Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Forvarnardagurinn!

Hjálagt er grein sem birtist eftir mig fyrir 2 árum.  Enn í fullu gildi. 

Forvarnardagurinn og foreldrajafnrétti
Báðir foreldrar eiga ávallt að vera virkir uppalendur barna sinna.

Forvarnardagurinn er hvatning fyrir foreldra að styðja enn betur við börnin sín.   Rannsóknir sýna að börn sem búa ekki hjá báðum foreldrum eru um 10 sinnum hættara við að lenda afvega í lífinu, samanborið við börn hjóna og sambúðarfólks.   Það er varlega áætlað að 1 af hverjum 5 skilnaðarbörnum lendi villu vegar í lífinu.  Það er því ekki óeðlilegt að á Forvarnardegi Íslands sé  staða þessara barna sérstaklega skoðuð.

 

Í bókinni "Skilsmissa börn berättar" eða "Skilnaðarbörn segja frá" frá árinu 2002 fjalla sænsku Öberg-hjónin, Bente og Gunnar um afdrif barna sem höfðu jafna búsetu hjá foreldrum eftir skilnað foreldra.   Rannsóknin stóð í yfir  20 ár. Niðurstaðan varð sláandi. Einungis eitt af þeim 50 börnum, sem fylgst var með, hafði lent illa afvega í lífinu. Fimm aðrir höfðu tímabundið lent í minniháttar vandamálum, en voru öll fjölskyldufólk í góðri stöðu við lok rannsóknarinnar. Ályktun Öberg-hjónanna var skýr eftir þessa rannsókn: Látum búsetu barna vera sem jafnasta hjá báðum foreldrum eftir skilnað.  Öberg-hjónin bentu á að í slíku fyrirkomulagi hafi allir áfram hlutverk, hvorugt foreldrið er tapari í skilnaðinum og börnin njóta áfram ríkra samvista við báða foreldra. En báðir foreldrar hafa einnig ríkan tíma til byggja upp sitt eigið líf.  Þannig eru foreldrarnir betur á sig komin að takast á við foreldrahlutverkið þá viku  sem barnið er hjá þeim.  Mikilvægt er að foreldrar búi í sama hverfi og að samkomulag sé gott. Raunar sýna rannsóknir að í slíku fyrirkomulagi hjaðna fyrr skilnaðardeilur foreldra. Langflestum  í úrtaki Öberg hjónanna fannst þetta gott fyrirkomulag og myndu einnig vilja slíkt fyrirkomulag fyrir sín börn ef þau lentu í skilnaði við sinn maka.   Margar aðrar rannsóknir styðja niðurstöðu Öberg hjónanna.   Foreldrajafnrétti eru því bestu hagsmunir barnanna og besta forvörnin, einnig  eftir skilnað foreldranna.


Á Íslandi eru um 4.000 börn í hverjum árgangi. Af þeim eru um 1.100 börn sem greitt er meðlag með, þar sem kynforeldrarnir búa ekki saman. Ef eitt af hverjum fimm skilnaðarbörnum á Íslandi lendir afvega þá eru það 220 af 1.100 börnum í árgangi . Ef það er einungis eitt af hverjum 50 eins og reyndin var samkvæmt rannsóknum Öberg-hjónanna, við jafna búsetu, þá fækkar þessum ógæfueinstaklingum úr 220 í 22 börn í hverjum árgangi. Þetta þýddi að 200 börnum á Íslandi í hverjum árgangi myndi vegna betur!

 

Forvarnardagurinn skilgreinir réttilega að bestu hagsmunir barna er rúmur tími foreldra með þeim, ásamt því að börn stundi íþrótta og æskulýðsstörf.    Það er aldrei mikilvægara en þegar til skilnaðar kemur að báðir foreldrar séu áfram uppalendur barna sinna.  Það þarf að koma þeirri meginreglu á  að barn geti átt lögheimili á tveimur jafnrétt háum heimilum.   Það er ögrun samfélagsins að tryggja öllum börnum jafnan rétt til foreldra sinna, enda sé það ekki andsætt hagsmunum þeirra.   Það er besta forvörnin fyrir þennan hóp barna sem eru í mestri hættu að lenda afvega í samfélaginu.

 

Það er full ástæða til að óska aðstandendum Forvarnardagsins til hamingju með mjög þarft framtak.

  

Gísli Gíslason

Höfundur er markaðsstjóri og formaður Félags ábyrgra feðra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. október 2006

http://www.visir.is/article/20061015/SKODANIR03/110150002/1079/SKODANIR


Útrásin var og er mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf.

Nú þegar bankakerfið  hrynur þá er farið að tala um útrás íslenskra fyrirtækja næstum með hæðnistón.  Er það þannig að íslenska útrásin hefur mistekist? Ég tel svo ekki vera, þvert á móti.

Þau fyrirtæki sem eru dæmigerð íslensk útrásarfyrirtæki eru þau sem flytja út sína sérþekkingu.  Dæmi um slík fyrirtæki eru m.a.

  • ÖSSUR,
  • MAREL,
  • PROMENS
  • ACTAVIS

Öll þessi fyrirtæki byggja á og flytja út sérþekkingu og á þeim grunni byggist markaðforskot þeirra.  Ég get ekki betur séð en að útrás Baugs byggðist á því að þeir höfðu aðgang að miklu fé á meðan þeir voru ráðandi í Glitni.  Þannig keyptu þau hin ýmsu fyrirtæki erlendis og hófu að reka.   Á því byggðist sérstaða þeirra.   Ég held að Baugur hafi ekki verið að flytja út neina sér þekkingu, aðra en áræðni Jóns Ásgeirs  og félaga.  Þegar svo aðgangur að fjármagni þrengist, þá hriktir í.

VikingsÚtrás íslenskra fyrirtækja er og verður um ókomna tíð mikilvæg forsenda fyrir  því að við náum að halda samkeppnishæfum lífsskilyrðum hér á landi.  Útrásin hefur alls ekki mistekist þó bankar og einhver fyrirtæki sigli núna krappan sjó.   "ut vil ek" sögðu víkingar og sagan sýnir að okkur farnast best þegar  við stundum mikil utanríkisviðskipti og förum víða.  Það gildir jafnt um víkingaöld sem og 21. öldina.  Útrásin er og verður áfram mikilvæg fyrir íslenskt þjóðarbú.

 


Rúbbluvæðing landans.

Fékk í tölvupósti skondnar myndir sem ég set hér á bloggið.  Skjaldarmerki með hamar og sigð og Lenin og peningaseðill með Pútín.

skjald lenin

sedill putin

 


Sama hlutfall og í forsjármálum!

Þetta er ágæt ábending hjá feministum.  Það eru 9 karlar og ein kona í skilanefndinni, sem hlýtur að vera óheppilegt. 

Þetta er nákvæmlega sama hlutfall og lögheimili barna sem búa við það að foreldrar þeirra búa ekki saman.  Níu af hverjum 10 skilnaðarbörnum eiga lögheimili hjá móður.   Ég man ekki sérstaklega eftir því að feministar hafi talið það neitt sérstakt vandamál, þó trúlega sé kynbundinn munur hvergi meiri en í þeim málaflokk.


mbl.is Ein kona í skilanefndum yfir bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppa í þjóðarsálinni samfara fjármálakreppunni ?

Það hafa stanslausar fréttir af fjármálakreppunni riðið yfir landið á síðustu dögum.  Trúlega er ekkert við því að segja, þar sem ástandið er grafalvarlegt þegar m.a. gengi ísl krónunnar hrynur og það þarf neyðaraðstoð til að bjarga rekstri Glitnis. 

Samt finnst mér eins og fréttir séu á köfum yfirdrifnar, eins og þegar sagt er að það sé hugsanlega yfirvofandi vöruskortur í landinu.  Fjölmiðlar eru þannig með svartsýnar spár í fréttum á meðan helstu áhrifaöfl sitja langa fundi með ríkisstjórninni til að koma í veg fyrir að hið versta gerist.

Óháð því hversu alvarlegt ástandið er og hvað getir hugsanlega gerst,  þá er það  geysilega mikilvægt  að forystumenn þjóðarinnar telji kjark í þjóðina og þjappi henni saman.  Það hefur nefnilega hvarflað að mér að kreppan í þjóðarsálinni sé að verða meiri en sjálf fjármálakreppan.


Lifi Sparisjóður Norðfjarðar !

Þegar maður sér að bankar og fjármálastofnanir erlendis fara á hausinn eða bjargað með neyðarráðstöfunum hins opinbera eins og gert var hér á landi með Glitni, þá hugsar maður að það er nú voðalega notalegt að eiga litla og sæta lánastofnun sem heitir SPARISJÓÐUR NORÐFJARÐAR. Þar á bæ hefur trúlega alltaf verið farið varlega og það virkar vel á mann nú þegar "náttúruhamfarir" í fjármálaheimi ríða yfir heimsbyggðina.    Þannig er gott rúlla sínum peningum í gegnum lítinn sparisjóð austur á landi, í firðinum fagra, þar sem lognið hlær svo dátt.  Lifi Sparnor.


Foreldrajafnréttisverðlaun

Ég hef oft skrifað að launamunur kynjanna er endurspeglun á mismun í foreldraábyrgð kynjanna. 

Eitt sinn voru konur heimavinnandi og karlar fyrirvinnur heimilanna. Konur sóttu út á vinnumarkaðinn og börnin fóru í leikskóla. Ennþá bera konur að meðaltali meiri ábyrgð á heimili og börnum og karlar bera að meðaltali meira úr býtum á vinnumarkaði. Meiri ábyrgð kvenna í foreldrahlutverkinu rýrir sveigjanleika þeirra á vinnumarkaði og viðheldur þannig bæði útskýrðum og óútskýrðum launamun. Kynbundinn munur í heimilis- og foreldraábyrgð endurspeglar því stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Munur í foreldraábyrgð kynjanna er almennur, bæði þegar foreldrar búa saman en mestur þegar foreldrar búa ekki saman. Það eru um 14.000 mæður sem búa ekki með barnsfeðrum sínum, en þær hafa lögheimili um 20.000 barna hjá sér, þ.e. barna yngri en 18 ára. Þær bera þ.a.l. mesta ábyrgð á uppeldi þeirra og hafa stöðu, skattalega og félagslega sem foreldri og einstætt foreldri ef þær eru ekki í sambúð með nýjum maka. Það eru um 12.000 feður sem greiða meðlög með þessum 20.000 börnum og flokkast þeir skattalega sem barnlausir einstaklingar ef börn þeirra hafa ekki lögheimili hjá þeim. Trúlega er kynbundinn munur hvergi meiri en í þessum málaflokki, sem telur 26.000 foreldra eða um 16% af vinnnandi fólki á Íslandi. Mismunur í foreldraábyrgð kynjanna í þessum hóp skapar þeim mjög ólíka stöðu á vinnumarkaði. Eðli málsins samkvæmt er þessi hópur á fyrri hluta síns starfsferils þar sem kjör þeirra til langframa eru oft mótuð.

Í Bretlandi er fyrirtækjum veitt Fatherhood quality mark.  Það væri full þörf á að veita einnig fyrirtækjum foreldrajanfréttisverðlaun hér á landi.

 FORELDRAJAFNRÉTTI ER LEIÐ TIL LAUNAJAFNRÉTTIS. 


mbl.is Fær þitt fyrirtæki jafnlaunavottun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álver eða álbræðsla ?

Þegar Alusuisse byggði sína verksmiðju í Straumsvík, þá var ávallt talað um álver.  Orðið álver er frekar jákvætt enda var mikill þörf á þessari viðbót í atvinnulíf landsmanna um 1970, eftir að norsk íslenska síldin, sem var helsti nytjastofn, hafði hrunið.    Ávallt var svo talað um álverið í Straumsvík, enda var lengst af mikill stuðningur við þá starfsemi.

Þegar verið var að byggja álver Alcoa á Austurlandi, þá varð hugtakið álbræðsla  nokkuð almennt í málnotkun.  Sama var þegar átti að stækka álverið í Straumsvík en þá var talað um álbræðslu Alcan af andstæðingum stækkunnar.  

Orðið bræðsla hefur í áratugi verið notað yfir fiskimjölsverksmiðjur.   Á síldarárunum svokölluðu um og eftir miðja síðustu öld þá fór sú síld sem ekki var nógu góð til söltunar í bræðslu.  Bræðsla var einnig var nefnd gúanó.   Ávallt þótti betra að koma síld í salt enda fengu skip lægra verð ef aflinn fór í bræðslu eða gúanó.  Orðið gúanó  er skítur frá fuglum.    Þannig hefur hugtakið  bræðsla gildishlaðna frekar neikvæða merkingu.   

Þegar blaðamenn nota hugtakið álbræðsla er auðvelt að ímynda sér að þeir séu frekar mótfallnir þeirri starfsemi og öfugt ef þeir nota hugtakið álver.   Persónulega finnst mér miklu eðlilegra að tala um álver en það endurspeglar vissulega mína afstöðu til þeirrar starfsemi.


Hanna Birna tekur við D-skipinu í stórsjó og stormi!

Þetta kjörtímabil er með ólíkindum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík og endurspegla fylgiskannanir óvenju veika stöðu flokksins í höfuðborginni.   Gamla góða Villa gekk ekki nógu vel þegar hann tók við sem borgarstjóri.  Hann hrökklaðist frá völdum, búinn að misstíga sig og átti greinilega ekki stuðning samherja sinna í borgarstjórnarflokknum.  

Kannski byrjaði vandamálið strax eftir kosningar þegar hann hætti við að mynda meirihluta með Ólafi F. Magnússyni en myndaði þess í stað meirhluta með með Birni Inga og Framsóknarflokknum.  Sú stefnubreyting að fara með Birni en ekki Ólafi var að öllum líkindum að áeggjan æðstu manna flokksins.  Kannski byrjuðu vandamál Villa þegar hann fór að hlýða Valhöll frekar en að fylgja sínum huga.   Kannski væru bæði  Villi og Ólafur búnir að sigla lygnan sjó þetta kjörtímabil ef þeir hefðu myndað meirihluta saman strax í upphafi.   Í  staðinn eru trúlega báðir að syngja sinn svanasöng í íslenskum stjórnmálum.

Hvað sem því líður, þá er Hanna Birna tekinn við sem leiðtogi Sjálfstæðismanna  í Reykjavík.   Þegar hún tekur við þá er flokkurinn í Reykjavík í einhverri erfiðustu stöðu sem hann hefur verið í.  Takist henni að rífa flokkinn upp þá er ljóst að hún verður ein af þeim sem koma sterklega til greina sem framtíðar leiðtogi flokksins.


mbl.is 26,2% segjast styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 185996

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband