Góð og raunsæ grein !

Það er geysilega góð og afgerandi grein í Morgunblaðinu í dag, en það er grein sem bendir á innihaldsleysi þeirrar sem vilja koma í veg fyrir frekari uppbyggingur álvera og helst einnig í veg fyrir frekari uppbyggingu vatnsaflsvirkjana.   Þeir sem vinna á móti þeirri uppbyggingu misnota herfilega hugtakið umhverfisvernd máli sínu til stuðnings, en ég set þessa frábæru grein hér að neðan.
MBL.is, Mánudaginn 28. desember, 2009 - Aðsent efni

Nauðhyggja græningjans

Eftir Gunnar Þórarinsson: "Langstærsta tækifærið til nýsköpunar í atvinnulífi og aukinna útflutningstekna í náinni framtíð er uppbygging álvers í Helguvík."


Ólafur Þ. Hallgrímsson ritar grein í Morgunblaðið 12. desember undir fyrirsögninni „Ál-nauðhyggjan“. Hann heldur því m.a. fram að áliðnaður og stóriðja séu orðin að trúarbrögðum í hugum fólks sem telur að álver séu forsenda atvinnuuppbyggingar og bættra lífskjara. En hvað með trúarsannfæringu Ólafs og skoðanabræðra?

 

Spekúlantar með huliðshjálm

Eftir hrun fjármálakerfisins standa uppi þrjár meginstoðir íslensks atvinnulífs, sjávarútvegur, áliðnaður og ferðaiðnaður. Án þeirra væri staða íslenska þjóðarbúsins ekki björguleg. Þær skapa einfaldlega mestar gjaldeyristekjur sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda. Vart greinir menn heldur á um nauðsyn þess að rjúfa hnignun atvinnulífs með tilheyrandi atvinnu-, úrræða- og vonleysi. En hvar eru tækifærin? Langstærsta tækifærið til nýsköpunar í atvinnulífi og aukinna útflutningstekna í náinni framtíð er uppbygging álvers í Helguvík. Það verkefni mun skapa þúsundir vel launaðra starfa á næstu árum, rjúfa vítahring atvinnuleysis á starfssvæði álversins og hafa margs konar jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Hvað með öll hin tækifærin til að nýta innlenda orku? Staðreyndin er sú að alvöru erlendir fjárfestar bíða ekki í röðum eftir því að fjárfesta hér á landi enda bjóðast víða mun betri skilyrði, þar sem stjórnvöld skilja nauðsyn þess að greiða götu erlendra fjárfestinga í stað þess að leggja stein í götu þeirra. Talað er um hin og þessi sóknarfæri í atvinnusköpun en þegar á hólminn er komið lyppast þau mörg hver niður. Oft er þetta vegna þess að viðkomandi fyrirtæki hafa ekki bolmagn til að ábyrgjast kaup á raforku mörg ár fram í tímann eins og álfyrirtækin verða að gera. Menn mega ekki heldur láta þann sverm af spekúlöntum sem hér flögrar um árlega villa sér sýn. Iðulega er um að ræða tækifærissinna sem hafa uppi stór orð um álitleg verkefni en síðan kemur í ljós að fjárhagslegt bakland spekúlantsins var aldrei fyrir hendi og sjálfur gufar hann gjarnan upp.

 

Hvolpaburður staðreynda

Ólafur talar um að stóriðja skapi tiltölulega fá störf miðað við tilkostnað. Hið rétta er að stóriðjan skapar hér þúsundir vel launaðra starfa sem skiptir miklu máli þegar meta skal þjóðhagslegt gildi starfsgreinar. Og ekki er um að ræða tilkostnað íslenska ríkisins, kostnaðurinn af uppbyggingu stóriðju fellur einfaldlega á fyrirtækin sjálf. Ólafur heldur því fram að stóriðjan fái raforku á spottprís, en samkvæmt nýlegu mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands greiðir stóriðjan hér á landi meðalhátt verð á heimsvísu fyrir raforku. Jafnframt kemur fram í nýlegri skýrslu að dæmigerð raforkunotkun íslenskra heimila hafi lækkað um 30% í verði frá árinu 1997, á föstu verðlagi, að stórum hluta vegna aukinnar raforkuframleiðslu fyrir stóriðju. Ólafur hefur einnig áhyggjur af ónógri arðsemi stóriðju. Er það ekki stóriðjufyrirtækjanna sjálfra að hafa áhyggjur af arðsemi eigin rekstrar? Varla væru þau að reisa hér álver ef þau sæju fram á viðvarandi svartnætti í rekstri. Hugleiðingar Ólafs um að stóriðjan hafi dregið mátt úr annarri uppbyggingu á landsbyggðinni eru hreint fráleitar. Þvert á móti hefur stóriðjan skotið styrkum stoðum undir alls kyns þjónustustarfsemi sem blómstrar sem aldrei fyrr og verkfræðistofur og smærri iðnfyrirtæki flytja út þekkingu í tengslum við íslenskan áliðnað fyrir stórar fjárhæðir á ári hverju.

 

Umhverfi séra Jóns

Ólafur segir að verstur sé þó umhverfisþáttur stóriðjunnar. Honum til hughreystingar má benda á að við Íslendingar eigum því láni að fagna að geta framleitt orku á vistvænni hátt en flestar aðrar þjóðir. Fyrir vikið er það umhverfisvænt skref í hnattrænum skilningi að nýta hér rafmagn frá jarðhita- og vatnsorkuverum, m.a. til álframleiðslu. Við eigum ekki að þurfa að velja á milli aukinnar hagsældar og ábyrgðar í umhverfismálum, hér á landi haldast þessi viðmið einfaldlega í hendur. Hið sama gildir ekki um eitt einasta þróað ríki sem stóð að loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Ólafur bendir á gríðarlega möguleika í ferðaþjónustu, sem er gott innlegg þó að launin mættu vera hærri, en lætur hjá líða að minnast á umhverfisþáttinn. Allir atvinnuvegir hafa í senn áhrif á afkomu fólks og á umhverfið. Kröfur íslenskra stjórnvalda um mengunarvarnir varðandi stóriðju eru afar strangar og því ber að fagna. Almenningur er líka mjög meðvitaður um mikilvægi mengunarvarna í stóriðju en þar með er sagan öll. Varðar Ólaf t.d. eitthvað um það að ferðaiðnaður er sú íslensk atvinnugrein sem veldur mestri losun gróðurhúsalofttegunda? Íslenskir græningjar boða að áliðnaður sé upphaf og endir alls ills. Hvers vegna þessi rörsýn á álver? Hvers vegna liggja álver svona vel við höggi? Jú, sennilega vegna þess að álver eru auðskilgreindur og áþreifanlegur andstæðingur sem þægilegt er að einbeita sér að.

Við Íslendingar þurfum nú að snúa bökum saman og koma hjólum efnahagslífsins á skrið á ný. Þar er nærtækast að koma stórum verkefnum eins og álveri í Helguvík af stað ásamt tilheyrandi virkjunarframkvæmdum.

Höfundur er viðskiptafræðingur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 184162

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband