Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Austfirðingaball á Players 21. september. 2007

Austfirðingaböllin hafa verið haldin með glæsibrag undanfarin ár og eru löngu orðin fastur liður í skemmtanalífi austfirðinga, brottfluttra sem búandi í sinni heimabyggð. Undanfarin ár hefur þurft að bæta við flugferðum svo um munar og er áætlað að ekki mæti færri að austan heldur þeir sem búa hér að höfuðborgarsvæðinu. Hafa þessi böll verið haldin á tímabilinu mars/apríl ár hvert og hafa ávallt heyrst raddir eftir hvert ball hvort ekki sé hægt að halda þetta  líka á haustin. Það hefur löngum staðið til að láta verða af því og í ár verður blásið í herlúðra og haldið eitt stk. Austfirðingaball föstudaginn 21. september á Players í Kópavogi. Austfirðingaböll eru náttúrulega bara snilld, hvar og hvenær sem þau eru haldin og eitthvað sem engin má missa af. Dagskráin er skotheld að venju. Vax – Dúkkulísur – AusturlandiðGuðmundur R. Gíslason o.fl. Snillingarnir í Vax ætla heiðra okkur með nærveru sinni í fyrsta sinn á Austfirðingaballi og bíða margir spenntir eftir að heyra og sjá þá félaga en þeir hafa verið að gera frábæra hluti bæði hérlendis og erlendis. Ein þekktasta og langlífasta kvennahljómsveit landsins Dúkkulísurnar fagna í ár 25 ára afmæli þessarar merku sveitar. Í tilefni þess er komin út plata með nýju efni í bland við eldri smelli, alls 18 laga afmælisútgáfa. Til hamingju Dúkkulísur og hlökkum til að sjá ykkur. Gömlu brýnin úr Austurland að Glettingi og Tríó Valgeirs, þeir Valgeir Skúlason, Björn Hallgrímsson, Björgvin Harri Bjarnason og Tómas Tómasson hafa sameinað krafta sína í eina almögnuðustu rokksveit sem fram hefur komið í langan tíma og hefur fyrirbærið einfaldlega verið nefnt Austurlandið Súellen-söngvarinn Guðmundur R. Gíslason heiðrar okkur með nærveru sinni að venju nema hvað nú er kappinn með ylvolga plötu í farteskinu. Guðmundur til hamingju með nýju sóló-plötuna.  Það er greinilega mikil gróska í austfirsku tónlistarlífi í ár sem endranær og verður spennandi að fylgjast með framvindu mála á næstu misserum og því tilvalið a slá tvær flugur í einu og sjá það markverðasta sem er að gerast og hitta vini og kunningja og umfram allt skemmtilegt fólk. Fleiri atriði eiga svo eftir að bætast við og sem tilboð á flugi að austan o.fl. og um að gera að fylgjast með  á www.promo.is Sjáumst hress með góða skapið í farteskinu á Austfirðingaballi á Players.

Þakkir !

Nú þegar vika er liðin frá brúðkaupinu, þá viljum við þakka öllum kærlega fyrir okkur.  Við þökkum Jónu Hrönn fyrir frábæra athöfn í kirkjunni. Guðmundi Rafnkel og Hlöðveri Smára fyrir frábæra músík bæði í  kirkjunni og í veislunni.  Grétar sömuleiðis fyrir frábæra harmónikkutónlist í veislunni.  Baldri þökkum við frábæra veislustjórn og  Heimi Berg og Sólrúnu fyrir að vera okkar einkabílsstjórar þennan dag.  Ingólfi Rafni og Dagrúnu  þökkum við fyrir  að standa vaktina og taka vel yfir 400 myndir af þessu öllu saman og færa okkur svo í svo fallegu umslagi og vel frágengnu.  Sveinu og Geir þökkum við fyrir að lána okkur bústaðinn sinn.  Maturinn frá Kokkarnir.is var frábær og diskótekið Dísa hélt uppi miklu stuði eftir borðhald. Svo að lokum þökkum við öllum þeim sem glöddu okkur með nærveru sinni og hlýhug þennan dag sem og þeim er sendu okkur gjafir og heillaóskir í tilefni dagsins. 

Svo erum við alltaf að bæta inn nýjum myndum í albúmið Brúðkaup.

 kveðja

Bergrós og Gísli


Brúðkaupið þann 25.ágúst

Við hjónaleysin gengum upp að altarinu þann 25. ágúst sl.   Athöfnin hófst kl. 14.00 í Bessastaðakirkju.  Börnin gengu á undan okkur inn kirkjugólfið.  Það var gaman hve margir samglöddust okkur bæði í kirkjunni og í veislunni á eftir. Veislan á eftir var í sal í Íþróttahúsinu á Álftanesi.  Allt var þetta dásamlegur dagur og kvöld og svo enduðum við í sumarbústað í Grímsnesinu sem Sveina og Geir voru svo elskuleg að lána okkur.  Hér að neðan  eru nokkrar myndir en fleiri má skoða í skoða myndaalbúm hér að neðan sjá Brúðkaup.  Stórkostlegur dagur !!!

  Brúðkaup 015

Brúðkaup 030

Brúðkaup 040

Brúðkaup 060


Gifting um næstu helgi

Það er óneitanlega mjög stór stund í lífinu, þegar  gengið er að altarinu og sumar 2006 087það gerist hjá okkur Bergrósu um næstu helgi, þann 25.ágúst n.k.  Þannig verður í nógu að snúast í vikunni og gaman að hitta vini og vandamenn.

Fagra Austurland.

Þá er Neistaflug í Neskaupstað á enda runnið.   Það eru nokkur atriði sem mér finnst standa uppúr á Neistaflugi.

  1. Hér skemmta sér allar kynslóðir saman og skemmtidagskráin er fjölbreytt.
  2. Á dagskránni yfir daginn sést varla vín á nokkrum manni en svo eru böll á kvöldin, bæði unglinga- og fulllorðinsböll.
  3. Burtfluttir Norðfirðingar eru duglegir að mæta.
  4. Ungir austfirðingar mæta og halda sig á tjaldsvæðinu á daginn og skemmta sér á kvöldin.
  5. Fólk komið á húsbílaaldurinn mætir og má sjá húsbíla og fellihýsi um allan bæ.
  6. Gunni og Felix eru sér kapituli útaf fyrir sig á þessari hátíð. Þeir eru límið í dagskránni og setja alltaf skemmtilegan svip á hátíðina.  Alltaf bráðskemmtilegir og glaðir á sviðinu.
  7. Neistaflugslagið er hægt að mæla með, en það má hlusta á það hér

Tími hinna gömlu útihátíða er liðinn.  Hátíðir eins og Húnaver, Atlavík og Galtalækur eru horfnar en þær voru yfirleitt samkomur unglinga. 

Í dag eru bæjarhátíðir nánast allt sumarið úti á landi, eins og danskir dagar, írskir dagar, bryggjuhátíðir og humarhátíð, svo eitthvað sé nefnt.  Þessar hátíðir hafa tekið yfir hinar hefðbundnu útihátíðir.   Öfugt við gömlu útihátíðirnar, þá skemmta allar kynslóðir sér saman bæjarhátíðunum og er það jákvæð þróun. 

Fréttamennskan af hátíðum er alltaf sér kapituli útaf fyrir sig.   Góðar athugasemdir við fréttamennskuna af Neistaflugi má lesa hér

Drottning allra hátíða er Þjóðhátíð í Eyjum.  Engin samkoma hefur jafn langa hefð og djúpar rætur.   Sú hátíð er einnig einskonar blanda af útihátíð og bæjarhátíð. Eyjamenn skemmta sér í dalnum á daginn og fara svo heim til sín á nóttunni.   Þjóðhátíð í  Eyjum lifir hvort sem annarsstaðar á landiu eru haldnar útihátíðir eða bæjarhátíðir.

Það er gott og gagnlegt að ungir og aldnir skemmti sér og njóti sumarsins.

 


Gummi bróðir gefur út geisladisk !

gummi brodir  plotu umslag  Gummi bróðir er að gefa út sinn fyrsta sólo geilsadisk.  Hann hefur áður  gefið út þó nokkrar plötur með hljómsveitinni SúEllen sem  hann hefur verið söngvari í síðan hann var mjög ungur.  Ég held  að hljómsveitin hafi verið stofnuð 1983 þegar Gummi var 13 ára.    

Gummi kom áðan og gaf "bróa"  áritað eintak.  Hann áætlar svo að halda útgáfutónleika um verslunarmannahelgina á Neistaflugi í Neskaupstað og svo trúlega aðra tónleika hér sunnanlands með Dúkkulísunum, snemma í haust.   Lög af disknum má finna á blog síðu Gumma.  Ég er nú enginn sérfræðingur í hljómlist og fráleitt hlutlaus, en mér finnst þessi diskur  ákaflega einlægur og skemmtilegur.   Mikill Gummi í þessum disk. 

Bæði SúEllen og Dúkkulísurnar eru stofnaðar snemma á níundaáratugnum þegar sápuóperan Dallas var vikulega í Ríkissjónvarpinu.   Hljómsveitin SúEllen fékk nafn sitt frá hinni ógæfusömu eiginkonu J.R..  Dúkkúlísurnar sungu, "Ég vildi ég væri Pamela í Dallas".   Bobby og Pamela voru fyrirmyndarhjón í þáttaröðinni  öfugt við J.R. og Sue Ellen.  Þannig eiga báðar þessar frægustu  hljómsveitir Austurlands nokkrar rætur í sápuóperum sjónvarpsins, þegar hljómsveitarmeðlimir voru að stíga sín fyrstu spor í músíkinni.   Ég fór suður í skóla 1982 og aldrei búið fyrir   austan eftir að maður  hleypti heimdraganum.    Þannig hefur maður fylgst með úr fjarlægðsumar 2006 212.   Set svo hér að lokum mynd af Gumma með þeim Bjartmari og Bjarna Tryggva en myndin var tekinn í fyrra í 40 ára  afmæli, mágkonu minnar hennar Gunnu Smára.

 

TIL HAMINGJU GUMMI !!!!


Helgin 14-16 júlí

sumar kanada og jol  2006 026

Góð en annasöm helgi að baki.  Dóttir mín Eyleif Ósk spilaði á Landssímamóti Breiðabliks, bæði með a og b liði Leiknis í Breiðholti.   Það er gaman að sjá framfarir stúlknanna í Leikni.

Jóhann bróðir og fjölskylda voru einnig hér og buðu börnunum á kayak.  Það var gert á Kasthúsatjörninni hér á Álftanesi.   Svo síðast  en ekki síst þá kom hún Bergrós mín frá Neskaupstað í gær.  Blíðan hér sunnanlands er mikil og fáir dagar á ári sem jafnast  á við síðustu daga.sumar kanada og jol  2006 038


Afmælisdagur sumra

Af félugum og vinum sem eiga afmæli í dag eru m.a.

  • Heimir Berg bróðir, fæddur 60. 
  • Kristinn Steinn, æskufélagi úr næsta húsi fæddur 62
  • Kristín Kristinsdóttir bekkjarsystir fædd 64
  • Kiddi á Sjónarhól, bekkjarbróðir fæddur 64
  • Í gær átti svo Fiffi bekkjaarbróðir afmæli.

Öll sömul til hamingju með daginn.


Haraldur Guðmundsson látinn

Aðfaranótt þann 1.júlí lést mágur minn, Haraldur Guðmundsson.  sumar 2006 020    Hjálagt er mynd frá síðustu jólum, á  myndinni er Haraldur, Bergrós systir hans og Lóló amma, en við höfum átt góð jól saman síðustu árin.  Haraldur lætur eftir sig tvö myndar börn, á foreldra og  ömmu á lífi og þrjár systur.    Guð blessi  minningu góðs drengs og veiti aðstandendum styrk á  þessum erfiðu tímum.  


Í minningu Harðar Stefánssonar.

Hörður StefánssonÍ gær fór ég með foreldrum mínum í jarðarför vinar þeirra Harðar Stefánssonar.  Jarðaförin var í Hveragerðiskirkju, en í Hveragerði hafði hann búið í hálfan annan áratug.  Þetta var falleg og látlaus athöfn og það var vel mætt.  Sérstaklega fannst mér gaman að sjá Norðfirsk andlit við athöfnina.

 

Hörður Stefánsson og fjölskylda tengjast einum af mínu fyrstu æskuminningum, er þau fluttu í húsið Freyju, næsta hús við ömmu og afa að Strandgötu 22 (Grund) í Neskaupstað. Foreldrar mínir áttu heima í kjallaranum hjá ömmu og afa.  Áður bjó Magnús Ölversson og fjölskylda  í  Freyju, en ég  og Jóhann bróðir lékum okkur við Sólveigu dóttir Magnúsar sem við kölluðum ávallt Lollu.   Magnús og fjölskylda flutti suður en í staðinn komu Kiddi og Stefán sem urðu leikfélagar okkar. Hörður litli bróðirinn í fjölskyldunni var svo í kerru á þessum árum en seinna átti hann eftir að verða vinur Guðmundar bróðirs.

 

Þegar við fluttum við uppá Urðarteig þá flutti Hörður og fjölskylda að Ásgarð ekki langt frá.  Kiddi Harðar var af okkur strákunum oft kenndur við húsið Freyju og kölluðum við hann gjarnan “Kidda í Freyju”.   Tilviljanir lífsins eru margar og seinna átti það fyrir þeim Stefáni og Lollu að verða hjón, en bæði höfðu um tíma átt sitt æskuheimili í Freyju á Norðfirði.

 

Pabbi og Hörður störfuðu saman í Lyonsklúbbnum á Norðfirði og sungu saman í Lyons kórnum.  Þegar Hörður var formaður, þá bauð klúbburinn Gunnari Þorsteinssyni  og mér til viku dvalar að Íþróttaskóla Sigurðar Guðmundssonar að Leirá í Borgarfirði.  Hörður og Pabbi voru einnig  saman í félagsskap sem fór m.a. í mörg ár í laxveiði í Selá í Vopnafirði.  Einnig fóru þeir saman á svartfugls “skitterí”.  Inná flugvelli fengum við strákarnir stundum að skjóta úr riffli á mark.  Það var undir styrkri leiðsögn Harðar.  Þegar Hörður  var í bæjarstjórn, þá tók mamma sæti í félagsmálanefnd að hans beiðni  og  sat þar lengi.  Stína Munda kona Harðar, klippti oft okkur bræðurna þegar við vorum litlir.  Hún var sjálfmenntuð í þeim fræðum og fórst það vel úr hendi.  Þannig var mikill samgangur á milli heimilanna.

 

Á æskuárunum var innbærinn á Norðfirði iðandi af lífi.  Við krakkarnir lékum okkur ýmist í fjörunni, smíðuðum fleka til að sigla á, nú eða kassabíla til að keyra.  Fremstur á meðal jafningja í fleka og kassabíla smíðinni var Kjartan Einars, sem snemma flutti með  foreldrum sínum til Grindarvíkur.    Á bryggjunum var ufsi veiddur, gjarnan gefinn til katta-Möggu, sem  gaf kisunum sínum ferska soðningu.  Það þótti óheppni að fá marhnút, eða massadóna eins og sá fiskur var einnig nefndur.  Að sama skapi þótti happadráttur að fá  þorsk.  Bryggjurnar voru BP-bryggjan, Gvendarbryggja og Mánabryggja.  Aðallega vorum við þó á BP bryggjunni, enda var BP-sjoppan fyrir ofan.  Konurnar í sjoppunni, Bogga á Sjónarhól og Sigga Þórðar höfðu vökul augu með okkur krökkunum, enda stundum ekki vanþörf á.

 

Eitt sinn datt einn af strákunum, Höskuldur í sjóinn við BP bryggjuna.   Hann náði að halda sér í spotta sem hékk utan á bryggjunni.  Steini Kolbeins og Stjáni Villa Brans komu hlaupandi en þeir voru innar í fjörunni að huga að sinni tryllu.  Annar hljóp beint út í sjó og hinn út á bryggjuna og skutlaði sér þar í sjóinn.  Höski hélt dauðahaldi í spottann og þeir björgðuðu honum.  Steini og Stjáni  fóru svo heim og skiptu um föt og  héldu áfram að huga að tryllu sinni, enda sumarið hábjargræðistími í trillubátaútgerð á Norðfirði.  Valli Jóhannesar, skutlaði Höska heim á sínum Scania Vabis vörubíl.  Mamma Höska setti hann í heitt bað, skipti um föt og svo fór hann aftur, daginn á eftir,   niður á bryggju að leika.  Svo var ekki meira með það.

 

Það var enginn fótbolta eða sparkvöllur í innbænum.  Þar var og er lítið undirlendi og spiluðum við  gjarnan fótbolta á hallandi túnum, uns við fundum lítinn flöt rétt fyrir innan Bergþórshvol. Þar bjó gamall maður, Sveinbjörn með konu sinni og sonum.   Þessi litli grasbali varð sparkvöllur okkar drengjanna.  Fljótlega fékk grasbalinn nafnið Swembley.  Í minningunni er  það Stína Munda mamma “Kidda í Freyju”  sem var höfundur að nafninu Swembley. Essið,  sem forskeyti við nafnið á hinum fræga velli, stóð fyrir Sveinbjörn.  Á meðal okkar drengjanna var því altalað um að fara  á Swembley í fóbolta, enda varð túnbalinn lengi leikvöllur okkar.

 

Það var spilað  á eitt mark og markmaður  varð    passa að sparka ekki  of langt út, þá fór boltinn í garðinn til Sveinbjörns.  Oftast var það ekkert mál en ég hygg að þetta hafi verið þreytandi fyrir fjölskylduna á Bergþórshvoli að hafa hóp af krökkum flest sumarkvöld við húsið hjá  sér.   Krakkar á þessu túni voru, m.a. Kiddi og  Höski, Stebbi og Kiddi, Kjartan, Kobbi og Sigrún, Siggeir, Jón Einar, Raggi, Addi og Kristín, Gunnar og Gústi litli.  Gugga og Munda, með litlu systir Karen fluttu svo í hverfið og bjuggu við þau forréttindi að faðir þeirra átti hestinn Skjóna.  Þannig var þetta dágóður hópur af krökkum innst í innbænum.

 

Sveinbjörn á Bergþórshvoli, eigandi Swembley,  hafði sem ungur maður búið í Sandvík og Hellisfirði, staðir  sem löngu eru komnir í eyði. Sveinbjörn var bróðir “katta-Möggu”.  Bæði héldu nábýli við dýr og þannig var Magga alltaf með ketti og Sveinbjörn með kindur og um tíma var hundurinn Snati einnig til heimilis á Bergþórshvoli.   Þau tilheyrðu kynslóð, sem á síðustu öld flutti úr sveit til bæja við sjávarsíðuna.  Þannig áttu margir Norðfirðingar rætur  í Mjóafirði, Hellisfirði, Viðfirði, Sandvík, Vöðlavík, nú eða  Helgustaðahreppi eins og Hörður Stefánsson.

 

Hörður las mikið og var fjölfróður um margt.  Hann var oftast á heimaleikjum Þróttar Nes og fylgdist með fótboltanum.    Ég man að Kiddi hélt alltaf með Í.A. enda spiluðu skyldmenni Stínu Mundu  í Skagaliðinu.  

 

Þegar Bubbi  Morthens kom með eina af sínu fyrstu ef ekki bara  þá fyrstu tónleika til Neskaupstaðar, þá var Hörður mættur, trúlega aldursforseti í salnum.   Sat að vísu ekki á fremsta bekk en til hliðar aftarlega. Bubbi hafði unnið sem farandverkamaður í Neskaupstað áður en hann varð frægur.  Það voru því margir á Austurlandi sem þekktu til Bubba áður en frægðarsól hans fór að skína.  Í upphafi feril síns var Bubbi hrjúfur og óheflaður listamaður, sem naut ekki endilega virðingar elítunnar í landinu.   Kannski kunni Hörður að meta hrjúfleikann  í Bubba og þá eiginleika að tala beint út, líka það sem stuðaði menn.  Þó Hörður hafi verið á köflum hrjúfur maður, þá var hann  næmur á margt  og kannski hefur honum boðið í grun að Bubbi Morthens ætti eftir að verða eitthvað meira.

Stefán var einu ári eldri en Jóhann bróðir og “Kiddi í Freyju” var einu ári yngri en Jóhann, og þ.a.l einu ári eldri enn ég.   Þannig vorum við Jóhann bróðir ekki í sömu bekkjum og þeir bræður.   Nýir félagar okkar allra komu úr röðum bekkjabræðra.  Allir fórum við hver sína leið á unglingsárum, og áfram út í lífið.  Raunar búa flest, okkur sem lékum  á Swembley “í denn” ekki lengur í Neskaupstað. 

 

Það var ánægjulegt að sjá í jarðarförinni, hve myndarleg börn þeir bræður eiga og kom glögglega fram í minningarræðunni um Hörð hve stoltur hann  var af sínum börnum og barnabörnum.

 

Hörður var, eins og  allir menn,  ekki gallalaus.  Bakkus  var lengi fyrirferðamikill ferðafélagi  í hans lífi en varð svo farastjóri sem tók völdin.  Bakkus er harður húsbóndi og eftir  að Hörður hafði leitað sér  hjálpar þá fékk hann áfall árið 1994 og var eftir það bundinn  í hjólastól. 

 

Þegar Hörður og Stína Munda fluttu til Hveragerðis minnkuðu eðlilega samskipti  þeirra við foreldra mína.  Vináttan var og er  traust og ofast þegar foreldrar mínir komu til Reykjavíkur var tekinn bíltúr til Hveragerðis til að heimsækja þau.  Ég veit að strengur á milli Stínu og foreldra minna verður áfram einlægur og sterkur.

 

Hörður Stefánsson og fjölskylda er hluti af björtum myndbrotum æskunnar.  Án hans hefði tilveran verið öðruvísi og fátæklegri.  Ég kveð hann með þessum línum:

Áin hefur streng, sem streymir,

stóran foss og hyl, sem dreymir.

Henni varstu í háttum skyldur,

kvikur í bragði, en þó svo mildur.

(Guðm. Friðj.)

Blessuð sé  minnig  Harðar Stefánssonar. Eiginkonu, sonum og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gísli Gíslason

Höfundur

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Höfundur er 45 ára frá Norðfirði, búsettur á Álftanesi, faðir og áhugamaður um jafnréttismál
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_3280
  • m6 toll plaza great wyrley
  • Vegatollur-banner2
  • Vegatollur-banner2
  • isbjörn

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 186002

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband