15. mai er Fjölskyldudagur Sameinuðu þjóðanna. Þema 2008: Feður og fjölskyldur; ábyrgð og áskoranir.

Árið 1993 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar að 15. mai skyldi verða alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar.  Árlega gefa Sameinuðu þjóðirnar deginum þema og í ár er þemað “feður og fjölskyldur, ábyrgð og áskoranir”.   Þessi dagur hefur ekki verið heiðraður sérstaklega á Íslandi.  Þar sem þema dagsins í ár fjallar um stöðu ferðra, þá langar mig að gera grein fyrir þeim áskorunum sem feður og samfélagið á Íslandi standa frammi fyrir.

Réttindabarátta feðra.

Eitt sinn voru feður fyrirvinnur heimilanna en mæður heimavinnandi og uppalendur barnanna.  Í dag eru bæði mæður og feður uppalendur og þátttakendur á vinnumarkaði og skólastofnanir samfélagsins hafa aldrei gengt stærra uppeldishlutverki. Réttindabarátta feðra á Íslandi eins og annars staðar í heiminum hefur snúist um það að öðlast jafnan rétt og mæður til að vera foreldri og þar með einnig rétt barna til beggja foreldra.   

 Forysta Íslands með fæðingarorlofslögum.

Meðal annars í framhaldi af hæstarréttardómi (208/1997) urðu til  fæðingarorlofslögin þar sem feður og mæður eiga hvor sína 3 mánuði í fæðingarorlof og ákveða sjálf hvort tekur 3 mánuði. Þarna er verið að jafna foreldraábyrgð sem jafnar stöðu kynjanna á vinnumarkaði.  Víðast erlendis hafa mæður nokkra mánuði og allt uppí ár eða meira í fæðingarorlof en feður í besta falli örfáar vikur.  Fæðinarorlofslögin á Íslandi eru skýrt dæmi um það þegar löggjafinn gefur skýr skilaboð að báðir foreldrar skulu bera sem jafnastar uppelsdisskyldur.  Hér er forysta Íslands á heimsvísu óumdeild.

Umgengnisrétturinn.

Lög nr 60/1972 skilgreina fyrst rétt fráskildra feðra til að umgangast skilgetin börn sín eftir skilnað. Feður, sem eignuðust börn utan hjónabands eða í óvígðri sambúð, höfðu áfram engann lagalegan rétt til að umgangast börn sín.  Það var fyrst árið 1981 sem feður á Íslandi fengu almennan umgengnisrétt óháð hjúskaparstöðu.   Það er sérstakt að börn sem fæðast utan hjónabands hljóta lögbundinn umgengnisrétt við feður sína heilum 9 árum á eftir skilnaðarbörnum.  Sambærilegur réttur á hinum norðulöndum var  allstaðar lögfestur árið 1970 eða fyrir þann tíma.

 

Forsjá.

Árið 1992 var opnað á þann möguleika í lögum að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barna sinna.  Það var 7 árum á eftir dönum, 11 árum á eftir norðmönnum og 16 árum á eftir svíum.

 

Vorið 2007 var lögfest sameiginleg forsjá sem meginregla við skilnað foreldra og var það gert að frumkvæði Björns Bjarnasonar Dómsmálaráðherra.  Við skilnað fara foreldrar sjálfkrafa áfram með forsjá barna sinna nema annað foreldrið fái forsjánni rift fyrir dómi.    Þessi regla gildir aðeins fyrir skilnaðarbörn en ekki fyrir börn sem eru fædd utan hjónabands.  Ennþá telur löggjafinn óþarfi að börn sem fæðast utan hjónabands njóti sameiginlegrar forsjár að meginreglu líkt og skilnaðarbörn.   Þetta er ekki ósvipuð staða með forsjármál barna eins og var með umgengnisrétt barna árið 1972 sem náði aðeins til  skilnaðarbarna. Spurningin er hvenær verður sameiginleg forsjá meginregla  fyrir öll börn en ekki bara skilnaðarbörn?

Löggjafinn bindur hendur dómara í forsjármálum.

Íslenski löggjafinn gefur dómurum ekki skýra lagalega heimild til að dæma í sameiginlega forsjá.  Þannig verður dómari ávallt að svipta annað foreldrið forsjá ef slík mál rata fyrir dómstóla.  Mér vitanlega er ekkert annað land í hinum vestræna heimi sem bindur hendur dómara á þennan hátt.  Víða erlendis er barn aðeins svipt forsjá annars foreldris ef forsjáin er beinlínis skaðleg barni. Hugsanlegur skoðanaágreiningur foreldra er ekki nægjanleg ástæða til forsjársviptingar. Hér þarf íslenski löggjafinn að gefa skýrari línur.

 

Meðlagsmál.

Ríkisstjórn Íslands hefur nýverið samþykkt að láta endurskoða meðlagskerfið.  Aftur er það að frumkvæði Björn Bjarnasonar Dómsmálaráðherra sem þessi mál eru á dagskrá.  Í  tilkynningu frá ráðuneytinu segir: “íslenska kerfið hafi undanfarna áratugi þróast og breyst mun hægar en flest önnur.”   Hér hafa íslenskir feður, sem eru 96% greiðenda,  þurft að búa við löngu úrelt kerfi, sem ekki er í neinum takti við breytt þjóðfélag, né í takt við endurbætur á sambærilegum kerfum erlendis.


Löggjafinn  þrengir rétt feðra til að höfða faðernismál.

Alla síðustu öld höfðu feður engan rétt til að fara í farðernismál.  Svokölluð “pater est” regla var (og er) í gildi sem segir að  eiginmaður teljist sjálfkrafa faðir barns.  Sem viðbrögð löggjafans við dómi hæstaréttar  419/2000 leiddi að í  barnalögum frá 2003 er fyrst opnaður möguleiki fyrir feður að höfða faðernismál.  Sú heimild er þó bundin við það að móðir hafi alls ekki feðrað barnið.  Í sömu barnalögum er fyrst kveðið á um það að einstæð móðir ber að feðra barn sitt.

 

Það er með ólíkindum að fyrst á þessari öld fengu feður þann rétt að höfða faðernismál og enn þann dag í dag hafa feður ekki rétt til að fara í faðernismál ef meint barnsmóðir þeirra er í sambúð eða hjónabandi.   Rökstuðningur fyrir  þessu virðist vera að feðrum sé hreinlega ekki treyst fyrir  þessum mannréttindum.  Það eru sorglegir fordómar og mér vitanlega er þetta ákvæði í íslenskum lögum einstakt í hinum vestræna

heimi.

Er trúfélag móður merkilegra en trúfélag föður ?

Flestir íslendingar eru í sama trúfélagi og þannig lendir barn sjálfkrafa í trúfélag foreldranna.  

Það  fjölgar aftur á móti foreldrum sem ekki tilheyra sama trúfélagi.  Í lögum  nr 108/1999 segir “8.gr:2.mgr. Barn skal frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.”?   Hér er trúfélag móður gert rétthærra undir höfði en trúfélag föður.   

Væri ekki eðlilegra að barn, sem ætti foreldra í ólíku trúfélagi,  fengi uppfræðslu um bæði trúarbrögðin og myndi svo seinna velja sjálft hvaða trúfélagi það vildi tilheyra?  

 

Nútíma feður, ábyrgð og áskoranir.

Á undanförnum áratugum er margt sem hefur áunnist við að jafna foreldraábyrgð kynjanna.  Það er áskorun fyrir löggjafann og samfélagið allt að halda áfram að jafna uppeldislega ábyrgð kynjanna óháð hjúskaparstöðu þeirra.  Það er jafnréttismál, sem skapar kynjunum sömu forsendur til sóknar á vinnumarkaði,  en fyrst og fremst eru það bestu hagsmunir barna að eiga ávallt bæði föður og móður sem virka uppalendur.  Íslenskir feður taka aukinni ábyrgð fegins hendi. Það sést best á þáttöku feðra í fæðingarorlofi og feður í sambúð með barnsmæðrum sínum hafa aldrei verið virkari í uppeldi barna sinna.  Barátta forsjárlausra feðra nýtur einnig æ meiri skilnings.  Þema hins alþjóðlega fjölskyldudags er þörf áminning Sameinuðu þjóðanna að ríki ættu að fjalla um stöðu feðra.  Það er ennþá víða verk að vinna í þessum efnum.

Löggjafinn gefur skýr skilaboð um framfærsluskyldu feðra en sambærileg skilaboð um uppeldisskyldur eru ekki eins skýr.  Ögrun samfélagsins er að breyta þessu.

http://www.un.org/esa/socdev/family/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Gott að vita þetta um trúfélögin. Ég nefnilega þekki fjölskyldu, kallinn var alki sem fór í meðferð og svo eftir þurrkunina á var hann í einhverju trúarvingli um tíma. Sótti samkomur hjá Veginum eða einhverju álíka söfnuði. Nema hvað einhver prestur þar hrasaði af vegi dyggðarinnar og framdi eitthvað hórdómsbrot og það átti að setja hann af sem leiðtoga. Þá stofnuðu einhverjir annan söfnuð Klettinn utan um hinn hrasaða prédikara. Þetta kemur fjölskyldunni þannig við að kallinn skráði konuna og öll börnin í Klettinn án þess að spyrja hana. Ég margspurði konuna um þetta, ég hélt að þetta væri ekki hægt. Það getur verið partur í bata alkóhólista að gefa sig trúnni á vald en það er arfavitlaust að heilu fjölskyldurnar fylgi einhverjum hrösugum prédikara í agnarsmáa klofningssöfnuði út af því. Sem betur fer er konan laus við kallinn. Hann er reyndar orðinn alki aftur svo trúin hjálpaði ekki. Því miður eru margar konur og mörg börn ofurseld hallærisgangi í svona alkaköllum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.5.2008 kl. 22:12

2 Smámynd: Gísli Gíslason

Það getur enginn fullorðinn einstaklingur skráð annan einstakling í annða trúfélag, nema  með leyfi viðkomandi.

Annars hjá ég eftir: "Því miður eru margar konur og mörg börn ofurseld hallærisgangi í svona alkaköllum."   Þetta á alveg eins við karla og börn.

Gísli Gíslason, 27.5.2008 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 185617

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband