjóri í Eyjum skráði sögu Jóns fótalausa en Þorsteinn ólst upp á Norðfirði og réri m.a. með honum til fiskjar.  Söguna má lesa hér og hér .

 

 

 


Útrásin var og er mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf.

Nú þegar bankakerfið  hrynur þá er farið að tala um útrás íslenskra fyrirtækja næstum með hæðnistón.  Er það þannig að íslenska útrásin hefur mistekist? Ég tel svo ekki vera, þvert á móti.

Þau fyrirtæki sem eru dæmigerð íslensk útrásarfyrirtæki eru þau sem flytja út sína sérþekkingu.  Dæmi um slík fyrirtæki eru m.a.

  • ÖSSUR,
  • MAREL,
  • PROMENS
  • ACTAVIS

Öll þessi fyrirtæki byggja á og flytja út sérþekkingu og á þeim grunni byggist markaðforskot þeirra.  Ég get ekki betur séð en að útrás Baugs byggðist á því að þeir höfðu aðgang að miklu fé á meðan þeir voru ráðandi í Glitni.  Þannig keyptu þau hin ýmsu fyrirtæki erlendis og hófu að reka.   Á því byggðist sérstaða þeirra.   Ég held að Baugur hafi ekki verið að flytja út neina sér þekkingu, aðra en áræðni Jóns Ásgeirs  og félaga.  Þegar svo aðgangur að fjármagni þrengist, þá hriktir í.

VikingsÚtrás íslenskra fyrirtækja er og verður um ókomna tíð mikilvæg forsenda fyrir  því að við náum að halda samkeppnishæfum lífsskilyrðum hér á landi.  Útrásin hefur alls ekki mistekist þó bankar og einhver fyrirtæki sigli núna krappan sjó.   "ut vil ek" sögðu víkingar og sagan sýnir að okkur farnast best þegar  við stundum mikil utanríkisviðskipti og förum víða.  Það gildir jafnt um víkingaöld sem og 21. öldina.  Útrásin er og verður áfram mikilvæg fyrir íslenskt þjóðarbú.

 


Rúbbluvæðing landans.

Fékk í tölvupósti skondnar myndir sem ég set hér á bloggið.  Skjaldarmerki með hamar og sigð og Lenin og peningaseðill með Pútín.

skjald lenin

sedill putin

 


Verðmætamat.

Gulli og perlum að safna sér,

sumir endalaust reyna,

vita ekki að vináttan er,

verðmætust eðalsteina.

 

Gull á ég ekki að gefa þér

og gimsteina ekki neina.

En viltu muna að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

 

Höf: Hjálmar Freysteinsson, lækni og hagyrðing á Akureyri.

 


Sama hlutfall og í forsjármálum!

Þetta er ágæt ábending hjá feministum.  Það eru 9 karlar og ein kona í skilanefndinni, sem hlýtur að vera óheppilegt. 

Þetta er nákvæmlega sama hlutfall og lögheimili barna sem búa við það að foreldrar þeirra búa ekki saman.  Níu af hverjum 10 skilnaðarbörnum eiga lögheimili hjá móður.   Ég man ekki sérstaklega eftir því að feministar hafi talið það neitt sérstakt vandamál, þó trúlega sé kynbundinn munur hvergi meiri en í þeim málaflokk.


mbl.is Ein kona í skilanefndum yfir bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppa í þjóðarsálinni samfara fjármálakreppunni ?

Það hafa stanslausar fréttir af fjármálakreppunni riðið yfir landið á síðustu dögum.  Trúlega er ekkert við því að segja, þar sem ástandið er grafalvarlegt þegar m.a. gengi ísl krónunnar hrynur og það þarf neyðaraðstoð til að bjarga rekstri Glitnis. 

Samt finnst mér eins og fréttir séu á köfum yfirdrifnar, eins og þegar sagt er að það sé hugsanlega yfirvofandi vöruskortur í landinu.  Fjölmiðlar eru þannig með svartsýnar spár í fréttum á meðan helstu áhrifaöfl sitja langa fundi með ríkisstjórninni til að koma í veg fyrir að hið versta gerist.

Óháð því hversu alvarlegt ástandið er og hvað getir hugsanlega gerst,  þá er það  geysilega mikilvægt  að forystumenn þjóðarinnar telji kjark í þjóðina og þjappi henni saman.  Það hefur nefnilega hvarflað að mér að kreppan í þjóðarsálinni sé að verða meiri en sjálf fjármálakreppan.


Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Okt. 2008
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.10.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 187340

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband