Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Kvöldstund Norðfirðingafélagsins í Fella- og Hólakirkju.

Þann 20. desember 1974 féllu tvö snjóflóð í Neskaupstað, með þeim afleiðingum að atvinnulíf staðarins lamaðist og 12 einstaklingar létust.   Slíkir atburðir fara aldrei úr minni þeirra er voru í Neskaupstað þennan dag.

Þegar 30 ár voru liðin frá þessum atburðum þá stóð Norðfirðingafélagið í Reykjavík fyrir messu í Fella og Hólakirkju, þann 20. desember 2004.  Það var þétt setin kirkja og Sr. Svavar Stefánsson sem var lengi prestur í Neskaupstað fór með ákaflega fallega tölu.  Síðan hefur Norðfirðingafélagið staðið fyrir messu þann 20. desember og ávallt í Fella og Hólakirkju þar sem Sr. Svavar hefur farið með tölu.

Í dag eru 33 ár  síðan þessir hræðilegu atburðir gerðust og var ein slík bænastund haldin í dag.  Það mættu liðlega 40 manns.  Þetta var eins og alltaf falleg stund og alltaf stendur Sr. Svavar fyrir sínu og ríflega það.    Alltaf er gaman að hitta Norðfirðinga.  Fyrir suma af okkur burtfluttu er þessi stund að verða fastur liður í jólaundirbúningnum.

Foreldrar mínir komu með okkur í bænastundina í dag en faðir minn hefur verið í krabbameins meðferð.  Hann er allur að hressast og eftir þessa fallegu stund fórum við á veitingastað og fengum okkur snarl.  Það er sannarlega jákvæð breyting á hans líðan og vonandi heldur meðferðin áfram að gera honum gott.  Bætt líkamleg heilsa styrkir hann og gefur von um bætt lífsgæði.  Foreldrar  mínir fara svo austur á morgun. 

Hér er svo mynd af firðinum fagra, Norðfirði,  með teikningu af þeim Snjóflóðavörnum sem voru settar fyrir ofan Víðimýri.  

Norðfjörður snjóflóðavarnir

 

 


Gömul bekkjarmynd.

Vinur minn og gamall bekkjarbróðir Gunnar Þorsteinsson er í heimsókn.  Hann gaf mér gamlar myndir, m.a. þessa sem var af annarri bekkjardreild 1964 árgangsins.  Þetta er trúlega tekið í 4. bekk sem í núverandi kerfi væri 5 bekkur.  Kennari var Guðríður Kristjánsdóttir.  Ég er lengst til hægri í næst fremstu röð.  Myndir sem Gunnar lét mig fá má sjá hér


Lyfjameðferð hefst

Foreldrar mínir komu suður í gær og í dag fór ég með þau á LSH.  Hittum ágætan lyfjalækni Friðbjörn Sigurðsson.  Hann var heiðarlegur og sagði eins og var að sjúkdómurinn hjá pabba væri illvígur og langt gegninn.  Það breytir ekki því að það er oft ótrúlegt hvað meðferðir hjálpa og bæta lífsgæði sjúklinga, þó þeir þurfi að lifa með sjúkdómnum.  Það var ákveðið að pabbi fer í 8 vikna lyfjameðferð. Hann getur verið fyrir austan mest allan tímann en kemur aðra hverja viku suður til að fá lyfjagjöf í æð. 

Eftir skoðun fór hann að fá lyfjagjöf í æð, en ég fór að útrétta og fór m.a. niður á Tryggingarstofnun ríkisins.  Það er sérstakt að koma þar inn og taka númer og láta starfsmannin fá pappíra pabba.  Þar er manni tilkynnt að það taki tvær vikur að komast inní kerfið, svo TR greiði eða taki þátt í  kostnaði vegna lyfja og stomapoka.  Maður hugsaði tvær vikur að skrá einstakling inní eitthvað kerfi.  Það er greinilegt að þetta er steinrunnin ríkisstofnun, þar sem hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir.  Enda skilst mér að stutt sé síðan starfsmaður varð uppvís að því að stela tugum milljóna og fráfarandi forstjóri sagði að það vantaði allar heildarstefnumótun fyrir stonfunina.  Það er mikil gæfa að hafa ekkert þurft að sækja til þessarara stofnunar.

Ég sótti svo pabba og mömmu á sjúkrahúsið, en pabbi fór beint í rúmið,  orkulítill eftir lyfjagjöfina. Þau fara svo austur á morgun, sem er gott.  Það er nú þannig að heima er best og í slíkum tilvikum er það langt best að vera heima ef mögulegt er.


Sá gamli blístrar aftur !

Þegar við Bergrós komum til pabba í dag þá var hann í rúminu. Hann lék við hvern sinn fingur og fór svo fram úr.   Ég spurði hann hvort þetta væri ekkert erfitt eftir stómaaðgerðina.  Svarið var stutt  og laggot og hann hallaði höfði eins og hann gerir stundum en hann sagði  "isssss þetta ekkert mál, það var miklu verra að fara fram úr eftir kviðslitið um árið".     Svo þurfti hann að  fara á salernið að pissa.  Þegar maður horði á eftir honum labba létt um ganginn, þá blístraði hann lag.  Maður hugsaði, nú hann bæði hallar höfðinu og segir "iss" og er léttur á fæti og blístrar.  Þetta er sami glaði Gísli Beggi, pabbi, sem maður á að þekkja. 

Við hittum svo Ívar og  Jónu, systir pabba, sem og Imbu, systir mömmu og Jón Rafn manninn hennar.  Alltaf gaman  að hitta skyldfólkið.   Áðan sótti ég svo Guðmund bróðir út á völl og við fórum aðeins á LSH.  Sá gamli var bara  út á gangi á labbi og leit vel út, sagði aftur iss og blístraði þegar við kvöddumst.  Sannarlega góð bata merki.  Og þegar svona er þá veit maður að hvernig sem fer, þá verður það alltaf sigur andans yfir efninu.


Velheppnuð stómaaðgerð

Í gærmorgun fór pabbi í aðgerð.  Þá var settur stóma poki vinstra meginn.  Það var gert með svokallaðri hnappagatsaðferð.  Þetta tókst vel og breytingin á föður mínum var mikil. Hann var búinn að vera sárkvalinn í nokkra daga og látið stórlega ásjá, enda tóku veikindin bæði á líkama og sál.  Eftir stómaaðgerðina, þá var allt annað að sjá hann, enda áreynslan og vanlíðan við að koma frá sér hægðum ekki lengur til staðar.  Líðan hans var því allt önnur og lék hann við hvern sinn fingur.  Sannarlega ánægjuleg breyting.

Pabbi er heppinn að herbergisfélagi hans er sjómaður af suðurnesjunum. Þannig að umræðu efnið hjá þeim þrýtur ekki,  hvort sem spjallað er um glímuna við Ægi konung, sóknina í þann gula nú eða silfur hafsins,  kvótakerfið eða bara um landsfeðurna.    Sameiginlegur reynsluheimur gefur þeim fullt af tækifærum til umræðu. 

Nú þarf hann að ná sér af stóma aðgerðinni en í framhaldinu verður svo farið í geisla og lyfjameðferð.


Veikindi í fjölskyldunni.

Hið slæma bankar uppá í lífi okkar allra.  Pabbi hafði átti við ósköp venjulega hægðartregðu að stríða.  Ekki óeðlilegt hjá 68 ára gömlum manni.   Þetta varð þrátlátt og við rannsókn á Fjórðungssjúkrahúsinu  í Neskaupstað kom í ljós að það var stórt æxli í endaþarminum. 

Í þessari viku komu svo foreldrar mínir til Reykjavíkur svo að faðir minn gæti farið í frekari rannsóknir á Landspítalanum við Hringbraut.   Því miður kom ekkert gott út úr þeim.  Æxlið var ekki staðbundið í endaþarmi, heldur komið í eitla þar við.  Það sem öllu alvarlegra var að meinið var komið í lifrina og þannig er sjúkdómurinn krónískur.  Þetta voru ákaflega slæm tíðindi.  Ég var með foreldrum mínum þegar þeim voru borin þessu slæmu tíðindi.  Læknirinn Kjartan Helgi Sigurðsson gaf af sér fádæma góðan þokka við svo erfiðar aðstæðar. Það er ekki sama hvernig fólki eru tilkynnt slæm tíðindi en hann gerði það einstaklega vel.   Enn og aftur dáðist ég að foreldrum mínum.  Þau hafa tekið þessu af æðruleysi og miklum styrk en síðast en ekki síst þá veita þau hvort öðru allan þá styrk og hlýju sem hægt er. 

Guðmundur bróðir kom strax suður þegar ljóst var hversu alvarlegt ástandið var og er alltaf ánægjulegt að hafa hann hér á heimilinu.    Á morgun fer svo pabbi í í stóma aðgerð  en það er forsenda fyrir því að hann geti svo farið í krabbameinsmeðferð til að hægja á þróun sjúkdómsins.  Í hönd fer því sérstakur tími að berjast vð þennan illvíga sjúkdóm. 

 


Fjölskyldan stækkar !

Fyrir  síðustu jól bað amma mig að prenta allt út sem stæði um sig, afa og þeirra börn.  Ég gerði það og færði henni og spurði jafnframt hvort henni fyndist eitthvað vanta.  Hún svaraði, að þegar hún hafi kynnst afa í byrjun seinna stríðs, þá hafi  verið fætt stúlkubarn, sem afa var kennt. Hann hafi ekki verið viss hvort hann ætti stúlkuna, en barnsmóðir hans var einnig í “ástandinu”.   Amma sá aldrei barnið en sagðist vita að stúlkan hefði heitið Guðrún og hefði flust til Bandaríkjanna með móður sinni sem giftist hinum ameríska hermanni.   Hinn ameríski hermaður ættleiddi svo dóttir afa.  Þessi leynifrænka kom ekki fram í Íslendingabok en það var það sem amma var að velta fyrir sér.

 

Mér fannst nú  dálítið merkilegt að hugsanlega ætti mamma hálfsystir í Bandaríkjunum, sem enginn vissi um. Hvað vissi sú kona um okkur, átti hún börn og ýmsar svona spurningar fóru í gegnum hugann.  Hún var skýrð Guðrún, eins og  mamma í höfuðið á  langömmu, Guðrúnu Jensen. 

 

Ég sendi Íslendingabok tölvupóst og sagði þeim þær upplýsingar sem ég vissi  og spurði hvort hægt væri að rekja þetta mál.  Svarið kom og sagt að þau gætu ekki rakið þetta, en ef ég vissi nokkurn veginn hvaða ár þetta var, hvað faðirinn hét og barnið hét, þá gæti Þjóðskjalasafnið örugglega fundið þetta í skírnarbókum kirkjunnar í Reykajvík.  Borgin var bara lítill bær í byrjun seinni heimstyrjaldar og það væri  ekki mikið mál að fletta þessu upp.  Ég fór  á Þjóðskjalasafnið með sömu upplýsingar og ég hafði sent Íslendingabók.   Þetta var milli jóla og nýárs 2006.  Í byrjun janúar 2007, fékk ég svo póst frá Þjóðskjalasafninu.   Þar fékk ég þær upplýsingar að konan, þessi leyni frænka væri fundin. Hún hét Þorbjörg Guðrún fædd 3.ja jan 1939 ! Bréfið frá Þjóðskjalasafninu var dagsett 3.janúar 2007 á afmælisdaginn hennar. Í skírnarvottorðinu stóð,

  • Fullt nafn barns Þorbjörg Guðrún,
  • Skírt þann 23.júlí 1939. 
  • Foreldrar:  Margrét Jónsdóttir ógift vinnustúlka, Ránargötu 5a, 17 ára og Jóhann P. Guðmundsson húsgagnasmiður.
  • Skírnarvottar: Halldóra Jónsdóttir, Þórhallur Jónasson, og Jón Sigurðsson.
 

Svo kom líka afrit af heimilisfólkiinu að Ránargötu 5a, Reykjavík en þar voru þá til heimilis haustið 1939.

  • Jón Sigurðsson, vélamaður fæddur 12.1.1887
  • Halldóra Vilborg Jónsdóttir, kona, fædd 15.10 1885
  • Fríða Jóhanna Jónsdóttir, dóttir, fædd 03.06.1914
  • Ebba Unnur Jónsdóttir,  dóttir, fædd 09.10.1918
  • Margrét Jónsdóttir, dóttir fædd 12.09.1921
  • Málfríður Guðbjörg Jónsdóttir, fædd 16.8.1923
  • Þorbjörg Guðrún Pétursdóttir, dóttir fædd 03.01.1939
 

Jón Sigurðsson og Halldóra Vilborg voru semsagt amma og afi þessarar frænku minnar, foreldrar Margrétar barnsmóður afa.  Ég fór því með þessar upplýsingar til ORG ættfræðiþjónustu hjá Oddi Helgasyni. Hann prentaði svo út fyrir mig alla afkomendur Jóns  og Halldóru Vilborgar.  Þá var ég kominn með ættartöluna hennar.  Ég fór svo að reyna að hafa uppá afkomendum.  Fyrsta sem ég hringdi í var kona sem heitir Bára og er ljósmyndari að atvinnu.  Ég sagði henni söguna og hún kannaðist vel við að eiga frænku í Bandaríkjunum, sem hefði flust þangað sem barn.  Hún kallaði hana Bobbu frænku.   Hún vissi aftur á móti ekkert meir,  en sagði að ég yrði að hafa samband  við Loft eða Ebbu. Þau væru einu sem gætu verið í samskiptum við hana.    Hjá Ebbu fékk ég bara símasvarann og Loftur kannaðist alveg við þetta en var mjög lokuð bók.  Ætlaði að hringja seinna en gerði  það ekki.  Hér var ég farinn að velta fyrir mér hvort ég ætti að stoppa hér.  Svo ákvað ég  að hringja einu sinni í Ebbu og þá svaraði.  Ebba. Hún og maður hennar Jónas bjuggu á Bifröst og voru búin að vera erlendis.  Hún kannaðist nú aldeilis við Bobbu. Þorbjörg Guðrún, sem fékk nafni Barbara þegar hún fór til Bandaríkjanna og heitir í dag Barbara Jeffreys og býr  í Michigan.  Hún sagði að eftir að Þorbjörg Guðrún fór út sem barn, þá hafi hún bara tvisvar komið upp og talaði litla sem enga íslensku lengur.  Móðir hennar og hinn ameríski faðir eru bæði látin.   Bobba eignaðist ekki fleiri systkini og hún á tvo syni, Mike og Steven og hvorugur  þeirra á börn.  Ebba  var ekk viss hvað Bobba vissi um föðurfólk sitt, en sagði að hún hefði ekki komið til Íslands síðan 1975. Hún gaf mér heimilisfang hennar og tölvupóst. 

 

Ég sendi svo tölvupóst á rakti alla söguna sem ég hef hér sagt. Svo fór ég í búð.  Við kassann var hringt í gsm símann og það var frá Bandaríkjunum.  Hello, This is Bobba calling, do you thing your grandfather was my father” ? Svo áttum við stutt spjall og marga tölvupósta.  Þegar búið var að skoða myndir og þess háttar, þá var alveg ljóst að þetta stemmdi allt saman og hún hafði ættleiðingarpappíra sína, sem afi hafði undirritað.  Þannig var komin ný frænka í leitirnar !!! Mjög óvænt.

 

Annað sem gerðist við einhverja uppfærslu á Íslendingabók var að aukafrændi kom í ljós í Íslendingabók, bróðursonur mömmu, og fáir vissu um,  en það er önnur saga.

 

Það er alltaf skemmtilegra þegar fjöskyldur stækka og margfalt gleðilegra en þegar fækkar í fjölskyldu.  Gaman að eiga "nýja"  móður systur í Bandaríkjunum og nýtt systkynabarn í Reykjavík.

 

Gísli Veigar 9 ára.

Gísli Veigar er 9 ára í dag.   Til hamingju elsku drengurinn minn.

Knús frá Pabba og Bergrós 

sumar kanada og jol  2006 002


Smá mont !

Eyleif dóttir mín hefur æft fótbolta með Leikni undir styrkri stjórn Sævars, sem heldur vel utan um skemmtilegan hóp af stúlkum.  Nú á uppskeruhátíð  Leiknis eftir sumarið fékk stúlkan mín viðurkenningu fyrir mestu framfarir síðasta sumar.   Til hamingju snúllan mín.   Á vef 5 flokks Leiknis stendur.

"Mestar Framfarir:
Eyleif Ósk Gísladóttir
- Var svolítið lokuð á fyrstu æfingunum og vildi stundum ekki prófa nýja hluti. Vildi stundum hætta ef eitthvað gekk ekki alveg upp. En svo fór hún að þora að prufa og reyna nýja hluti og þá fóru hlutirnir að gerast. Flott mætingasókn, eftirtekt á æfingum og vilji til að læra stórbætti hana. Glæsilegt alveg."

Læt svo fylgja með tvær myndir, önnur af Gísla Veigari  og  Eyleif Ósk og hin af Leiknsstelpunum og er Eyleif til hægri í neðri röð

 IMG 2230Leiknisstelpur

 


Útgáfutónleikar !!!

Dúkkulísur og Guðmundur R.

Hvenær: Fimmtudaginn 11. október kl. 20:30

Hvar: Skemmtistaðurinn Organ í Hafnarstræti Reykjavík

Miðaverð: 1000 kr.

Nýir geisladiskar Dúkkulísa og Guðmundar til sölu á staðnum gegn vægu gjaldi.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 186001

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband