Lifi Sparisjóður Norðfjarðar !

Þegar maður sér að bankar og fjármálastofnanir erlendis fara á hausinn eða bjargað með neyðarráðstöfunum hins opinbera eins og gert var hér á landi með Glitni, þá hugsar maður að það er nú voðalega notalegt að eiga litla og sæta lánastofnun sem heitir SPARISJÓÐUR NORÐFJARÐAR. Þar á bæ hefur trúlega alltaf verið farið varlega og það virkar vel á mann nú þegar "náttúruhamfarir" í fjármálaheimi ríða yfir heimsbyggðina.    Þannig er gott rúlla sínum peningum í gegnum lítinn sparisjóð austur á landi, í firðinum fagra, þar sem lognið hlær svo dátt.  Lifi Sparnor.


Foreldrajafnréttisverðlaun

Ég hef oft skrifað að launamunur kynjanna er endurspeglun á mismun í foreldraábyrgð kynjanna. 

Eitt sinn voru konur heimavinnandi og karlar fyrirvinnur heimilanna. Konur sóttu út á vinnumarkaðinn og börnin fóru í leikskóla. Ennþá bera konur að meðaltali meiri ábyrgð á heimili og börnum og karlar bera að meðaltali meira úr býtum á vinnumarkaði. Meiri ábyrgð kvenna í foreldrahlutverkinu rýrir sveigjanleika þeirra á vinnumarkaði og viðheldur þannig bæði útskýrðum og óútskýrðum launamun. Kynbundinn munur í heimilis- og foreldraábyrgð endurspeglar því stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Munur í foreldraábyrgð kynjanna er almennur, bæði þegar foreldrar búa saman en mestur þegar foreldrar búa ekki saman. Það eru um 14.000 mæður sem búa ekki með barnsfeðrum sínum, en þær hafa lögheimili um 20.000 barna hjá sér, þ.e. barna yngri en 18 ára. Þær bera þ.a.l. mesta ábyrgð á uppeldi þeirra og hafa stöðu, skattalega og félagslega sem foreldri og einstætt foreldri ef þær eru ekki í sambúð með nýjum maka. Það eru um 12.000 feður sem greiða meðlög með þessum 20.000 börnum og flokkast þeir skattalega sem barnlausir einstaklingar ef börn þeirra hafa ekki lögheimili hjá þeim. Trúlega er kynbundinn munur hvergi meiri en í þessum málaflokki, sem telur 26.000 foreldra eða um 16% af vinnnandi fólki á Íslandi. Mismunur í foreldraábyrgð kynjanna í þessum hóp skapar þeim mjög ólíka stöðu á vinnumarkaði. Eðli málsins samkvæmt er þessi hópur á fyrri hluta síns starfsferils þar sem kjör þeirra til langframa eru oft mótuð.

Í Bretlandi er fyrirtækjum veitt Fatherhood quality mark.  Það væri full þörf á að veita einnig fyrirtækjum foreldrajanfréttisverðlaun hér á landi.

 FORELDRAJAFNRÉTTI ER LEIÐ TIL LAUNAJAFNRÉTTIS. 


mbl.is Fær þitt fyrirtæki jafnlaunavottun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkaður af bloggvini Sigmari Þór !

Ég tek áskorun bloggvinar míns Sigmars Þórs sem klukkaði mig.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina: sjómaður, heilbrigðisfulltrúi, útibússtjóri, markaðsstjóri.

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á: Með allt á hreinu, Grease, Hrafninn flýgur, Gandhi.

Fjórir staðir sem ég hef búið á: Neskaupstaður, Vestmannaeyjar, Tromsö og Lincoln

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar: Fréttir, Spaugstofan, Kastljós og Áramótaskaupið

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum: Kanarý, Mallorca, Bournemouth, Bath.

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg: Mbl.is  Rúv.is, 1964.is og nordfirdingafelagid.is 

Fernt sem ég held uppá matarkins: Hamborgarahryggur, humar, lambakjöt, pizza a'la Bergrós.

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft: Þar sem vegurinn endar, Barnalög ásamt greinargerð, Góðan dag barnið mitt, Stolið frá höfundi starfrófsins.

Fjórir bloggarar sem ég ætla að Klukka: Guðmundur Gíslason, Eysteinn Þór Kristinsson, Sigrún Sveitó og Sigurður Haukur Gíslason.

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna: Kanarý, England, USA og Ástralía.

Kær kveðja GG


Amma 85 ára !

Amma  fæddist austur í Viðfirði þann 11. september  fyrir 85 árum og í kirkjubókum fékk hún nafnið María Ingiríður og er Jóhannsdóttir.  Fyrir austan var hún þó ávallt nefnd Lóló.   Þegar hún flutti til Reykjavíkur árið 1963 fór hún að kynna sig sem Maríu.  Ef maður rekst á einhvern sem þekkir hana undir nafninu María þá hefur viðkomandi kynnst henni eftir  að hún flutti suður. Að sama skapi ef einhver talar um Lóló, þá hefur viðkomandi að öllum líkindum kynnst henni fyrir austan.  

 

Amma er tvígift, en afi Jóhann Pétur Guðmundsson var fyrri eiginmaður hennar og með honum eignaðist hún 5 börn, þau Jóhann, Guðrúnu Maríu, Kristínu Ingibjörgu, Jens Pétur og Hólmgeir þór.  Líf Ömmu hefur snúist að miklu leyti um fjölskylduna, börnin sín og afkomendur þeirra.  Hún fylgist vel með öllum og gleði barna, barnabarna og barnabarnabarna er einnig hennar gleði.  Fyrir konu sem fjölskyldan skiptir öllu máli var dýrmætt að kynnast og giftast Grími Lund.  Grímur var ekkill og hefur vinátta ömmu við börn hans og barnabörn verið einlæg og ákaflega traust.  Afkomendur ömmu telja alls nokkra tugi og er hún margföld langamma.  Vinátta er falleg á öllum aldri og mjög  góður vinur ömmu síðustu árin er Gísli Þór Sigurðsson.

Það er margt hægt að skrifa um ömmu en ég læt staðar numið hér og óska henni innilega til hamingju með afmælið.  Það er vert að gera það með vísu sem faðir hennar fékk frá Ægi, á áttræðisafmæli sínu. 

 

Yfir næsta áratug

allt þér gangi í haginn.

Ég óska þér af heilum hug

til hamingju með daginn.

 

afi og amma, með jóhann frænda, Imbu og  Mömmu IMG 2387

 

ELSKU AMMA TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN. 

 


Tindáta leikur hinna ríku.

Það er dapurt ef billjónerar eru að kaupa öll stærstu lið í Englandi.  Þannig hættir fótboltinn að vera stolt hvers svæðis, þar sem áhorfendur, sponsorar, ásamt sjónvarpssamningum myndi helstu tekjustofna klúbbanna.  Þannig hættir það að vera mögulegt fyrir klúbb að vera á meðal þeirra bestu nema einhver billjóner dæli fjármunum inn í reksturinn.  Þannig fer enski boltinn að verða tindátaleikur billjóneranna.  Ég er ekki viss um að það sé æskilegt.  Það hlýtur að vera eins með svona rekstur eins og allan annan rekstur að til lengdar verða eðlilegar tekjur að standa undir eðlilegum útgjöldum. 


mbl.is Vænkast hagur Newcastle
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umferðartenging í Vatnsmýrina úr suðri

Eftir Gísli Gíslason: "Mörg efnisleg rök fyrir að setja vegtengingu úr suðri yfir eða undir Skerjafjörðinn inn á Vatnsmýrarsvæðið"

 
UMFERÐIN á morgnana inn á miðsvæði Reykjavíkur og frá svæðinu síðdegis er þung og á verstu tímum er jafnvel umferðarteppa. Á sama tíma og þetta ástand er þá er ljóst að bæði byggð og stofnunum mun fjölga á miðsvæði Reykjavíkur, Vatnsmýrarsvæðinu.

Í dag eru helstu umferðaræðar ofsetnar á álagstímum. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni a.m.k. minnkar. Þetta eykur rými til nýbygginga á svæðinu. Það er verið að byggja nýjan Háskóla Reykjavíkur í Vatnsmýrinni. Það er áætlað að stækka Landspítala Háskólasjúkrahús. Háskóli Íslands stækkar og dafnar. Þannig er og verður vaxandi þörf fyrir nýja umferðartengingu inn á þetta svæði. Það gildir bæði fyrir fólk á leið til og frá vinnu og námi en ekki síður fyrir öruggt aðgengi að Landspítalanum. Í þessu sambandi er eðlilegt að skoða að tengja með vegi, brú eða göngum, frá sunnanverðu Sjálandi Garðabæjar til Bessastaðaness, til Kársness og yfir í Vatnsmýrina. Á hjálagðri mynd er ein hugmynd að slíkri leið.

 

Hagsmunamál margra

Tenging yfir Skerjafjörðinn sem styttir vegalengdir margra til og frá vinnu eru mikið framtíðar hagsmunamál fyrir íbúa Kópavogs, Garðabæjar, Álftaness, Hafnarfjarðar og jafnvel Suðurnesja. Ekki síður er þetta hagsmunamál fyrir íbúa mið- og vesturbæjar Reykjavíkur sem og Seltirninga þar sem slík framkvæmd gerir leiðina greiðari til Keflavíkur.

Sem Álftnesingur tel ég lykilatriði að slík umferðartenging fari ekki í gegnum byggðina á Álftanesi, heldur austan við hana. Núverandi valdhafar á Álftanesi hafa sagt að framtíðargolfvöllur ætti að vera á Bessastaðanesi. Með slíkri framkvæmd kæmi vegtenging við Bessastaðanesið að austan til. Slík vegtenging ætti því að geta verið ein forsenda fyrir tryggu aðgengi að Bessastaðanesinu sem gæti verið forsenda fyrir því að draumur núverandi valdhafa um framtíðar golfvöll á Bessastaðanesi verði að veruleika.

 

Umhverfismál

Þegar umferð er mest fara svifryksmælingar yfir heilsuverndarmörk við helstu umferðaræðar borgarinnar. Ný leið inn á miðsvæðið, yfir Skerjafjörðinn minnkar álag á þær stofnæðar sem fyrir eru og minnkar þar væntanlega svifryk. Það bætir loftgæði í borginni. Tenging yfir Skerjafjörðinn myndi stytta vegalengd margra til og frá vinnu og námi. Styttri vegalengd til vinnu eða náms þýðir daglega minni útblástur frá bílum sem er mikið umhverfismál en stytting vegalengda er einnig beinlínis þjóðhagslega hagkvæm.

Það eru mörg efnisleg rök fyrir að setja á dagskrá tengingu yfir eða undir Skerjafjörð. Það er mikilvægt að slík framkvæmd verði gerð í sátt við náttúru Skerjafjarðar. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir allan suðurhluta höfuðborgarsvæðisins.

Morgunblaðið 06.09.2008. 

Höfundur er lífefnafræðingur og í stjórn Sjálfstæðisfélags Álftaness.


Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Sept. 2008
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.10.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 187341

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband