Í minningu Harðar Stefánssonar.

Hörður StefánssonÍ gær fór ég með foreldrum mínum í jarðarför vinar þeirra Harðar Stefánssonar.  Jarðaförin var í Hveragerðiskirkju, en í Hveragerði hafði hann búið í hálfan annan áratug.  Þetta var falleg og látlaus athöfn og það var vel mætt.  Sérstaklega fannst mér gaman að sjá Norðfirsk andlit við athöfnina.

 

Hörður Stefánsson og fjölskylda tengjast einum af mínu fyrstu æskuminningum, er þau fluttu í húsið Freyju, næsta hús við ömmu og afa að Strandgötu 22 (Grund) í Neskaupstað. Foreldrar mínir áttu heima í kjallaranum hjá ömmu og afa.  Áður bjó Magnús Ölversson og fjölskylda  í  Freyju, en ég  og Jóhann bróðir lékum okkur við Sólveigu dóttir Magnúsar sem við kölluðum ávallt Lollu.   Magnús og fjölskylda flutti suður en í staðinn komu Kiddi og Stefán sem urðu leikfélagar okkar. Hörður litli bróðirinn í fjölskyldunni var svo í kerru á þessum árum en seinna átti hann eftir að verða vinur Guðmundar bróðirs.

 

Þegar við fluttum við uppá Urðarteig þá flutti Hörður og fjölskylda að Ásgarð ekki langt frá.  Kiddi Harðar var af okkur strákunum oft kenndur við húsið Freyju og kölluðum við hann gjarnan “Kidda í Freyju”.   Tilviljanir lífsins eru margar og seinna átti það fyrir þeim Stefáni og Lollu að verða hjón, en bæði höfðu um tíma átt sitt æskuheimili í Freyju á Norðfirði.

 

Pabbi og Hörður störfuðu saman í Lyonsklúbbnum á Norðfirði og sungu saman í Lyons kórnum.  Þegar Hörður var formaður, þá bauð klúbburinn Gunnari Þorsteinssyni  og mér til viku dvalar að Íþróttaskóla Sigurðar Guðmundssonar að Leirá í Borgarfirði.  Hörður og Pabbi voru einnig  saman í félagsskap sem fór m.a. í mörg ár í laxveiði í Selá í Vopnafirði.  Einnig fóru þeir saman á svartfugls “skitterí”.  Inná flugvelli fengum við strákarnir stundum að skjóta úr riffli á mark.  Það var undir styrkri leiðsögn Harðar.  Þegar Hörður  var í bæjarstjórn, þá tók mamma sæti í félagsmálanefnd að hans beiðni  og  sat þar lengi.  Stína Munda kona Harðar, klippti oft okkur bræðurna þegar við vorum litlir.  Hún var sjálfmenntuð í þeim fræðum og fórst það vel úr hendi.  Þannig var mikill samgangur á milli heimilanna.

 

Á æskuárunum var innbærinn á Norðfirði iðandi af lífi.  Við krakkarnir lékum okkur ýmist í fjörunni, smíðuðum fleka til að sigla á, nú eða kassabíla til að keyra.  Fremstur á meðal jafningja í fleka og kassabíla smíðinni var Kjartan Einars, sem snemma flutti með  foreldrum sínum til Grindarvíkur.    Á bryggjunum var ufsi veiddur, gjarnan gefinn til katta-Möggu, sem  gaf kisunum sínum ferska soðningu.  Það þótti óheppni að fá marhnút, eða massadóna eins og sá fiskur var einnig nefndur.  Að sama skapi þótti happadráttur að fá  þorsk.  Bryggjurnar voru BP-bryggjan, Gvendarbryggja og Mánabryggja.  Aðallega vorum við þó á BP bryggjunni, enda var BP-sjoppan fyrir ofan.  Konurnar í sjoppunni, Bogga á Sjónarhól og Sigga Þórðar höfðu vökul augu með okkur krökkunum, enda stundum ekki vanþörf á.

 

Eitt sinn datt einn af strákunum, Höskuldur í sjóinn við BP bryggjuna.   Hann náði að halda sér í spotta sem hékk utan á bryggjunni.  Steini Kolbeins og Stjáni Villa Brans komu hlaupandi en þeir voru innar í fjörunni að huga að sinni tryllu.  Annar hljóp beint út í sjó og hinn út á bryggjuna og skutlaði sér þar í sjóinn.  Höski hélt dauðahaldi í spottann og þeir björgðuðu honum.  Steini og Stjáni  fóru svo heim og skiptu um föt og  héldu áfram að huga að tryllu sinni, enda sumarið hábjargræðistími í trillubátaútgerð á Norðfirði.  Valli Jóhannesar, skutlaði Höska heim á sínum Scania Vabis vörubíl.  Mamma Höska setti hann í heitt bað, skipti um föt og svo fór hann aftur, daginn á eftir,   niður á bryggju að leika.  Svo var ekki meira með það.

 

Það var enginn fótbolta eða sparkvöllur í innbænum.  Þar var og er lítið undirlendi og spiluðum við  gjarnan fótbolta á hallandi túnum, uns við fundum lítinn flöt rétt fyrir innan Bergþórshvol. Þar bjó gamall maður, Sveinbjörn með konu sinni og sonum.   Þessi litli grasbali varð sparkvöllur okkar drengjanna.  Fljótlega fékk grasbalinn nafnið Swembley.  Í minningunni er  það Stína Munda mamma “Kidda í Freyju”  sem var höfundur að nafninu Swembley. Essið,  sem forskeyti við nafnið á hinum fræga velli, stóð fyrir Sveinbjörn.  Á meðal okkar drengjanna var því altalað um að fara  á Swembley í fóbolta, enda varð túnbalinn lengi leikvöllur okkar.

 

Það var spilað  á eitt mark og markmaður  varð    passa að sparka ekki  of langt út, þá fór boltinn í garðinn til Sveinbjörns.  Oftast var það ekkert mál en ég hygg að þetta hafi verið þreytandi fyrir fjölskylduna á Bergþórshvoli að hafa hóp af krökkum flest sumarkvöld við húsið hjá  sér.   Krakkar á þessu túni voru, m.a. Kiddi og  Höski, Stebbi og Kiddi, Kjartan, Kobbi og Sigrún, Siggeir, Jón Einar, Raggi, Addi og Kristín, Gunnar og Gústi litli.  Gugga og Munda, með litlu systir Karen fluttu svo í hverfið og bjuggu við þau forréttindi að faðir þeirra átti hestinn Skjóna.  Þannig var þetta dágóður hópur af krökkum innst í innbænum.

 

Sveinbjörn á Bergþórshvoli, eigandi Swembley,  hafði sem ungur maður búið í Sandvík og Hellisfirði, staðir  sem löngu eru komnir í eyði. Sveinbjörn var bróðir “katta-Möggu”.  Bæði héldu nábýli við dýr og þannig var Magga alltaf með ketti og Sveinbjörn með kindur og um tíma var hundurinn Snati einnig til heimilis á Bergþórshvoli.   Þau tilheyrðu kynslóð, sem á síðustu öld flutti úr sveit til bæja við sjávarsíðuna.  Þannig áttu margir Norðfirðingar rætur  í Mjóafirði, Hellisfirði, Viðfirði, Sandvík, Vöðlavík, nú eða  Helgustaðahreppi eins og Hörður Stefánsson.

 

Hörður las mikið og var fjölfróður um margt.  Hann var oftast á heimaleikjum Þróttar Nes og fylgdist með fótboltanum.    Ég man að Kiddi hélt alltaf með Í.A. enda spiluðu skyldmenni Stínu Mundu  í Skagaliðinu.  

 

Þegar Bubbi  Morthens kom með eina af sínu fyrstu ef ekki bara  þá fyrstu tónleika til Neskaupstaðar, þá var Hörður mættur, trúlega aldursforseti í salnum.   Sat að vísu ekki á fremsta bekk en til hliðar aftarlega. Bubbi hafði unnið sem farandverkamaður í Neskaupstað áður en hann varð frægur.  Það voru því margir á Austurlandi sem þekktu til Bubba áður en frægðarsól hans fór að skína.  Í upphafi feril síns var Bubbi hrjúfur og óheflaður listamaður, sem naut ekki endilega virðingar elítunnar í landinu.   Kannski kunni Hörður að meta hrjúfleikann  í Bubba og þá eiginleika að tala beint út, líka það sem stuðaði menn.  Þó Hörður hafi verið á köflum hrjúfur maður, þá var hann  næmur á margt  og kannski hefur honum boðið í grun að Bubbi Morthens ætti eftir að verða eitthvað meira.

Stefán var einu ári eldri en Jóhann bróðir og “Kiddi í Freyju” var einu ári yngri en Jóhann, og þ.a.l einu ári eldri enn ég.   Þannig vorum við Jóhann bróðir ekki í sömu bekkjum og þeir bræður.   Nýir félagar okkar allra komu úr röðum bekkjabræðra.  Allir fórum við hver sína leið á unglingsárum, og áfram út í lífið.  Raunar búa flest, okkur sem lékum  á Swembley “í denn” ekki lengur í Neskaupstað. 

 

Það var ánægjulegt að sjá í jarðarförinni, hve myndarleg börn þeir bræður eiga og kom glögglega fram í minningarræðunni um Hörð hve stoltur hann  var af sínum börnum og barnabörnum.

 

Hörður var, eins og  allir menn,  ekki gallalaus.  Bakkus  var lengi fyrirferðamikill ferðafélagi  í hans lífi en varð svo farastjóri sem tók völdin.  Bakkus er harður húsbóndi og eftir  að Hörður hafði leitað sér  hjálpar þá fékk hann áfall árið 1994 og var eftir það bundinn  í hjólastól. 

 

Þegar Hörður og Stína Munda fluttu til Hveragerðis minnkuðu eðlilega samskipti  þeirra við foreldra mína.  Vináttan var og er  traust og ofast þegar foreldrar mínir komu til Reykjavíkur var tekinn bíltúr til Hveragerðis til að heimsækja þau.  Ég veit að strengur á milli Stínu og foreldra minna verður áfram einlægur og sterkur.

 

Hörður Stefánsson og fjölskylda er hluti af björtum myndbrotum æskunnar.  Án hans hefði tilveran verið öðruvísi og fátæklegri.  Ég kveð hann með þessum línum:

Áin hefur streng, sem streymir,

stóran foss og hyl, sem dreymir.

Henni varstu í háttum skyldur,

kvikur í bragði, en þó svo mildur.

(Guðm. Friðj.)

Blessuð sé  minnig  Harðar Stefánssonar. Eiginkonu, sonum og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína.


Föðurhlutverkið.

Þýtt úr Father World vol 3 nr 2  
Sum börn eiga feður sem búa ekki hjá þeim og senda til heimilisins pening og föt.
Sum börn eiga feður sem búa nálægt og heimsækja þau reglulega
Önnur börn eiga föður sem ala þau alfarið upp
Önnur börn eiga föður sem deilir heimili og uppeldisskyldum með móður

Önnur börn eiga föður sem lítur ávallt eftir þeim,
svo móðir þeirra geti unnið

Sum börn eiga föður, sem þau dvelja hjá um helgar og í fríium.
Önnur eiga föður sem er í fangelsi.
Sum börn eiga föður sem býr hjá þeim en er lítið heima
Önnur eiga fóstur- eða stjúpfeður
Sum börn eiga feður sem eru of fátækir til að sjá fyrir þeim
Sum börn eiga frænda eða afa sem ganga þeim í föðurstað.

Sum börn eiga föður sem sjálfur er barn
og þau börn eiga ekki föðurímynd

Sumir feður lesa fyrir börnin fyrir svefnin og segja þeim sögur.
og það eru til feður sem ekki kunna að lesa

Það eru feður sem elska og ala upp sín börn
og það eru til feður sem vanrækja börnin og misnota

Sumir feður birtast börnunum aðeins á afmælum og stórhátíðum
Sumir feður hafa aldrei hitt kennara þeirra
Sumir feður eru veikir, sumir fremja glæpi og aðrir ofbeldi gegn barnsmæðrum þeirra.
Aðrir vinna langan og erfiðan vinnudag til að sjá fyrir börnunum.

Sumir feður eru öruggir í sínu feðra hlutverki og eru stoltir af því
aðrir óttast ábyrgðina sem því fylgir

Sumir feður flýja frá börnum sínum
aðrir eru í angist að reyna að fá samvistir sem barnsmæður þeirra hindra

Föðurhlutverkið tekur á sig margar myndir.

EITT ER SAMEIGNLEGT:
ÞAÐ SEM PABBI GERIR SKIPTIR BARNIÐ MÁLI.


Gísli Gíslason
Þýtt úr Father World vol 3 nr 2

Dauðarefsingar.

Velti stundum fyrir  mér réttlætinu fyrir því að ríki taka  sér þann rétt að taka einstaklinga af lífi með aftöku.   Einstaklingur sem tekur líf annars mans er morðingi.  Er þjóðríki sem tekur menn af lífi ekki líka morðingi?   Ég held það.  Það er enginn munur þessu tvennu. 


mbl.is Fyrrum samstarfsmenn Saddams dæmdir til dauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Foreldraábyrgð kynjanna er mismunandi og leiðir til launamunar.

Ég hef ítrekað bent á að mismunur í foreldraábyrgð kynjanna endurspegli trúlega að stórum hluta launamun kynjanna og skrifaði grein í Morgunblaðið þann 2.júní 2007, sem hét,  "Launamunur kynjanna og foreldraábyrgð"    Á meðan konur bera meiri ábyrgð á heimili og uppeldi barna, þá verður launamunur kynjanna viðvarandi.    Foreldrajafnrétti skapar forsendur fyrir launajafnrétti, en þetta tvennt mun haldast í hendur.  
mbl.is Óútskýrður launamunur kynjanna 10-12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur hafa 66% af launum karla fyrir fullt starf!

Í Morgunblaðinu í dag er frétt að konur í bankageiranum hafa um 66% af tekjum karla,  en var 63% árið 2004.  Þetta þýðir að laun meðalkonu eru 66% af launum meðal karlmanns í bönkum og fjármálastofnunum.   Einhver hluti af þessum launamun er óútskýrður. Hluti af skýringunni er að karlmenn eru hærra settir en konur í þessum starfsgeira.  
Mér fannst athyglisvert að talan 66% eða 2/3 kæmi upp. Ég hef ítrekað bent á  að kynbundinn munur í foreldraábyrgð endurspeglaði í stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sjá  grein. 
Ef við skoðum fæðingarorlofskerfið, sem er mjög gott kerfi á heimsvísu,   þá tíðkast það oftast að konur taki 6 mánuði (sína 3 mánuði og þá 3 sem foreldrar geta valið)  og karlar 3 mánuði.  Þannig taka konur 66,66 % af  fæðingarorlofinu eða 2/3, sem er sama hlutfall og ofangreindur launamunur.  Karlar taka oftast 33,34 % eða 1/3 af fæðingarorlofinu.   Karlar taka því að meðaltali aðeins helming af því fæðingarorlofi sem konur taka.  Hér er kynbundinn munur, rétt eins og á vinnumarkaðnum.

Til hamingju konur og Geir frændi

Í dag 19.júní er Kvennréttindadagurinn.   Til hamingju allar konur !   Geir frændi Sigurjónsson að  Þúfubarði 6 er 77 ára í dag.  Til hamingju.


Foreldraábyrgð og launajafnrétti !

Ég hef ítrekað bent  á að kynbundinn munur í foreldraábyrgð endurspeglar stöðu kynjanna á vinnumarkaði.  Launamunur kynjanna verður trúlega viðvarandi svo lengi sem við búum við kynbundin mun í foreldraábyrgð.   Foreldrajafnrétti skapar forsendur fyrir launajafnrétti, sjá
mbl.is Bæði kynin reikna með því að konur sætti sig við lægri laun en karlar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgin.

Ágæt helgi er að kveldi komin.  Börnin komu á föstudaginn og alltaf er jafn notalegt þegar þau koma.   Berglind og Heimir, ásamt börnum sínum, Tinnu, Örvari og Kötlu voru hér á leið sinni  til Rhodos.   Það var ósvikin ánægja hjá börnunum að hittast og voru börnin dugleg á trampólíninu.  Gísli Veigar tók sínar rispur þar einnig, en talvan hefur alltaf mikið aðdráttarafl.  Sannarlega spennandi og glöð fjölskylda sem lagði í 'ann eldsnemma þann 16.júní og verða 2 vikur á Rhodos 

Á sunnudeginum var svo farið til  Ragga og  Birnu og  nýjasti fjölskyldumeðlimurinn skoðaður aftur.   Gísli og Eyleif voru spennt að sjá 6 daga dreng og fannst þetta mikið undur.  Svo  var farið á 17.júní hátíðina  á Álftanesi.   Svo notalegt að vera hér í fámenni en góðmenni og dagskráin ágæt. Eyleif, Katla og TinnaGísli Veigar

 


Hvað með feðra eða karlahlaup?

Það er frábært að konur, mæður og dætur hlaupi og skokki sér til heilsubótar.   Hreyfing er holl og  góð vísa er aldrei of oft kveðin. Það er fallegt að horfa á ömmur, mömmur og dætur skokka, labba eða hjóla  saman.

Ég spyr, væri ekki hollt og gott að hafa einnig feðra eða karlahlaup, þar sem afar, feður og synir myndu skokka sér til heilsubótar líkt og þetta þarfa framtak Sjóvá og ÍSÍ?


mbl.is Konur hlaupa víða í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæðingarorlof í ýmsum löndum.

Ég hygg að í ekki nokkru öðru landi eru réttindi kynjanna nálægt  því að vera jöfn og hér þegar um er að ræða fæðingarorlof.  Íslenskir feður hafa 3 mánuði, mæðurnar 3 mánuði og svo verða foreldrar að ákveða hvort tekur síðustu 3 mánuðina.   Ég býst við að hjá vel flestum þýði þetta að mæður taki 6 mánuði í fæðingarorlof og feður  í 3 mánuði.    Íslenskir feður hafa tekið þessum réttindum fagnandi og  langflestir nýta þann 3ja mánaða rétt sem þeir eiga.   

Þetta styrkir tengsl feðra við börn sín. Nágrannalönd  horfa mjög til Íslands og þá  reynslu sem skapast af þessum lögum. 

 

Hér að neðan er yfirlit yfir  fæðingarorlofsfyrirkomulag í mismunandi löndum.  Það sem einkennir  íslenska kerfið er  að feður hafa ríkari rétt en í nágrannalöndundunum  Jafnframt  er lengd orlofstímans hér á landi styttri en í nágrannalöndunum.  Allir flokkar á Íslandi höfðu það á stefnuskrá sinni að lengja orlofið úr 9 mánuðum í  12 mánuði.

 

Tafla 1. Fæðingarorlof í hinum ýmsu löndum. Ísland er með jöfnustu réttindi foreldra í þessum efnum

 
 Gerð og lengd orlofs í mánuðum.
 MæðraorlofFeðraOrlofForeldraorlofHeildar fæðingarorlofHeild         Greitt
Austuríki  PPP  3.5ÏPP 22* 24             24*
BelgíaPPP  3.5 PPP   0.5 PP     6       9.5          9.5
KanadaPPP  3.5P       <0.5PPP  8.5  12             11.5
DanmörkPPP  4PPP   0.5PPP  7.5  10.5          10.5
FinnlandPPP  4PPP   1PPP  6     36             36
FrakklandPPP  3.5PPP   0.5PP 33* 36             36*
ÞýskalandPPP  3.5ÏPP34* 36             24*
ÍslandPPP 3PPP 3PPP  3      9             9
ÍrlandPP   6ÏP        6.5 12             4
ItalíaPPP  4.5ÏPP   1012.5         12.5
HollandPPP  3.5PPP <0.5P        6      8.5         2.5
NoregurPPP  2P         0.5PPP10  11.5        11.5
PortúgalPPP  5.5PPP   1P        6    11.5        5.5
SpánnPPP  3.5PPP <0.5P      32.5 36           3.5
BretlandPP   12PP     0.5P        6     18           6
 Ï - ekki lögbundin réttindiP - heimild en ógreitt; PP - heimild og greitt hluti af launamissi, oftast <50% af tekjum;PPP - heimld til allra foreldra  og greiðsla oftast meira en 50% af tekjum* - Greiðsla innt af hendi óháð því hvort foreldrar taki orlofa eða ekki.Heimild: www.fathersdirect.com   

Næsta síða »

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Júní 2007
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband